

Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra er greinilega margt til lista lagt. Undanfarin þrjú rekstrarár hefur hann verið með RÚV réttum megin við núllið og rúmlega það. Á síðasta ári nam afgangurinn ríflega 320 milljónum króna.
Reyndar fær RÚV ríflega fjögurra milljarða forgjöf á aðra fjölmiðla í formi útvarpsgjalds og í ofanálag rekur hann eina skilvirkustu auglýsingadeild í bransanum. Deild sem seldi meðal annars sérstaka auglýsingapakka fyrir HM á tíu milljónir króna. Þá hefur RÚV líka selt byggingarétt á lóðinni sinni fyrir háar fjárhæðir og leigt út hluta af húsi sínu við Efstaleiti.
Svona til að strá salti í sárin þá hefur RÚV nú leigt sínum helsta keppinaut, Stöð 2, stúdíóið í Efstaleiti fyrir beinar útsendingar frá þáttunum Kórar Íslands. Ástæðan er sú að eftir kaup Sýnar (Vodafone) á Stöð 2 á sjónvarpsstöðin ekkert almennilegt stúdíó en það er þó með eitt slíkt í smíðum. Það hlýtur að vera pínu sárt fyrir Stöðvar 2-fólkið að þurfa að mæta upp í Efstaleiti í vinnu, svona svipað og ef KR myndi þurfa að spila heimaleiki sína á Valsvellinum.
Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.