*

miðvikudagur, 20. október 2021
Óðinn
30. október 2019 07:07

Sala á ríkiseignum og lokaðir reikningar

500 milljarða króna eignir lentu í fangi ríkissjóðs eftir hrun, en pukur og leyndarhyggja ríkir yfir afdrifum eignanna.

Haraldur Guðjónsson

Eftir hrun bankanna fékk Ríkissjóður í fangið eignir að verðmæti yfir 500 milljarða króna. Til að koma eignunum út tóku nokkrir embættismenn það að sér að selja þær í gegnum einkahlutafélög, sem stofnuð voru í þeim tilgangi. Í mjög athyglisverðri grein í Morgunblaðinu beindi Skafti Harðarson, formaður Samtaka skattgreiðenda, kastljósinu á þessa eignasölu og hve lítið við vitum í raun um hana. 

                                                                                          ***

Nú ætlar Óðinn ekki embættismönnum óheiðarleika þegar kemur að sölu ríkiseigna. Vitað er þó að það er vandasamt verk og freistnivandi er mikill. Skafti benti á það í grein sinni að reyndar hefðu tveir hagfræðingar, þeir Gauti B. Eggertsson og Jón Steinsson, varað sérstaklega við því hve vandasamt söluferli eigna skattgreiðenda væri, í grein sem birtist í Morgunblaðinu þegar í mars 2009. Komust þeir meðal annars svo að orði:

„Stærsti ókosturinn er hætta á spillingu. Reynslan hefur kennt Íslendingum – og raunar öðrum þjóðum – að þegar ríkið selur eignir er mikil hætta á því að umsjónarmenn söluferlisins selji vinum, ættingjum eða jafnvel sjálfum sér verðmætar eignir á undirverði. Hugmyndum um eignasölufyrirtæki verða því að fylgja raunhæfar leiðir til þess að takmarka spillingu.“ 

                                                                                          ***

Einkahlutafélög embættismanna

Seðlabanki Íslands stofnaði sérstakt eignarhaldsfélag, Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ), utan um veð, kröfur og fullnustueignir bankans. Annað félag, Sölvhóll ehf., hafði það hlutverk að vinna úr eignunum til að hámarka virði þeirra þegar markaðsaðstæður leyfðu, með samþykki stjórnar ESÍ. Hildu ehf. fékk Seðlabankinn svo í fangið árið 2011, en það félag hafði verið sett upp til að halda utan um skuldir Sögu Capital við ríkissjóð, og fimm árum síðar var félagið Lindarhvoll ehf. stofnað í fjármálaráðuneytinu. 

                                                                                          ***

Nær engar upplýsingar hafa verið gefnar um hvernig staðið var að sölu eigna, hverjir keyptu, hverjum bauðst að kaupa og hvað var keypt og á hvaða verði. Ógagnsæið var algert. 

                                                                                          ***

Nú var það athyglisverð og óvenjuleg leið hjá hinu opinbera að fela einkahlutafélögum að annast eignasöluna, sem ekki hefur verið skýrð með sannfærandi eða málefnalegum hætti. En einmitt með því að hafa þann háttinn á komst ríkið hjá margvíslegum reglum um upplýsingagjöf. Það eitt og sér átti að klingja viðvörunarbjöllum, ekki síst í andrúmslofti eftirhrunsins. 

                                                                                          ***

Ótraustvekjandi aðferðir

Þær fréttir sem þó hafa borist af eignasölu ESÍ og Seðlabankans eru enn síður til þess fallnar að vekja traust. Þannig varð Seðlabankinn af milljörðum króna er bankinn seldi skuldabréf í Kaupþingi til erlends vogunarsjóðs. Tveimur mánuðum eftir sölu skuldabréfanna jókst verðmæti þeirra allt í einu um 4-5 milljarða vegna samkomulags Kaupþings við Deutsche Bank.

Kvaðst Seðlabankinn ekki hafa haft nokkra hugmynd hvað þá vitneskju um samkomulagið, þegar bréfin voru seld. Þó hafði Seðlabankinn haft sérlegan eftirlitsmann með hagsmunum ríkissjóðs, Steinar Þór Guðgeirsson lögmann, á stjórnarfundum Kaupþings, en betur tengdir lögmenn eru vandfundnir. Þess má geta að þessi bréf eru nú um sjö milljarða króna virði. 

                                                                                          ***

Einnig má nefna samkomulag um uppgjör á milli Dróma, ESÍ og Arion banka, sem gert var í lok árs 2013. Þá runnu hátt í 700 fasteignir til dótturfélags ESÍ Hildu ehf. Þar sem félagið Hilda ehf. var undanskilið upplýsingalögum er ekki vitað hvort það hafi sett formreglur um sölu þessara fasteigna og þá er ekkert vitað um kaupendur þeirra. 

                                                                                          ***

Til samanburðar setti Landsbankinn ítarlegar reglur um sölu fasteigna árið 2010, en þær kváðu meðal annars á um að fasteignir skyldu settar á sölu að lágmarki hjá tveimur fasteignasölum, auglýsing þyrfti að birtast einu sinni í dagblaði og þá þyrftu eignirnar að vera skráðar til sölu að lágmarki í eina viku. 

                                                                                          ***

Mikilvægt er að upplýsa hvort reglur sem þessar hafi verið settar um framkvæmd fasteignasölu félagsins og þá hvort þeim hafi verið fylgt. 

                                                                                          ***

Og sé svo ekki, af hverju í ósköpunum ekki? 

                                                                                          ***

Skýrslugerð í skötulíki

Eignasafni Seðlabanka Íslands var slitið fyrir tveimur árum. Til stóð að út kæmi skýrsla um starfsemi þess í árslok 2018 og að hún yrði skrifuð af fyrrverandi starfsmönnum ESÍ, sem jafnframt höfðu tekið að sér að slíta félaginu. Það er, af sömu einstaklingum og óskuðu eftir að ríkið ábyrgðist fullkomið og algert skaðleysi þeirra í störfum sínum. Nú, tíu mánuðum síðar, hefur ekkert spurst til þessarar skýrslu. 

                                                                                          ***

Í raun má spyrja hvaða tilgangi það þjóni að gerðar séu skýrslur og úttektir, sem ekki eru birtar fyrr en mörgum árum eftir að starfsemi viðkomandi eignasölufélaga er lokið, sér í lagi skýrslur skrifaðar af þeim sem önnuðust eignasöluna. Dómarar í eigin sök. 

                                                                                          ***

Sama á við um úttekt Ríkisendurskoðunar á stjórnsýslu Lindarhvols ehf., en félaginu var slitið í ársbyrjun 2018. Sumarið 2018 skilaði Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, skýrslu um Lindarhvol. Sigurður var settur ríkisendurskoðandi, þar sem Þórhallur Arason, stjórnarformaður Lindarhvols, er bróðir þáverandi ríkisendurskoðanda, Sveins Arasonar. Nú 16 mánuðum síðar hefur skýrslan ekki enn verið birt.

Í millitíðinni hefur Ríkisendurskoðun hins vegar hafið og lokið fjölmörgum úttektum, svo sem á Póstinum, Fiskistofu og Útlendingastofnun. Hvað veldur þessum miklu töfum á skýrslu Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol? Opinberlega hefur þó komið fram að Ríkisendurskoðun hefur rukkað yfir 30 milljónir króna fyrir eftirfylgni með Lindarhvoli. 

                                                                                          ***

Óhætt er að rifja upp umræðu sem átti sér stað í samfélaginu fyrir um tveimur árum í tengslum við plastbarkamálið svokallaða. Þar hugðust Landspítalinn og Landlæknisembættið rannsaka hvað hefði farið úrskeiðis í því máli. Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, varaði þá við því að þessir aðilar rannsökuðu sjálfa sig. Þáverandi heilbrigðisráðherra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tóku undir og sögðu brýnt að rannsaka málið af óháðum aðila enda varðaði það almannaheill. Enda á það auðvitað að vera þannig og ekki öðru vísi. 

                                                                                          ***

Pukur og leyndarhyggja

Seðlabankinn hefur sýnt í verki að hann er ekki góður verkstjóri þegar kemur að því að rannsaka og upplýsa um eigin starfshætti. Þegar Lagastofnun var loks falið að taka út gjaldeyriseftirlit bankans árið 2016 var aðgangur starfsmanna Lagastofnunar að upplýsingum hins vegar takmarkaður og skýrslan að lokum vandlega ritskoðuð af starfsmönnum Seðlabankans. Af hverju? Í hvers þágu? 

                                                                                          ***

Í ljósi hinna miklu hagsmuna sem eru undir fyrir skattgreiðendur við sölu ríkiseigna má spyrja hvers vegna alþingismenn hafi ekki látið sig þessar eignasölur neinu varða. Þeir eru beinlínis kjörnir til þess að hafa eftirlit með fjárreiðum hins opinbera í umboði almennings. 

                                                                                          ***

Sé litið til þeirra gríðarlegu verðmæta sem fóru um hendur þessara embættismanna mætti ætla að áhugi og skyldur þingmanna lægi fremur þar en í áralöngum áhuga á akstursgreiðslum einstakra þingmanna (svo dæmi sé tekið af handahófi), sér í lagi þegar svör við spurningum til eignasölufyrirtækjanna vekja einatt upp fleiri spurningar, en kerfið ber reglulega fyrir sig tilvísanir í þagnarskyldu og bankaleynd. 

                                                                                          ***

Hvernig má það vera að bankaleynd hvíli yfir sölu á eignum íslensku þjóðarinnar, sem hún keypti dýru verði, en reikningar frá Jóa Fel, sem selur Fjármálaeftirlitinu snúða, eru birtir á opnirreikningar.is? Ekkert af þessum félögum er undir „opnir reikningar“. Seðlabanki Íslands ber fyrir sig bankaleynd en engu er svarað í fjármálaráðuneytinu um Lindarhvol. 

                                                                                          ***

Starfsemi Lindarhvols

Raunar er starfsemi Lindarhvols sérstakur kapítuli útaf fyrir sig. Félagið var einkahlutafélag í eigu ríkissjóðs, sem var meðal annars falið að selja þær eignir sem lagðar voru til ríkissjóðs sem hluti af svokölluðu stöðugleikaframlagi fjármálafyrirtækja. Embættismenn í fjármálaráðuneytinu héldu utan um allt ferlið við stofnun og ákváðu hvernig starfseminni yrði háttað. Þrír traustir embættismenn voru skipaðir í stjórnina, Þórhallur Arason, þáverandi skrifstofustjóri efnahags- og fjármálaráðuneytisins, Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri ESÍ, og Ása Ólafsdóttir, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands. 

                                                                                          ***

Samþykktir og heimasíða Lindarhvols eru skreyttar almennum og velhljómandi yfirlýsingum um jafnræði og gagnsæi, auk þess sem siðareglur félagsins höfðu að geyma fögur fyrirheit um ábyrga ákvörðunartöku og upplýsingagjöf. Allt annað kom á daginn. 

                                                                                          ***

Stjórnin fól Steinari Þór Guðgeirssyni lögmanni, sem jafnframt vann mikið fyrir ESÍ, Seðlabankann og fjármálaráðuneytið, að sinna daglegum rekstri og virðist hafa haft afar takmarkað eftirlit með störfum hans. Raunar virðist stjórn Lindarhvols hafa haft mjög takmörkuðu hlutverki að gegna, svona yfirleitt. Þannig fól stjórnin lögmanninum að sjá alfarið um umdeilt söluferli á eignarhlut ríkissjóðs í Klakka ehf. á sama tíma og hann sat í stjórn félagsins.

Fór það svo að stjórnarmaður í Klakka annaðist söluferli á eignarhlut ríkisins til félags á vegum forstjóra Klakka. Öllum fyrirspurnum annarra, sem einnig buðu í Klakka, svaraði stjórn Lindarhvols með útúrsnúningum og skætingi. Urðu tilboðsgjafar því á endanum að leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál til þess eins að fá upplýsingar um tilboðsgjafa í ferlinu! Einnig þurfti að slíta það út úr stjórn félagsins hversu marga fundi hún hélt á tilteknu tímabili, líkt og það væri hernaðarleyndarmál. Fór þá lítið fyrir gagnsæinu. 

                                                                                          ***

Umbun án ábyrgðar

Stjórnendur þessara félaga fengu ákaflega vel greitt fyrir sín störf. Greint hefur verið frá í fréttum að Íslög, lögmannsstofa Steinars Þórs Guðgeirssonar, hafi fengið hátt í 100 milljónir króna fyrir vinnu vegna Lindarhvols. Enn bætist þó við samkvæmt opnum reikningum frá fjármálaráðuneytinu og stendur upphæðin nú í 140 milljónum króna. Þá fengu stjórnarmenn Lindarhvols einnig vel greitt fyrir unnin störf. Vinnuframlagið virðist hins vegar ekki hafa verið í neinu samræmi við launin. 

                                                                                          ***

Þó verður játa að það er ákaflega vel af sér vikið að geta sinnt fullu starfi skrifstofustjóra efnahagsog fjármálaráðuneytisins, framkvæmdastjórastöðu hjá Seðlabankanum eða prófessorsstöðu í Háskólanum á sama tíma og setið er í stjórn félags, sem sýslar með eignir sem nema mun hærri fjárhæðum en flest fasteignafélög á markaði hafa yfir að ráða. Óðinn hefur hins vegar rekist á að opinberir starfsmenn virðast almennt fjölhæfari en starfsfólk á almennum vinnumarkaði og geta sinnt öðrum verkum samhliða fullum störfum fyrir hið opinbera. 

                                                                                          ***

Mögulega má skrifa þessar háu greiðslur á þá miklu ábyrgð sem hvíldi á herðum viðkomandi stjórnarmanna. Hvorki Seðlabankinn né fjármálaráðuneytið hafa veitt upplýsingar um hvort þeir hafi sóst eftir eða fengið yfirlýsingu um skaðleysi vegna starfa sinna. Ljóst er hins vegar að alloft hefur verið leitað eftir slíku skaðleysi og fyrir liggur að Seðlabankinn hefur í einhverjum tilvikum veitt þeim sem starfa í þágu bankans skaðleysisyfirlýsingar. 

                                                                                          ***

Það er sérstakt, hvernig sem á er litið. En alveg sérstaklega þarna í kjölfar hrunsins, þar sem einn helsti og augljósasti lærdómurinn var sá að völd án ábyrgðar væru einstaklega varhugaverð, sérstaklega þegar þau vörðuðu annarra manna peninga. 

                                                                                          ***

Lærdómar

Eins og Skafti Harðarson komst að orði í áðurnefndri grein sinni er með ólíkindum að hægt skuli vera að fela örfáum einstaklingum, sem starfa í skjóli skaðleysis og bankaleyndar, eignir sem nema árstekjum ríkissjóðs án nokkurs virks eftirlits. Og áður en veitt er færi á að spyrja um starfsemi félaganna er þeim slitið og slóðin þar með hulin. 

                                                                                          ***

Lærðu menn ekkert af hruninu? Eða kannski það sem verra er: Var það þetta sem menn lærðu af hruninu?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.