*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Týr
23. október 2021 17:02

Sæstreng, já takk

„Almennt eru íslenskir stjórnmálamenn þeirrar skoðunar að nýta eigi orkuna til að skapa störf heima í héraði.“

epa

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, vakti athygli á því um nýliðna helgi að sá möguleiki væri fyrir hendi að selja raforku til útlanda í gegnum sæstreng. Þá sérstaklega þar sem útlit er fyrir að Grænland muni í fyrirsjáanlegri framtíð gera slíkt hið sama og að öllum líkindum óska eftir því að leggja slíkan streng í gegnum Ísland, þaðan mögulega til Færeyja og áfram til Bretlands eða til meginlandsins.

Þetta eru ekki nýjar upplýsingar. Tæknin er til staðar og Norðmenn hafa um árabil selt rafmagn til Evrópu í gegnum sæstreng – og hagnast mjög á því. Hafi fólk áhyggjur af of mörgum virkjunum verður ekki öðru haldið fram en að í Noregi njóti náttúran vafans (ef frá er skilið klúður þeirra með fiskeldi í sjókvíum í fjörðum landsins – en það er óskylt mál).

* * *

Umræða um sæstreng er ekki ný af nálinni hér á landi en hefur sjaldnast farið fram með vitrænum hætti. Almennt eru íslenskir stjórnmálamenn, það er þeir sem á annað borð vilja búa til orku, þeirrar skoðunar að nýta eigi orkuna til að skapa störf heima í héraði.

Eftir löngu tímabæra útgöngu Breta úr ESB skapast enn frekari tækifæri fyrir Ísland til að selja orku til Bretlands, sem kallar eftir umhverfisvænni orku og mun gera næstu áratugina. Andstæðingar þriðja orkupakkans geta sofið rólega því Orkumálastofnun Evrópu (ACER) mun engin afskipti hafa af slíkum viðskiptum.

* * *

Það liggur fyrir að sala á orku í gegnum sæstreng mun skapa þjóðarbúinu tekjur. Um það er ekki deilt. Það eina sem kemur í veg fyrir slíkt framfaraskref eru íslenskir stjórnmálamenn sem eru flestir skeptískir á erlend viðskipti og þá sérstaklega erlendar fjárfestingar.

Nú þegar hefur Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra þvertekið fyrir það að rafmagn verði nokkurn tímann selt úr landi, því til þess þurfi að virkja meira og það standi ekki til. Þetta er sami umhverfisráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn reynir nú að mynda ríkisstjórn með.

Stikkorð: Ingi Guðmundur Guðbrandsson Guðmundur
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.