Hrafnarnir fagna því ávallt þegar Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, tekur til máls á opinberum vettvangi. Það gerist ekki oft og það hentar hröfnunum vel. Ávarp ríkisforstjórans til þegna sinna í nýbirtri ársskýrslu ÁTVR hefur vakið þó nokkra athygli. Hrafnarnir tóku sérstaklega eftir því að forstjórinn kallar sjálfan John D. Rockefeller sér til vitnis þegar hann fjallar um sögulega nauðsyn ríkiseinokunar á sölu áfengis.

Rockefeller var sem kunnugt er baptisti, bindindisfrömuður, einokunarsinni og áhugamaður um kenningar Herberts Spencer um félagslegan darwinisma. Haft er eftir Rockefeller að fyrirtæki sem komast í einokunarstöðu væri einungis niðurstaða lögmál leiksins um að hinir hæfustu lifa af. Vafalaust þykja fleirum en hröfnunum athyglisvert að forstjóri ríkiseinokunarfyrirtækis dragi ekki dul á hvert hann sækir innblástur sinn.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér