Í hádeginu í dag var afkoma Reykjavíkurborgar í fyrra opinberuð. Niðurstaðan staðfestir það sem bent hefur verið á um árabil: Fjármál borgarinnar eru rjúkandi rúst! Eins og sjá má af reikningi er borgin ógjaldfær og skattbyrði íbúa eykst frá ári til árs og skuldirnar enn hraðar. Enda er veltufé frá rekstri nánast ekkert og hefur verið um árabil.

Ef hrafnarnir væru gamaldags og treystu ríkinu fyrir fréttaflutningi hefðu þeir ekki haft spurnir af afkomu borgarinnar í dag. Þrátt fyrir að reikningurinn hafi verið opinberaður í hádeginu og meirihlutinn haldið blaðamannafund um ársreikninginn klukkan 14 sést hvorki tangur né tetur um málið á vef ríkismiðilsins.

Í síðdegisfréttunum í útvarpinu var að vísu minnst á borgarmálin en þar mátti heyra viðtal við Einar Þorsteinsson oddvita Framsóknarflokksins og verðandi skiptastjóra borgarinnar um glæsilega uppbyggingu í Skerjafirðinum.

Vafalaust verður fjallað um afkomu borgarinnar í kvöldfréttunum. Hrafnarnir hafa litla trú á að sú umfjöllun beini sjónum að hvernig fjárhagur borgarinnar hefur stefnt rakleiðis til verri vegar frá árinu 2018 þrátt fyrir allt glystal meirihlutans um glæsilega afkomu. Og varla verður fjallað um Potemkin-tjöldin sem meirihlutinn hefur reist á þessum árum og hvíla á bókhaldsfiffi.

Bókhaldsfiffi sem felst í að menga rekstrartölur A-hlutans með bókhaldsbrellum í B-hlutanum samanber virðisbreytingar á eignum Félagsbústaða.

Eins og fjallað er um í fjölmiðlarýni í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag hafa fjölmiðlar þagað þunnu hljóði um tillögu borgarstjóra í borgarráði sem lögð var fram 6. desember í fyrra sem laut hreinlega að því að skoða ætti hvernig væri hægt að fiffa bókhaldið til að fjárhagsstaðan liti betur út. Tillagan segir einfaldlega: Borgin stendur illa og að fyrirtæki í eigu hennar þurfi að bakka hana upp með „tímabundnum hætti“.

Hrafnarnir telja líklegra að Ríkisútvarpið leiti eftir sérfræðiáliti Þorvarðar Hjaltasonar fyrrverandi framkvæmdastjóra Sunnlenskra sveitarfélaga. Honum var mikið hampað á vinstri kantinum í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosningar fyrir grein sem hann birti á Kjarnanum sáluga og fjallaði um hina gríðarlega sterku fjárhagsstöðu Reykjavíkur í samanburði við nágrannasveitarfélögin.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.