*

fimmtudagur, 5. desember 2019
Örn Arnarson
6. júlí 2019 13:43

Rukkað inn á fjártæknibyltinguna

Þrátt fyrir að einstaklingar geti sótt upplýsingar frá stofnunum á borð við ríkisskattstjóra og Þjóðskrá án endurgjalds þá er innheimt sérstakt gjald ef fjármálafyrirtæki sækir þær.

Haraldur Guðjónsson

Frá aldamótum hafa flestir Íslendingar kosið að telja fram með rafrænum hætti enda hefur embætti ríkisskattstjóra löngum verið í fararbroddi þegar að því kemur að innleiða stafrænar lausnir til þess að bæta þjónustuviðmót.

Með tilkomu fjártækninnar hafa fjármálafyrirtæki fetað sömu leið. Viðskiptavinir þeirra geta þannig sótt um lánafyrirgreiðslu á Netinu á nokkrum mínútum. Fyrir nokkrum árum kallaði slíkt á fjölmargar ferðir viðskiptavina í útibú og stofnanir til að safna viðeigandi gögnum.

Þessari þróun fylgir mikið hagræði og veruleg tækifæri eru að myndast til þess að lækka kostnað í fjármálakerfinu viðskiptavinum þess til hagsbóta. Brýnt er að umgjörð þessarar þróunar sé með þeim hætti að tryggt er að viðskiptavinir fjármálafyrirtækja njóti góðs að og að hún fullnýti þá hagræðingu sem er innan seilingar. Því miður hafa fjármálafyrirtækin verið að reka sig á að opinberar stofnanir haga ekki alltaf málum með þessum hætti.

Þrátt fyrir að einstaklingar geti sótt upplýsingar frá stofnunum á borð við ríkisskattstjóra og Þjóðskrá án endurgjalds þá er innheimt sérstakt gjald ef fjármálafyrirtæki sækir þessar sömu upplýsingar til þessara stofnana í tengslum við lánafyrirgreiðslu. Þar sem stór hluti viðskiptavina kýs að sækja um lánafyrirgreiðslu með rafrænum hætti eru viðskiptabankar farnir að greiða verulegar upphæðir vegna aðgangs upplýsinga á borð við skattskýrslur og fasteignamat. Þetta fyrirkomulag vinnur einnig gegn þeim heilbrigðu hvötum sem stafræna þróunin og fjártæknibyltingin hafa til að gera fjármálaþjónustu skilvirkari neytendum til hagsbóta.

Það er löngu tímabært að stjórnvöld og þjónustufyrirtæki á borð við fjármálafyrirtæki ræði um þessi mál. Það samtal þarf að snúast um hvernig beri að haga fyrirkomulagi þess þegar fyrirtæki þurfa að sækja gögn til hins opinberra og markmiðið ætti að vera að hámarka hag viðskiptavina.

Höfundur er sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.