*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Andrés Magnússon
25. mars 2017 10:10

Ruslflokkur

„Hvað skal segja þegar fjölmiðlarnir eru beinlínis valdir að misskilningi, þar sem fáfræði og fordómar virðast haldast í hendur?“

Haraldur Guðjónsson

Sem kunnugt er vinnur líkið af Kaupþingi nú að því að ganga frá sölu á allt að 50% hlut félagsins í Arion banka í lokuðu útboði til bandarískra fjárfestingasjóða og hóps íslenskra lífeyrissjóða. Eins og vonlegt er hafa menn ýmsar skoðanir á því öllu, kaupendum og seljendum, mögulegu verði, áhrifum á íslenskan peningamarkað og svo framvegis.

Sumt af því er óneitanlega blandið nokkrum móralíseringum, sleggjudómum um þá sem í hlut eiga, jafnvel varnaðarorðum um nýtt hrun. — Af því menn hafi gleymt því að hér varð hrun, ekkert lært af skýrslu rannsóknarnefndarinnar og svo framvegis. Af öllu því má bæði hafa gagn og gaman. Við blasir að menn vilja draga lærdóma af atburðarásinni undanfarin ár og varast vítin. Sumir telja sig raunar hafa gert það fyrir löngu og viti því flest sem máli skiptir um kaupendur, seljendur, verðhugmyndir, bankarekstur og svo framvegis. Lausnirnar liggja ekki alltaf fyrir, en þeir sem hæst hafa um fjallað eru a.m.k. nokkuð vissir um hvað eigi ekki að gera.

Ekki er það þó allt reist á grundvallaðri vitneskju. Um ákafann getur hins vegar enginn efast. Vandinn er sá að í fréttaskrifum getur hann verið varhugaverður. Eldmóðurinn má gjarnan brjótast út í skrifum og stílbrögðum, en hann má ekki lita inntakið. Hann má ekki verða til þess að málið verði flóknara fyrir lesandann og alls ekki til þess að staðreyndir víki fyrir tilfinningu blaðamanns eða ritstjórnarstefnu miðilsins. Þannig fréttir eru rangar, ef ekki falskar.

                                                                * * *

Þegar fregnir voru sagðar af sölunni á hlutunum í Arion stöldruðu sumir við að þar á meðal væru erlendir vogunarsjóðir og efuðust um að þeir væru heppilegir eigendur viðskiptabanka. Sumir gengu lengra og töldu það nánast ósæmilegt, efuðust um að sjóðir sem voguðu sér þetta og hitt væru siðlegir og þar fram eftir götum. Hrægammar komu við sögu.

Sumt af þessu er fullkomlega eðlilegt að ræða, bæði rétt og nauðsynlegt. Annað er hins vegar byggt á verulegri fáfræði, jafnvel fordómum. Það tjóir lítið að sakast við fólk á Facebook um það; það er nær að fjölmiðlar líti í eigin barm vegna þess.

En hvað skal segja þegar fjölmiðlarnir eru beinlínis valdir að misskilningi, þar sem fáfræði og fordómar virðast haldast í hendur?

Vísir, Kjarninn, Morgunblaðið og Stundin birtu þannig þrungnar fréttir á þriðjudag um að einn af vogunarsjóðunum sem keyptu hlut í Arionbanka hefði farið í ruslflokki daginn áður.

Fyrir það fyrsta er fréttin röng. Umræddur sjóður, Och Ziff Capital, var í ruslflokki fyrir. S&P færði hann hins vegar niður um einn flokk, úr BB+ í BB. Sem er örugglega leiðinlegt fyrir þá og endurspeglar óvissari rekstarhorfur hjá sjóðnum. En það er rangt að OZ hafi farið niður í ruslflokk við það. Sem segir manni að þessir miðlar hafi hvorki mikla þekkingu á lánshæfiseinkunnum, né kunni að lesa úr fréttaskeytum á ensku. Sem er verra.

Hitt er engu skárra að menn telji það einhver sérstök tíðindi að vogunarsjóður sé í ruslflokki. Nú er heitið „ruslflokkur“ auðvitað afar gildishlaðið og frekar villandi. Það tekur til verðbréfa, sem ekki eru við hæfi stofnanafjárfesta eins og lífeyrissjóða, vegna þess að þau eru áhættumeiri en öruggari pappírar og geta jafnframt gefið af sér hærri ávöxtun. En það er ekki eins og sjóðurinn sé í rusli eða sé rusl, eins og varla þarf að rekja fyrir lesendum Við­skiptablaðsins.

Og ekki er það eins og áhætta sé Íslendingum framandi, lítið bara á vextina!

                                                                * * *

Hér var í síðustu viku minnst á rekstur Fréttatímans, þar sem rekstur ritstjórnar hefur verið aðskilinn frá öðrum þáttum útgáfunnar. Ritstjórnina á að reka fyrir gjafafé frá almenningi, en ritstjórinn og aðrir eigendur njóta arðsins ef einhver verður. Svolítið spes, en þó sjálfsagt skárra en að senda almenningi reikninginn eftir á.

Af því tilefni sendi aðdáandi síðunnar línu og minnti á að þetta væri alls ekki jafnmikil nýjung og sumir virtust halda. Haustið 2001 hefðu athafnaskáldin á Skjá einum nefnilega keypt opnuauglýsingu í Morgunblaðinu og óskað eftir frjálsum framlögum frá almenningi. Fjölmiðlarýnir man ekki annað en að söfnunin hafi gengið vonum framar (hann gaf sjálfur!), en fjárhagur Skjásins átti nú samt eftir að versna og menn muna hvernig það allt endaði.

Fjáröflun til rekstrar fjölmiðla er lögmæt, en þó því aðeins að tilkynning um söfnunina hafi borist lögreglustjóra áður en hún fór fram.

Fróðlegt væri að vita hvort Fréttatíminn eða aðrir aðstandendur hafi sent slíka tilkynningu til lögreglustjóra. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.