*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Andrés Magnússon
1. september 2019 13:43

Rugl & rusl

Spurningar vakna um það hvort DV sé fréttamiðill lengur, vandinn er sá að um þetta rusl er búið líkt og það sé fréttir.

Ekki náðist sá árangur á fundi leiðtoga Bandaríkjanna og Rússa í Höfða sem honum var eignað í frétt RÚV á dögunum.

Tekjublað DV kom út í liðinni viku, árleg samantekt á áætluðum launum liðlega 2.000 Íslendinga, sem jafnframt var moðað úr á netmiðli DV. Á forsíðu blaðsins gat að líta samsetta mynd af ýmsu stórmenni, misstóru eftir áætluðum tekjum þess, en bakgrunnurinn var milljónakvarði mánaðarlauna. Þar var stærstur Kári Stefánsson hjá Íslenskri erfðagreiningu, en næststærstur var öllum að óvörum Illugi Gunnarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra. Í kynningu á blaðinu á dv.is sagði enda þetta, feitletrað og sérstaklega út dregið:

Illugi Gunnarsson er með rúmar fjórtán milljónir króna á mánuði en hann hefur setið í ýmsum nefndum síðan hann hætti á þingi árið 2017.

Þetta er að vísu alveg einkennilega endaslepp skýring. Á vegum ríkisins starfa hátt í 700 nefndir, en hins vegar má heita til undantekninga nú orðið að menn þiggi laun fyrir, nema nefndarstörfin séu þeim mun tímafrekari. Jafnvel þá eru þóknanir fyrir nefndastörf mjög hóflegar.

Til þess að Illugi næði 14 kúlum á mánuði með setu í „ýmsum nefndum“ blasir við að hann þyrfti að sitja í öllum launuðum nefndum ríkisins og helst tvisvar.

Það er auðvitað frekar ósennilegt, sem hefði a.m.k. átt að verða DV tilefni til þess að grennslast frekar fyrir um hvaðan hann hefði þessi ofboðslegu laun, hvort hann hefði tíma til nokkurs annars, hvort ekki kæmi þar eitthvað annað til, nú eða mögulega ástæða fyrir DV til þess að kanna gögnin betur.

Málið var auðvitað það að þetta var þvæla. DV hafði einhvers staðar gert mistök í útreikningi sínum, sett kommuna á vitlausan stað. Illugi er með laun í námunda við 1,4 milljónir á mánuði, ekki 14.

Stundin sá í hendi sér að það var eitthvað bogið við þetta, grennslaðist fyrir um málið og birti frétt um ruglið á vef sínum skömmu síðar, að Illugi væri hreint ekki jafnmúraður og DV héldi fram.

Hringbraut tók frétt DV hins vegar gagnrýnislaust upp og prjónaði við upprifjun á því hvað hann væri vondur maður. Sem gerði leiðréttinguna svo enn vandræðalegri þegar hún kom. Og hálfu aumkunarverðari fyrir það að aðeins fyrir rúmu ári fór Hringbraut mannavillt í tekjublaði DV og sakaði vammlausan opinberan starfsmann um óverðskulduð ofurlaun og spillingu. Sá ljóti pistill er enn óleiðréttur á vef Hringbrautar.

Þrátt fyrir leiðréttingu Stundarinnar var DV ótrúlega seint til leiðréttingar á vef sínum og þá með sleifarlagi; rangfærslan fjarlægð en ruglið í kring ekki. Hins vegar tafðist útgáfa prentútgáfunnar um dag, væntanlega til þess að tína út versta bullið, en eftir situr forsíðan með Illuga í aðalhlutverki ásamt Kára (en Róberti Wessman af einhverri ástæðu sleppt).

Öllum geta orðið á mistök og ein Excel-villa getur verið afdrifarík. En hér er vandinn ekki síður sá að grundvallarvinnubrögð í blaðamennsku og vottur af fréttanefi hefðu komið í veg fyrir þau. 14 milljónir á mánuði? Fyrir hvað? Nefndarsetur?! Nei, þar er augljóslega einhverskonar maðkur í mysunni, en allt fór það fram hjá DV. Og þegar helsti keppinauturinn sér það á augabragði og leiðréttir, þá tekur bara við eitthvert fát, aðeins því versta kippt út en forsíðan látin eiga sig! Kannski DV ætti að snúa sér að einhverju öðru.

                                                                                                 * * *

En kannski það sé meinið, að DV er búið að snúa sér að einhverju öðru. Þar birtist í liðinni viku stórfrétt: „Bjarni Ben hættir í pólitík og einbeitir sér að hjálparstarfi“ en þegar á var smellt kom í ljós að DV hafði lagt niður tarotspil til þess að glöggva sig á framtíð fjármálaráðherra og þetta var niðurstaðan!

Þegar fréttamiðill er kominn á þessar brautir – til þess að blekkja fólk til að smella – er hann ekki lengur að segja fréttir heldur tilviljanakenndan skáldskap. Eða bara lygar.

                                                                                                 * * *

Ýmis önnur umfjöllun DV í framhaldi af tekjublaðinu fékk fjölmiðlarýni til þess að staldra við. Þar var t.d. „frétt“ um tekjur áhrifavalds á félagsmiðlum, sem voru frekar hóflegar („þernulaun“ sagði DV), en látið fylgja með að þau hjónin hefðu nýverið fest kaup á dýru húsi og ekkert voða fínlega gefið til kynna að miðað við uppgefnar tekjur hefðu þau tæpast ráð á því, en ekki þurfti mikið ímyndunarafl til þess að lesa ásökun um skattsvik milli línanna.

Nú þarf ávallt að taka tölum í tekjublöðum með fyrirvara, þar sem aðeins er miðað við launatekjur. Þegar við bætast ályktanir vegna fasteignaviðskipta er á enn minna að byggja, ekkert liggur fyrir um heildarskattgreiðslur, hvort þau leigja út húsið eða hluta þess, lánshlutfall eða annað. Þessi tilreiðsla „fréttar“ var ekkert annað en getgátur blendnar meinfýsni.

                                                                                                 * * *

Það vekur spurningar um það hvort DV sé fréttamiðill lengur. Og þá hvort það eigi að eyða rými í þessum dálkum til þess að fjalla um DV. Ekki þarf annað en að líta á forsíðuna á dv.is til að sjá að miðillinn flytur sárafáar fréttir í eiginlegum skilningi, þá yfirleitt enduróm eða vinkil á fréttum annars staðar frá, en uppistaðan eru endursagnir á stóryrtum stöðufærslum af Facebook í bland við erlendar furðufréttir.

Vandinn er sá að um þetta rusl er búið líkt og það sé fréttir og meðan svo er er víst nauðsynlegt að finna að því.

                                                                                                 * * *

Út í heim og þó. Kristín Sigurðardóttir sagði frétt um liðna og óorðna atburði í kvöldfréttum RÚV á sunnudag. Fyrirsögnin var „Óttast að Ísland geti dregist inn í átök“ en þar var fjallað um yfirvofandi heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í næstu viku og erindi hans við íslenska ráðamenn.

Vikið var að aukinni spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands og minnt á að nýverið hefðu ríkin hætt þátttöku í afvopnunarsamningi um meðaldrægar kjarnaflaugar (INF). Kristín var raunar ekki með undirstöðuatriðin á hreinu. Þau hættu ekki þátttöku, samningurinn rann út í febrúar.

Enn furðulegra var þó að heyra Kristínu halda því fram að sá samningur hefði verið undirritaður í Höfða fyrir 30 árum. Eins og allir vita fór Reykjavíkurfundur þeirra Reagans og Gorbatsjovs fram fyrir 33 árum, en hann fór út um þúfur líkt og flestum öðrum en Kristínu er kunnugt. INFsáttmálinn var hins vegar undirritaður af þeim kumpánum í Hvíta húsinu rúmu ári síðar, eins og var raunar sýnt í myndskeiði í fréttinni og allir gátu áttað sig á að væri ekki úr Höfða.

Ekki varð fréttin þó minna skrýtin eftir þennan einkennilega formála, því þá var kynntur til sögunnar Sumarliði Ísleifsson, sagnfræðingur við Háskóla Íslands, sem kvaðst vona að Ísland væri ekki að dragast inn í vígbúnaðarkapphlaup: „sú hætta [er] fyrir hendi og það er kannski líka það sem maður óttast. Alþjóðapólitíkin er svo ófyrirsjáanleg núna,“ sagði Sumarliði. Hann hvatti íslenska ráðamenn að tala fyrir friði á Norðurslóðum þegar þeir tækju á móti varaforsetanum og lét þá skoðun jafnframt í ljós að heræfingar á og við landið stuðluðu ekki að honum.

Þetta eru svo sem alveg gild sjónarmið og ekki sérlega frumleg, en Sumarliði var aðeins kynntur sem sagnfræðingur við HÍ og áhorfendur höfðu því ástæðu til þess að ætla að hann væri að láta í ljós sérfræðilega og hlutlausa skoðun á þessum álitaefnum. Vandinn er sá að hann hefur í fræðastörfum sínum ekkert fengist við alþjóðastjórnmál, hvað þá öryggis- og varnarmál.

Sumarliði er lektor í hagnýtri menningarmiðlun, en sagnfræðirannsóknir hans hafa einkum varðað ímynd Íslands frá miðöldum til miðrar 18. aldar annars vegar og sögu íslenskrar verkalýðshreyfingar hins vegar. Við blasir að þarna var Sumarliði aðeins að reifa almennar skoðanir sínar, sem ekki höfðu meira gildi fyrir fréttina eða áhorfendur en ef listfræðingur eða leikskólastjóri hefðu verið inntir álits á förnum vegi.

Nú er í háskólasamfélaginu sægur fræðimanna á þeim sviðum, sem þarna um ræðir, en enginn þeirra var spurður. Hvers vegna varð Sumarliði fyrir valinu og af hverju var kynningin á honum svo naum að villandi má teljast? Það er hrein ráðgáta.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.