*

föstudagur, 14. maí 2021
Leiðari
16. apríl 2021 11:14

Rúin trausti og með veikt umboð

Almenningur ber minnst traust til borgarstjórnar Reykjavíkur, sem er afrek þegar haft er í huga bankakerfið og þjóðkirkjan mælast með meira traust.

Nýr meirihluti í borginni var kynntur við Breiðholtslaug þann 12. júní 2018.
Haraldur Guðjónsson

Fyrir að verða þremur árum síðan féll meirihlutinn í Reykjavík. Samfylkingin, Vinstri græn og Píratar fengu 10 borgarfulltrúa af 23 en Björt framtíð, sem einnig hafði verið í meirihluta, bauð ekki fram lista. Samfylkingin, með Dag B. Eggertsson borgarstjóra innanborðs, var ótvíræður ósigurvegari kosninganna. Fylgið fór úr tæpum 31,9% í 25,9. Vinstri græn fóru úr ríflega 8,3% í 4,6. Voru Píratar eini flokkurinn í meirihlutanum sem bætti við sig en flokkurinn fór úr 5,9% í 7,7.

Viðreisn tók í fyrsta skiptið þátt í borgarstjórnarkosningum árið 2018. Flokkurinn fékk 8,2%. Þótt það hafi verið 1,5 prósentustigum meira en flokkurinn hafði fengið í þingkosningunum 2017 var niðurstaðan vonbrigði. Ekki síst í því ljósi að þreifingar höfðu verið á milli Bjartrar framtíðar og Viðreisnar um samstarf í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna, sem ekkert varð úr. Einhverjir hefðu því talið að Viðreisn myndi ná í eitthvað af fylgi Bjartrar framtíðar, sem í borgarstjórnarkosningunum 2014 hlaut 15,6% atkvæða. Svo því sé haldið til haga þá var Björt framtíð pólitískur arftaki Besta flokksins, sem árið 2010 fékk 34,7% atkvæða.

Eftir kosningarnar töldu flestir að dagar meirihlutans væru taldir en forystumenn Viðreisnar ákváðu að halda lífi í meirihlutanum með því að ganga inn í samstarfið og Dagur hélt borgarstjórastólnum. Þessi meirihluti hlaut samtals um 27 þúsund atkvæði af 59 þúsundum atkvæða. Þetta dugði til að mynda meirihluta með 12 borgarfulltrúum af 23. Það breytir því ekki að núverandi meirihluti er einungis með 46% atkvæða á bak við sig og því má færa sterk rök fyrir því að umboðið sé veikt.

Þrátt fyrir þetta hefur meirihlutinn í borginni heldur betur látið til sín taka í ýmsum málum. Hann er til að mynda með mjög skýra stefnu í umhverfis-, samgöngu-, lóða- og flugvallarmálum. Stefnu sem snýr helst að því að útrýma einkabílnum, þétta byggð og færa flugvöllinn úr Vatnsmýrinni.

Samgöngumálin eru sérkapítuli útaf fyrir sig. Þar virðist Borgarlínan, strætisvagnar á sérakreinum, eiga að leysa öll vandamál. Eins og staðan er í dag þá er Borgarlínan útópísk framtíðarsýn sem kosta mun tugi milljarða ef ekki meira. Fyrir fjórum árum var kostnaðurinn sagður 63 til 70 milljarðar króna en ekki hefur verið lögð fram nákvæm kostnaðaráætlun síðan þá. Og það sem verra er að aldrei hefur rekstraráætlun litið dagsins ljós.

Fyrr á árinu samþykkti meirihlutinn síðan aðgerðaráætlun í loftslagsmálum frá 2021 til 2025, þar sem m.a. er stefnt að því að „fletta upp malbiki og draga úr umfangi akvega" eins og það er orðað. Þá á að fækka bílastæðum í borgarlandinu um 2% á ári, sem þýðir að bílastæðum mun fækka um nokkur þúsund á næstu árum. Er þetta skammsýni þegar haft er í huga að sala vistvænna ökutækja eykst ár frá ári. Að fækka bílastæðum dregur ekki úr mengunarlosun þegar allir verða komnir á rafbíla.

Þá eru dæmi um að fjölbýlishús séu byggð á þéttingarreitum, þar sem ekki einu sinni eitt bílastæði fylgir hverri íbúð. Þá sjá allir að íbúarnir, og gestir þeirra, munu bara leysa það með því að leggja í nærliggjandi götum eða á bílastæðum sem fylgja öðrum húsum.

Fyrst við erum komin í íbúðamálin þá sýna tölur að þetta stærsta sveitarfélag landsins hefur dregið lappirnar í lóðaúthlutunum. Á það sinn þátt því að nú, enn og aftur, hefur skapast mikið ójafnvægi á fasteignamarkaðnum og íbúðaverð hækkað mikið. Stærsta sveitarfélag landsins á að vera leiðandi á þessu sviði.

Mikil umræða hefur verið um að flytja innanlandsflugið úr Vatnsmýrinni og í Hvassahraun. Fyrirhugað flugvallarstæði er um 15 kílómetrum frá gosstöðvunum við Geldingadali. Þó að hraunið muni líklega ekki ná þangað þá eru á svæðinu við Hvassahraun gígar eins og Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, sagði í samtali við RÚV í byrjun mars. Árið 2015 var kynnt skýrsla starfshóps, þar sem sagði að mjög litlar líkur væru á hraunrennsli við Hvassahraun næstu aldir. „Það er vitleysa," sagði Þorvaldur.

Þrátt fyrir þetta lagði meirihlutinn fram bókun á síðasta borgarstjórnarfundi, þann 16. mars, þar sem segir að vinna við fullkönnun og undirbúning Hvassahraunsflugvallar sé í fullum gangi „og mikilvægt að það verkefni sé unnið áfram markvisst og faglega". Hvers vegna er það mikilvægt? Á tímum heimsfaraldurs er það vissulega atvinnuskapandi að sem flestir hafi vinnu en það veit það hvert mannsbarn að eftir atburði síðustu vikna verður aldrei byggður flugvöllur í Hvassahrauni.

Hér hefur einungis verið stiklað á stóru í stefnumálum meirihlutans í borginni en til viðbótar má nefna að í stjórnartíð hans hefur verslun í miðborginni drabbast niður. Er það efni í annan leiðara. Allt hefur þetta orðið til þess að af öllum stofnunum sem Gallup mælir ber almenningur minnst traust til borgarstjórnar Reykjavíkur. Það er afrek útaf fyrir sig, sérstaklega þegar haft er í huga að stofnanir, sem gengið hafa í gegnum mikinn hreinsunareld á síðustu árum, mælast með meira traust og dugir þar að nefna bankakerfið og þjóðkirkjuna.

Stikkorð: borgarmál
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.