*

föstudagur, 25. júní 2021
Huginn og muninn
16. maí 2021 08:12

Safna liði

Flugfélagið Play hefur verið að safna liði og forvitnilegt verður að fylgjast með því þegar það hefur sig loks til flugs.

Þóra Eggertsdóttir, Birgir Jónsson og Georg Haraldsson.

Eitt og hálft er er síðan flugfélagið Play var stofnað. Þar á bæ geta menn þakkað fyrir hversu hægt gekk í byrjun því ljóst er að félagið hefði ekki orðið langlíft ef það hefði gengið frá leigusamningum á vélum áður en heimsfaraldurinn skall á.

Í vor hefur mikið verið í gangi hjá félaginu. Í lokuðu hlutfjárútboði tryggði félagið sér fimm milljarða króna og stefnt er að skráningu á First North. Í apríl var Birgir Jónsson, sem gerði garðinn frægan hjá Íslandspósti og Iceland Express, ráðinn forstjóri og í vikunni var Þóra Eggertsdóttir ráðin fjármálastjóri Play. Þetta voru nokkuð stórar fréttir í viðskiptalífinu fyrir þær sakir að Þóra hefur undanfarin ár starfað hjá Icelandair, nú síðast sem forstöðumaður innanlandsflugs. Hægt og rólega er Play því að safna liði en þess má geta að Þóra er þriðja manneskjan sem fer frá Icelandair til Play. Áður höfðu þeir Daníel Snæbjörnsson og Þórður Bjarnason skipt um lið.

Í síðustu viku var síðan greint frá því að Georg Haraldsson væri kominn til Play en hann hefur víðtæka reynslu og starfaði nú síðast hjá Íslandspósti og því auðvelt að geta sér til um það hver tosaði hann þaðan. Forvitnilegt verður að fylgjast því þegar þetta nýja flugfélag loks hefur sig til flugs.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.