*

fimmtudagur, 28. október 2021
Leiðari
15. janúar 2021 10:30

RÚV er skekkjan

Ríkisútvarpið er eins og iðnaðarryksuga á auglýsingamarkaðnum, þar sem einkamiðlarnir reyna af veikum mætti að sjúga upp smámolana sem risinn náði ekki.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Síðastliðin 34 ár hefur fréttastofa Stöðvar 2 verið með kvöldfréttir í opinni dagskrá. Tilkoma hennar var mikið framfaraskerf í íslenskri fjölmiðlun því fram að þeim tíma fengu landsmenn allar sínar sjónvarpsfréttir frá Ríkisútvarpinu. Þau tíðindi bárust á dögunum að forsvarsmenn Sýnar hefðu tekið þá ákvörðun að kvöldfréttir Stöðvar 2 yrðu frá og með næstkomandi mánudegi einungis aðgengilegar áskrifendum Stöðvar 2. Í tilkynningu frá Sýn segir að með þessu sé verið að tryggja grundvöll fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar til framtíðar. Ljóst er að vonir stjórnenda Sýnar standa til þess að áskrifendum fjölgi í kjölfarið með tilheyrandi tekjuaukningu fyrir fyrirtækið.

Þegar fréttastofa Stöðvar 2 fór fyrst í loftið fyrir 34 árum var Ingvi Hrafn Jónsson fréttastjóri Ríkisútvarpsins. Páll Magnússon var ráðinn fréttastjóri Stöðvar 2 en hann hafði fram að því starfað við hlið Ingva Hrafns hjá Ríkisútvarpinu sem varafréttastjóri. Ingvi Hrafn lýsir ágætlega hvaða þýðingu það hafði að fá loks samkeppni. „Ég man hversu yndislegt það var að finna ólgu samkeppni í æðum okkar allra, sem höfðum setið feit og fín í fréttaeinokunarmusterinu við Laugaveg,“ sagði hann í færslu sem hann birti á Facebook eftir að ljóst var að fréttir Stöðvar 2 yrðu ekki lengur í opinni dagskrá. Á þessum tíma var Ríkisútvarpið til húsa við Laugaveg 176. Bætti hann því við að þessi einokunarstaða mætti einfaldlega ekki koma upp aftur. Tilhugsunin um einokun ríkisfrétta í sjónvarpi væri nöturleg. Ljóst væri að ákvörðunin um að færa fréttir Stöðvar 2 í lokaða dagskrá væri í boði auglýsingasölu ríkisins á RÚV.

Þarna komum við að kjarna málsins. Á meðan eigendur einkarekinna fjölmiðla berjast í bökkum við að halda þeim á floti búa stjórnendur Ríkisútvarpsins við þann munað að geta treyst á um 5 milljarða króna framlag frá skattgreiðendum á hverju ári og því til viðbótar er þetta opinbera fyrirtæki á auglýsingamarkaði. Á síðustu árum hafa auglýsingatekjur RÚV numið um og yfir 2 milljörðum króna á ári. Það vita allir, sem eitthvað hafa velt fyrir sér íslenskum fjölmiðlamarkaði, að þarna liggur skekkjan.

Það er hins vegar sama hversu oft er bent á þessa skekkju – ekkert er gert. Þvert á móti hefur hún nú verið fest í sessi með nýjum þjónustusamningi við RÚV. Menntamálaráðherra var í hátíðarskapi því samningurinn var undirritaður á milli jóla og nýárs og gildir til ársins 2023. Í þessum samningi eru engar grundvallarbreytingar gerðar á fjármögnun ríkisfyrirtækisins þrátt fyrir að ráðherrann hafi opinberlega sagt annað. „Ég hef talað fyrir því að við horfum til Norðurlandanna. Þar eru ríkisfjölmiðlarnir ekki á auglýsingamarkaði. Ég teldi farsælast að svo væri líka á Íslandi …“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í viðtali við Morgunblaðið 16. ágúst 2019.

Það er ekki nóg með að Ríkisútvarpið selji auglýsingar heldur hefur það boðið viðskiptavinum sínum tuga prósenta afslátt af sinni verðskrá. Það er hreinlega með ólíkindum að slíkt hafi verið látið líðast. Að ríkisfyrirtæki, sem hefur margra milljarða króna forgjöf í formi opinbers stuðnings, skuli geta keyrt auglýsingaverð niður, svona eins og það standi öðrum miðlum jafnfætis og eigi í eðlilegri samkeppni. Það er ekkert eðlilegt við þessa samkeppni.

Ríkisútvarpið er eins og iðnaðarryksuga á íslenska auglýsingamarkaðnum, þar sem einkamiðlarnir reyna af veikum mætti að sjúga upp smámolana sem risinn náði ekki. Í gegnum árin hefur þessi ráðahagur eðlilega haft mikil áhrif á rekstur einkarekinna fjölmiðla og framboðið.

Staða Ríkisútvarpsins er ógnvænlega sterk og því fylgja hættur. Fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði er algjört grundvallaratriði í lýðræðisríki. Besta leiðin til að tryggja hana er að allir sitji við sama borð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.