*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Óðinn
20. janúar 2021 07:20

Sala Íslandsbanka og spekingarnir

„En rétt eins og Jón Ásgeir þá snýr Guðrún Johnsen alltaf aftur og aftur. Þá er betra að muna söguna,“ segir Óðinn.

Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka á uppgjörsfundi bankans.
Haraldur Guðjónsson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur boðað sölu á 25% hlut ríkisins í Íslandsbanka. Það er löngu tímabært enda er varla hægt að finna verri eiganda að banka en hið opinbera.

Á Íslandi eru tveir af þremur stóru viðskiptabönkunum í eigu ríkisins og þegar rekstur Íslandsbanka og Landsbanka er borinn saman sést að arðsemi Íslandsbanka er mun lakari en Landsbanka og kostnaðarhlutfallið hærra.

Um 345 milljarðar liggja í bönkunum

Þrátt fyrir Covid-19 hafa markaðsaðstæður líklega ekki verið betri til að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka. Vextir eru lágir og fjárfestar eiga erfitt með að finna fjárfestingartækifæri. Að auki er ríkissjóður að skuldsetja sig um einhverja 500 milljarða vegna Covid-19 og áframhaldandi óráðsíu og sóunar í ríkisrekstrinum svo söluverð Íslandsbanka kæmi sér vel í gullkistum fjármálaráðuneytisins.

Samkvæmt 9 mánaða uppgjörum Íslandsbanka og Landsbanka var samanlagt eigið fé þeirra 431 milljarður króna. Talið er fullvíst að ekki fáist hærra verð en 0,8 sem myndi þýða 345 milljarða króna en það byggir á verðum banka í löndunum sem við berum okkur saman við. Arion banki er til að mynda með hlutfallið 0,84 en það mun mjög líklega hækka þegar sér fyrir endann á Covid-19.

Spekingar mæta á svæðið

Helstu spekingar Íslands hafa komið fram að undanförnu og fundið því allt til foráttu að ríkið selji Íslandsbanka. Við skulum nefna einn.

Guðrún Johnsen, hagfræðingur hjá VR, mætti í viðtal í sjónvarp Ríkisútvarpsins á þriðjudagskvöld og sagði hún meðal annars:

„Það sem kemur kannski líka svolítið á óvart varðandi vilja stjórnvalda að selja undir þessum kringumstæðum þar sem stór hluti lánabókar Íslandsbanka er núna í frystingu, allt að 20% af lánabókinni eru lán sem fólk og fyrirtæki hafa fengið greiðslufrest á vegna ástandsins. Það leiðir til þess að það er óvissa um virði þeirra eigna. Við gerum ekki ráð fyrir að það tapist allt saman að sjálfsögðu, en stærðirnar eru bara þannig. Um er að ræða 184 milljarða sem er akkúrat allt eigið fé bankans."

Þessi orð Guðrúnar koma mjög á óvart. Bankarnir hafa afskrifað sáralítið í þessari kreppu því að allur heimurinn er þess fullviss að þetta séu tímabundnir erfiðleikar og engir aðrir en eigendur þessara fyrirtækja sem eiga í vanda muni tapa á henni. Ef kreppan dregst á langinn munu bankarnir líklega þurfa að afskrifa meira, það er að segja ef eigið fé lántakanna hverfur alveg, og þá rýrnar eignarhlutur ríkisins í þeim.

Guðrún Johnsen gengur sjálf út frá því að þetta séu tímabundnir erfiðleikar og ef fjárfestar eru þess fullvissir þá munu þeir leggja fram boð í Íslandsbanka í takt við það. Ef ekki þá verður auðvitað ekki af sölunni.

                                                             ***

Gjörbreyttar reglur

Óðinn skilur því ekki þetta innlegg Guðrúnar Johnsen. Í fréttinni gaf Guðrún í skyn að aðilar með annarleg sjónarmið í huga myndu hafa áhuga á Íslandsbanka og nefndi Baug þar til sögunnar.

„Bara rétt eins og gerðist fyrir hrun þegar Baugur sóttist eftir því að verða stór eigandi að Glitni. Á þeim tíma var Baugur orðinn mjög stór lántaki í bankakerfinu og var farinn að koma að lokuðum dyrum og kom sér í þá stöðu að verða stór eigandi að Glitni til þess að auka lánagreiðslu fyrir sig og það er akkúrat það sem við viljum ekki."

Þetta er alveg hreint ágætt dæmi um misnotkun á banka en veruleikinn er bara allt annar í dag.

Í lögum um fjármálafyrirtæki var bætt við nýju ákvæði eftir hrun, grein 29. a., þar sem lagt er bann við að banki veiti lán sem eru tryggð með veði í hlutabréfum útgefnum af honum. Sama gildir um aðra samninga sé undirliggjandi áhætta á eigin bréf.

Þá var einnig þrengt að lánum til þeirra sem fara með virkan hlut í banka. Fjármálaeftirlitið hafði litla yfirsýn með tengdum aðilum í lánabókum bankanna fyrir hrun og því var fáum ljóst hversu risastór skuldari Baugur var. En það gilda allt aðrar reglur um slík lán í dag og stórar áhættuskuldbindingar miðast við 300 m.kr. og sérstakt eftirlit er haft með þeim.

Lærum af reynslunni

En við eigum að læra af reynslunni og vonandi er hrunið nógu nærri okkur í tíma til að við flest munum ástæður og afleiðingar þess. Kunnur er frasinn „Fool me once,  shame on you; Fool me twice, shame on me". Óðinn hefur haft þetta í huga frá 27. september 2010 þegar Guðrún Johnsen kemur fram í fjölmiðlum.

Þá var hún fengin í viðtal eins og oft áður á ríkisfréttastofunni, sem stundum er jafn nákvæm og Pravda forðum, og hafði stór orð uppi um tjón sem íslenskir ráðherrar ollu með vanrækslu sinni í aðdraganda hruns viðskiptabankanna haustið 2008. Á innan við sólarhring kom Guðrún Johnsen fram með þrjár útgáfur af tjónsfjárhæðinni. Spurning er hversu lágt fjárhæðin hefði farið ef fréttirnar hefðu verið fleiri.

Týr fjallaði um þetta í Viðskiptablaðinu 7. október 2010 og telur Óðinn rétt að gefa honum orðið:

Í kvöldfréttum Sjónvarpsins 23. september sl. hélt Sigríður H. Björnsdóttir aðstoðarfréttastjóri því fram að tjón sem ráðherrar hefðu valdið með vanrækslu sinni í bankahruninu hafi numið að minnsta kosti 11.000 milljörðum króna. Þetta er glórulaus tala. Leiðrétting kom í 10-fréttum sama kvöld, snubbótt og auðvitað með mun minna áhorfi. 1.000 milljarðar áttu það víst að vera.

                                                             ***

Í hádegisfréttum útvarps daginn eftir var frétt eins og enginn hefði verið gærdagurinn. Viðmælandinn sá sami, Guðrún Johnsen, lektor í HR, og varafréttastjórinn enn á sínum stað. Þá kom fram enn ein upphæðin á tjóninu sem ráðherrarnir áttu að vera sekir um að hafa valdið, 400- 500 milljarðar.

Sú upphæð er byggð á veikum grunni. M.a. er þar gert ráð fyrir að Ísland beri a.m.k. 100 milljarða ábyrgð vegna Icesave.

                                                             ***

Er það virkilega svo að skoðun Guðrúnar Johnsen og Sigríðar H. Björnsdóttur um að Ísland eigi að greiða tjónið vegna Icesave vegi þyngra en sjónarmið allra helstu lögfræðinga landsins og mikils meirihluta þjóðarinnar?

                                                             ***

Í fréttinni kemur fram að Guðrún telji ekki að þingmannanefndin hafi farið fram úr sér með því að leggja til að Ingibjörg Sólrún yrði dregin fyrir Landsdóm. Og hvað. Er hagfræðingurinn Guðrún skyndilega orðinn lögfræðingur? Meiri lögfræðingur en Páll Hreinsson hæstaréttardómari sem taldi að Ingibjörg Sólrún hefði ekki sýnt af sér vanrækslu.

                                                             ***

Hvernig getur Ríkisútvarpið borið þetta á borð landsmanna?

                                                             ***

Týr hefur fundið lausnina á skuldavanda fyrirtækjanna og heimilanna. Fá þær stöllur Guðrúnu og Sigríði til að gera nokkrar fréttir um málið og þá endar skuldin í brot af broti af upphaflegri fjárhæð.

Allt það sem Guðrún Johnsen sagði í þessum fréttum var della. Ríkissjóður Íslands var aldrei ábyrgur fyrir einni krónu vegna Icesave þó að hópur föðurlandssvikara haldi því jafnvel enn fram. Margt má segja um stjórnmálaferil Ingibjargar Sólrúnar en það voru pólitískar hefndaraðgerðir þegar reynt var að draga Ingibjörgu Sólrúnu og aðra ráðherra fyrir Landsdóm.

En rétt eins og Jón Ásgeir þá snýr Guðrún Johnsen alltaf aftur og aftur. Þá er betra að muna söguna.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.