Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, var í merkilegu viðtali við Morgunblaðið í vikunni. Ráðherra boðar þar nýja fjölmiðlastefnu sem ráðuneytið vinnur að sem ætlað er að styðja við starfsumhverfi fjölmiðla í „ríkara mæli en áður hefur verið“. Það þýðir væntanlega að hún hyggst flækja regluverk enn frekar og hækka ríkisstyrki.

***

Lilja fer í viðtalinu yfir þær áskoranir sem íslenskir fjölmiðlar standa frammi fyrir eins og reyndar fjölmiðlar um allan heim, að hún telur. Þannig nefnir hún að auglýsingatekjur fari í auknum mæli út fyrir landsteinanna til stóru streymisveitnanna. Þá glími fjölmiðlar um allan heim við sömu tæknirisanna sem draga til sín auglýsingatekjur. Nefnir hún þar Meta, með Facebook og Instagram, ásamt Google og Apple sem fyrirferðarmikla keppinauta íslenskra fjölmiðla á auglýsingamarkaði.

***

Það sem helst er merkilegt við þetta viðtal er að Lilja vék ekki einu orði að risastóra fílnum í herberginu. Fílnum sem einkareknir fjölmiðlar hafa verið óþreytandi að benda á að hafi skaðlegust áhrif á rekstrarumhverfi þeirra: umsvif RÚV á auglýsingamarkaði. Sú áskorun er fullkomlega heimatilbúinn vandi sem íslenskir fjölmiðlar eiga almennt ekki sameiginlegan með fjölmiðlum um allan heim, þótt dæmi séu um það. Væri ekki nærtækara að ráðherrann byrjaði á að reita illgresi í eigin garði áður en hann beinir spjótum að ytri umhverfisáhrifum sem hann hefur takmarkaða stjórn á?

***

Lilja sagði stöðu íslenskra fjölmiðla vekja upp spurningar um hvaða áhrif útlenska ógnin hefði á hlutverk fjölmiðla sem fjórða valdsins í aðhaldi við stjórnvöld. Þetta er grátbrosleg vangavelta í ljósi þess að ráðherra virðist ekki spyrja sig hvaða áhrif það, að gera alla einkarekna fjölmiðla landsins háða ríkisspenanum til að verja stöðu stærsta ríkismiðilsins, hafi á hlutverk þeirra sem fjórða valdsins í aðhaldi við stjórnvöld?

***

Týr er meðvitaður um að hann sé kominn á hættulegar slóðir með að gagnrýna stöðu RÚV. Nú mun RÚV, sem árlega þiggur milljarða í fjárveitingar frá ríkinu, væntanlega hæðast að Viðskiptablaðinu fyrir að hafa þegið ölmusu frá ríkinu sem skaðabætur fyrir hið óboðlegt rekstrarumhverfi sem vera RÚV á auglýsingamarkaði skapar einkareknum miðlum. Einmitt eins og miðillinn gerði á dögunum þegar hann sendi Sýn pillu í kjölfar eðlilegrar gagnrýni þaðan.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins, en þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 16. mars.