Týr er með böggum hildar eftir að hafa horft á umræður um fjárhagsstöðu sveitarfélaga í Silfrinu á sunnudaginn var. En að sama skapi fékk hann ágæta útskýringu á ástæðum þess að mörg sveitarfélög eru jafn illa rekin og raun ber vitni.

***

Meðal þeirra sem tóku þátt í pallborðsumræðum um fjárhagsstöðu sveitarfélaga voru Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarmanna í borginni, og Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, ásamt Guðmundi Gunnarssyni, fyrrverandi bæjarstjóra á Ísafirði. Týr hváði þegar hann heyrði Aldísi lýsa því yfir að fjárhagsvandræði væru í raun ekki til staðar. Það þyrfti bara að hækka útsvarið og leggja á breiðari og fjölbreyttari skatta. Einar sagði þá verðbólguna vera ástæðu fjárhagsvandræða Reykjavíkurborgar.
Aldís og aðrir sveitarstjórnarmenn verða átta sig á að útsvarsgreiðendur eru ekki eins og gölturinn Sæhrímnir sem er slátrað á hverjum degi en er alltaf heill að kvöldi. Útsvar og fasteignagjöld eru að jafnaði skrúfuð í botn og það verður ekki gengið lengra í þeim efnum. Og verðbólgan sem slík er ekki ástæða fjárhagsvandræða sveitarfélaga. Ósjálfbær skuldasöfnun verðtryggðra lána er það aftur á móti.

***

Þessar umræður í Silfrinu gefa ekki tilefni til þess að álykta að sveitarstjórnarmenn geri sér grein fyrir því að sveitarfélög þurfa eins og aðrar rekstrareiningar að sníða sér stakk eftir vexti. Sveitarfélögum sem einbeita sér að grunnverkefnum sínum og forðast gæluverkefni og byggingu skýjaborga ætti að jafnaði að farnast vel og þær heimildir sem eru í lögum til skattlagningar ættu að duga ríflega til að sinna áðurnefndum skyldum.

***

Þessi umræða er sama merki brennd og umræðan um fjármál ríkisins en það er sem kunnugt er rekið með miklum halla þó svo að það sé langt frá því að vera á barmi greiðslufalls eins og Reykjavíkurborg. Hallarekstur og ósjálfbær skuldasöfnun kallar ekki á skattahækkanir enda eru þær til þess að gera stöðuna enn verri þegar horft er til lengri tíma. Lækningin við slíkum meinsemdum er einfaldlega aðhald í rekstri og endurskoðun á hvaða verkefnum sveitarfélagið á að vera að sinna og hver eru óþörf. Týr þekkir ekki vel til í Hrunamannahreppi en hann veit að nógu er að taka þegar kemur að spiki í rekstri Reykjavíkurborgar. Vonandi dettur borgarfulltrúum ekki í hug að leggja sérstakt álag á útsvar eins og heimilt er fyrir þau sveitarfélög sem eru fjárþröng í stað þess að setja ofvaxið stjórnkerfi borgarinnar í nauðsynlega megrun.