Í Fréttablaðinu fimmtudaginn 1. september birtist fréttaskýring um stöðuna á fjölmiðlamarkaðnum. Það sem vakti fyrst og fremst athygli voru ummæli Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra um að stjórn RÚV hefði fyrir skemmstu samþykkt nýja stefnu RÚV til næstu ára. Stefán lýsir stefnunni á eftirfarandi hátt:

„Þær eru áframhaldandi stafræn þróun RÚV, fréttir og þjóðfélagsrýni, menning og miðlun, fjölbreytileiki, jafnræði og þátttaka allra og loks sjálfbær þróun og samfélagsleg ábyrgð.“

Með öðrum orðum innantóm orðafroða sem segir allt og ekkert og minnir um margt á eitt aðalkosningamál Framboðsflokksins sem bauð fram í alþingiskosningunum 1971: Að styðja áframhaldandi hundahald – í sveitum.

Þegar fundargerð stjórnarfundar RÚV frá því í júní er skoðuð kemur í ljós að þessi orðavaðall hefur kallað fram mikla hrifningu meðal stjórnarmanna. Í fundargerðinni segir:

„Ný stefna RÚV til næstu ára var lögð fram til samþykktar og var samþykkt einróma. Fram kom ánægja með stefnuna og mikill áhugi sé á að fylgja henni enn frekar þegar aðgerðaáætlun liggi fyrir.

Útvarpsþing sé fyrirhugað 22. september þar sem nýja stefnan verði í forgrunni auk þess sem fengnir verði erlendir fyrirlesarar sem tala út frá helstu áherslupunktum nýrrar stefnu. Þá sé gert ráð fyrir að lykilstarfsfólk fari um landið ásamt útvarpsstjóra og kynni stefnuna fyrir almenningi.“

Þetta vekur upp áleitnar spurningar um hvert stjórnendur og stjórn RÚV telja erindi ríkismiðilsins vera við almenning. Telja þau að einhver yfirborðskennd stefnumótunarvinna sæti þvílíkum tíðindum að helga eigi heilu útvarpsþingi með þátttöku erlendra fyrirlesara til að útskýra nýmælin fyrir sauðsvörtum almúganum?

Ekki nóg með það heldur ætlar stofnunin að feta í fótspor Sumargleðinnar og í beina samkeppni við Bylgjulestina og kynna þetta mikla plagg fyrir almúganum. RÚV-trukkurinn þeysist um landið stútfullur af Nóakroppi og Appelsíni án sykurs með Boga Ágústsson við stýrið. Komið verður við á öllum helstu þéttbýliskjörnum landsins.

Sigríður Dögg, Baldvin Þór og Þröstur Helgason fíra upp í grillinu og börnin fá pulsur og blöðrur meðan birgðir endast. Stefán útvarpsstjóri kynnir svo landsmönnum nýja stefnu stjórnar Ríkisútvarpsins til næstu ára.

Margt bendir til þess að stjórnendur RÚV telji erindi stofnunarinnar vera fyrst og fremst að þjóna áhugamálum sínum. Í þessu samhengi að stofnunin sem ætlar að vinna að „fjölbreytileika, jafnræði og þátttöku allra“ samkvæmt hinni nýju stefnu sýnir nú frá Evrópukeppninni í körfuknattleik – sem er móðir allra íþrótta eins og allir vita. Í stað þess að sýna alla leikina handvelja stjórnendur einstaka leik. Vekur það sérstaka athygli að RÚV hefur til þessa ákveðið að sýna ekki einn einasta leik með pólska landsliðinu. Verður það að teljast undarlegt í ljósi þess fjölda Pólverja sem býr á Íslandi.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, 8. september 2022.