*

fimmtudagur, 24. september 2020
Óðinn
23. nóvember 2018 13:31

Sæstrengurinn og orkupakkinn

Sæstrengurinn komst aftur á dagskrá vegna orkupakkans. Þar fara sumir út og suður í umræðunni og enn aðrir norður og niður.

Aðsend mynd

Þriðji orkupakki Evrópusambandsins hefur verið mikið til umræðu og hefur hver sérfræðingurinn á fætur öðrum sprottið upp í tengslum við pakkann. Hugmyndin að baki að þessum nýju reglum kom fram fyrir rúmum áratug og fólst í að styrkja frekar innri markað Evrópusambandsins fyrir raforku. Samkvæmt markmiðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins áttu endurnýjanlegir orkugjafar að sjá ríkjunum fyrir a.m.k. 20% orkuþarfarinnar, orkunýtni skyldi aukin um 20% og losun gróðurhúsalofttegunda minnkuð um 20% í síðasta lagi árið 2020. Útlit er fyrir að mörg aðildarlanda Evrópusambandsins muni ekki ná þessu markmiði. Þeirra á meðal eru Þýskaland og Belgía.

                                                           ***

Ekki er ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af þessum pakka þó að eðlilegt sé að gjalda varhug við öllum pakkasendingum frá Brussel. Þessi löggjöf mun hafa mun minni áhrif á Íslandi en á meginlandi Evrópu, og líklega lítil sem engin. Öll umræða um fullveldi Íslands, áhrif reglna Evrópusambandsins hér á landi og útþensla báknsins í Brussel er af hinu góða.

                                                           ***

Sæstrengurinn komst aftur á dagskrá vegna orkupakkans. Þar fara sumir út og suður í umræðunni og enn aðrir norður og niður.

                                                           ***

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tjáði sig um sæstreng í Silfrinu í Ríkisútvarpinu á sunnudag. „Varðandi þriðja orkupakkann, það er ekki þar verið að tala um að leggja sæstreng ef það gerist. Það er önnur ákvörðun sem kemur til seinna og ef það gerist. Það er búið að vera að tala um þetta í 20 ár. Það að leggja sæstreng kostar jafn mikið og að reka íslenska ríkið í heilt ár. Þannig að hver ætlar að fara í það?”

                                                           ***

Óðinn kannast ekki við að umræða um sæstreng hafi staðið yfir í 20 ár, heldur nær 10 árum og Helga Vala hefur augljóslega ekki fylgst vel með henni. Aftur og aftur hefur komið fram að Landsvirkjun hefur hvorki getu né áhuga á að leggja út í 800 milljarða króna framkvæmd enda væri slíkt fásinna. Landsvirkjun hefur á hinn bóginn aftur og aftur greint frá áhuga erlendra aðila á því að leggja og reka sæstrenginn. Því kemur rekstur íslenska ríkisins í eitt ár málinu ekkert við.

                                                           ***

Nær væri að líta til væntrar arðsemi slíks verkefni fyrir íslenska raforkusala sem flestir eru í opinberri eigu. Þar hafa verið nefndir 10-40 milljarðar króna á ári, eftir því hvaða forsendur menn hafa gefið sér.

                                                           ***

Það sem skiptir arðsemi sæstrengs máli er hvort það náist samningur við bresk stjórnvöld um orkuverð sem gildir út líftíma sæstrengsins eða ekki. Í upplýsingum sem Landsvirkjun hefur birt frá orkumálaráðuneyti Bretlands um verð á endurnýjanlegri orku kemur fram að það er þrisvar til fimm sinnum hærra en listaverð Landsvirkjunar til 15 til 35 ára. Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, telur það geta verið hærra, eða allt að sex til átta sinnum hærra.

                                                           ***

Staðreyndin er sú að arðsemin af fjárfestingu tengdri stóriðju hefur verið óviðunandi eins og Óðinn hefur oft bent á. Þetta kemur fram í skýrslu sem Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson skrifuðu fyrir Hagfræðistofnun Háskóla Íslands árið 2012, „Arðsemi Landsvirkjunar af rafmagnssölu til stóriðju 1966-2010“. Niðurstaða þeirrar skýrslu er að arðsemi raforkusölunnar sé ekki nema liðlega 5% fyrir skatta og verðbólgu sem þýðir að fjárfestingin stendur ekki undir fórnarkostnaði þess fjármagns sem bundið er í henni. Þjóðhagslegur ábati hefði verið meiri ef ríkið hefði ekki sogað þetta fé til sín og það hefði verið til reiðu í aðra atvinnuvegafjárfestingu. Í skýrslunni birta þeir mat á arðsemi Landsvirkjunar og annarri atvinnuvegafjárfestingu í landinu og í ljós kemur að hún er töluvert lægri. Í úttekt McKinsey, „Charting a growth path for Iceland“ frá árinu 2011 kemur fram að framleiðni fjármagns í íslensku atvinnulífi er lægst í orkuiðnaði.

                                                           ***

Í sama Silfursþætti og vitnað var til hér að framan, sagðist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson alltaf hafa gert fyrirvara um sæstreng. Það er rétt. Í fréttatilkynningu sem var send út í tilefni fundar Sigmundar með David Cameron forsætisráðherra Breta árið 2015 var þessa sérstaklega getið. „Ráðherrarnir ræddu einnig samstarf í orkumálum og var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Sigmundur Davíð sagðist hafa fyrirvara um lagningu sæstrengs. Forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki. Eðlilegt er þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér.“

                                                           ***

Óðinn er í grundvallaratriðum sammála Sigmundi Davíð. Það er óásættanlegt að íslenskur almenningur taki á sig þyngri byrðar með tilkomu sæstrengs. En þetta eru óþarfar áhyggjur Sigmundar bæði þá og nú.

                                                           ***

Ásgeir Jónsson hagfræðingur benti á í skýrslu sinni. „Sæstrengur og hagur heimila – greining áhrifa sæstrengs á afkomu heimila landsins” að íslensk heimili eru aðeins 5% kaupenda á raforku. Hægt er að líta á lágt raforkuverð til íslenskra heimila sem ákveðna lífskjarastefnu sem er jákvæð að mörgu leyti. Hins vegar er slík stefna mjög óskilvirk ef hún byggir á því að halda raforkuverði lágu í öllu raforkukerfinu og til allra raforkukaupenda. Fyrir það fyrsta nota íslensk heimili aðeins 5% af raforkuvinnslu á Íslandi þannig að téð lífskjarastefna hefur mjög lélega nýtingu og ótal aðrar skilvirkari leiðir eru til þess að hafa áhrif á raforkukostnað heimilanna. Þannig myndu hærri tekjur af sölu þeirrar 95% raforku, sem eftir stendur þegar notkun heimilanna hefur verið dregin frá, skila gríðarlegum þjóðhagslegum ábata.

                                                           ***

Mjög auðvelt er að endurdreifa hagnaði orkufyrirtækja vegna hærra raforkuverðs til heimila landsins til þess að tryggja þeim óbreytt raforkuverð, til dæmis með að lækka skatta eða greiða þeim út arð í einhverju formi. Hægt er að taka dæmi af mörgum olíuframleiðsluríkjum sem endurdreifa hagnaðinum af olíusölunni með því t.d. að sjá þegnum sínum fyrir mjög ódýru eldsneyti. Slík arðgreiðslustefna hlýtur þó ávallt að leiða til einhverrar sóunar þar sem framboð á ákveðnum framleiðsluþætti á undirverði leiðir til óhóflegrar notkunar á þeim sama þætti.

                                                           ***

Óðinn vonar að iðnaðarráðherra muni loks láta reyna á það, hvort lagning sæstrengs sé fær leið enda allir helstu hagfræðingar landsins sammála um áhrif hennar á þjóðarhag.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.