*

þriðjudagur, 21. september 2021
Óðinn
10. mars 2021 07:35

Sæl er sameiginleg eymd

„Eftir sem áður er stefna íslenskra nútímavinstrimanna að sæl sé sameiginleg eymd.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Páll Mathíasson, forstjóri Landspítalans.
Eggert Jóhannesson

Í síðustu viku fjallaði Óðinn um þær ógöngur sem heilbrigðisráðherra og heilbrigðisyfirvöld eru komnar í skimunum á krabbameini.

Ríkisútvarp vinstrimanna er upptekið þessa dagana að eltast við dómsmálaráðherra, æðsta yfirmann löggæslu á Íslandi, vegna símtals við lögreglustjórann í Reykjavík þar sem hann óskaði eftir upplýsingum.

Væri ekki nær að heyra heilbrigðisráðherranum og spyrja hvernig í ósköpunum standi á því að hvert sem litið er til í heilbrigðiskerfinu er allt í ólestri?

Meira að segja Danir og Austurríkismenn, sem eru jú í Evrópusambandinu, eru búnir að átta sig á því að það var óráð að treysta Evrópusambandinu fyrir því að afla þegnum sambandsins bóluefni.

Enn ein skýrslan
McKinsey-ráðgjafafyrirtækið skilaði á dögunum skýrslu til heilbrigðisráðuneytisins. Þar er að finna enn eina staðfestinguna á því að rekstur heilbrigðiskerfisins er á algjörum villigötum. Framleiðni minnkar og kostnaðarvitund er léleg.

Í skýrslunni kemur það fram svart á hvítu að rekstur Landsspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri er einfaldlega mun lélegri en samanburðarspítali á Skáni í Svíþjóð.

* * *

Samsetning starfsfólks er að mati skýrsluhöfunda röng. Of mikið er af hjúkrunarfræðingum:

Hlutfall sjúkraliða á móti hjúkrunarfræðingum á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri er lægra (um 50% færri sjúkraliðar) en á viðmiðunarsjúkrahúsunum. Fjölgun sjúkraliða gæti tryggt að allir hópar starfsfólks sinni viðeigandi verkefnum miðað við menntun og þar af leiðandi sparað kostnað, þar sem hlutfallslegur munur á starfsmannakostnaði milli hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á Íslandi er meiri (um 25-40%) en á Skáni (um 20%).

Að sögn skýrsluhöfunda gæti fjölgun sjúkraliða sparað kostnað með því að létta af öðru starfsfólki verkefnum sem krefjast minni menntunar. Núverandi hlutfall hjúkrunarfræðinga á móti sjúkraliðum á Íslandi er 2,5:1 samanborið við 1,3:1 á Skáni.

* * *

Lélegri framleiðni
Framleiðni á Landspítala og Akureyri hefur farið hratt minnkandi. Framleiðni lækna hefur minnkað um 5,5% á Landsspítala og 7,5% á Akureyri á árunum 2015-2019. Framleiðni hjúkrunarfræðinga er svipuð á Landspítala (5,9) og á Skáni (5,4-6,8). Aftur á móti hefur hjúkrunarstundum á hvern sjúkling fjölgað um 2,1% á ári á Landspítala sem þýðir í raun að dregið hefur úr framleiðni síðastliðin fimm ár.

* * *

Langur legutími
Meðallegutími á hvern sjúkling er lengri á íslensku sjúkrahúsunum, 8,1 dagur á Landspítala og 5,7 dagar á Sjúkrahúsinu á Akureyri. en á Skáni um 4-5 dagar. Langur meðallegutími á Landspítala skýrist að hluta til af sjúklingum á öldrunarlækningadeild sem bíða eftir plássi á hjúkrunarheimili, en meðallegutími á öldrunarlækningadeild er 52,6 dagar. Skýrsluhöfundar segja að þrátt fyrir þetta megi bæta meðallegutíma á Landsspítala.

* * *

Óðinn saknar umræðu um uppbyggingu öldrunarrýma og hjúkrunarheimila. Það er augljóst að ríkissjóður mun ekki geta staðið undir þeim kostnaði sem er fyrirsjáanlegur á næstu árum. Óðinn hefur undrast lengi að heilbrigðisyfirvöld skuli samþykkja að byggð séu hjúkrunarheimili fyrir aðeins 40 manns líkt og það sem var opnað á Seltjarnarnesi árið 2019. Þá gerðist í fyrsta sinn, svo Óðinn viti, að sveitarfélag neitar að sjá um rekstur heimilisins og virtist það vera óskýrt í lögunum. Skýrar reglur eru hins vegar um að bæjarfélagið byggi heimilið og ríkið greiði bæjarfélaginu leigu.

Í dag er hvert sveitarfélagið á fætur öðru að krefja ríkið um rekstrartap á hjúkrunarheimilunum, sem langflest eiga það sameiginlegt að vera litlar og óhagkvæmar einingar.

Fráflæðivandi Landspítalans mun ekki lagast, heldur versna, nema eitthvað vitrænt verði gert í þessum málum. Eina leiðin er sú að fela einkaaðilum reksturinn og láta þá sem njóta þjónustunnar greiða fyrir þann kostnað sem þeir hvort eð er yrðu að bera. Gleymum ekki að þeir sem eiga peningana á Íslandi eru þeir sem eru að ljúka starfsævinni.

* * *

Ávarp ráðherrans
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar viðhafnarávarp í byrjun skýrslunnar. Gefum henni orðið:

Við getum verið stolt af íslenskri heilbrigðisþjónustu og þeim stofnunum sem eiga í hlut. Hins vegar eru í skýrslunni dregin fram fjölmörg tækifæri til úrbóta. Mikilvægt er að skoða skýrsluna í þessu ljósi og að við tökum niðurstöðum hennar með jákvæðu hugarfari og nýtum þær til gagns. Þessi skýrsla er til þess að styðja okkur í að efla enn og styrkja heilbrigðiskerfið okkar til framtíðar.

Óðinn skilur ekki hvernig heilbrigðisráðherrann kemst að þessari niðurstöðu. Við getum ekki verið stolt af íslenskri heilbrigðisþjónustu og stofnunum hennar. Við getum ekki verið stolt af því kerfi sem við erum búin að koma á fót á Íslandi þegar hver skýrslan á fætur annarri sýnir að kerfið er meingallað. Annað mál er hvort við erum stolt af heilbrigðisstarfsfólkinu sjálfu, sem verður ekki kennt um gallaða kerfið – ekkert frekar en almenningi í Rússlandi þegar flokksbræður Svandísar réðu þar ríkjum.

* * *

Vissulega er íslenskt heilbrigðiskerfi miklu betra en í langflestum löndum heims enda er miklu meiri fjármunum kostað til en í þessum löndum. En þá skulum við ekki vera stolt af kerfinu heldur fólkinu sem heldur því uppi – skattgreiðendunum.

Flest erum við skattgreiðendur enda virðist ríkisvaldið ekkert mega sjá án þess að skattpína það. En við erum komin að þolmörkum í skattlagningu. Skatttekjur hafa líklega aldrei verið hærri í Íslandssögunni á hvert mannsbarn og hið opinbera tekur alltaf meira og meira pláss í þjóðlífinu. Það væri fróðlegt að fá McKinsey til að bera saman fleiri íslenskar stofnanir við erlendar.

* * *

Finnur Torfi Stefánsson, fyrrverandi þingmaður Alþýðuflokksins, skrifaði grein á vefritið Kjarnann fyrir stuttu. Það verður ekki annað sagt en það sé söknuður af raunverulegum krötum í stjórnmálastéttinni. Í greininni sagði Finnur Torfi m.a.:

Þótt jafnaðarmenn leggi megináherslu á hlutverk ríkisins í því að skapa mannsæmandi lífskjör fyrir fólk eru þeir jafnframt baráttumenn fyrir frjálsum markaði og að einkaframtak geti blómstrað hjá þeim sem það vilja. Nú á dögum hefur slíkt verið gert nánast ómögulegt með boðum og bönnum, leyfum, gjöldum og alls kyns fargani sem drepur framtak manna í dróma. Báknið burt segja jafnaðarmenn.

Það er varla að Sjálfstæðismenn þori að tala með þessum hætti lengur en það er annað mál. Í þessum orðum kratans kristallast meginvandi íslensk heilbrigðiskerfis og skólakerfis. Eftir sem áður er stefna íslenskra nútímavinstrimanna að sæl sé sameiginleg eymd.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.