Ósk stjórnar Kviku um að hefja sameiningarviðræður við Íslandsbanka heyrir til mikilla tíðinda í íslensku viðskiptalífi. Óháð því hvort viðræðurnar leiði til sameiningar bankanna á endanum má leiða að því líkum að þær séu upphaf mikillar gerjunar á íslenskum fjármálamarkaði. Síhækkandi launakostnaður, erfiðar markaðsaðstæður og vaxandi samkeppni kalla á frekari samruna og hagræðingu.

Það verður áhugavert að fylgjast með viðbrögðum Samkeppniseftirlitsins við þessari þróun. Það hefur áður útilokað samruna tveggja af stóru viðskiptabönkunum en annað kann að vera uppi á teningnum þegar kemur að sameiningu Kviku við Íslandsbanka.

Sennilega mun Samkeppniseftirlitið setja skorður við samstarf bíla- og tækjaleigufjármögnunarfyrirtækja bankanna – Lykil annars vegar og Ergó hins vegar – og að sama skapi er hugsanlegt að eftirlitið álykti sem svo að umsvifamikil eignastýring sameinaðs banka raski samkeppni. Sala þessarar starfsemi í heild eða hluta úr sameinuðum banka ætti ekki að grafa undan samlegðaráhrifum.

Hins vegar er líklegt að einhverjir setji sig gegn samruna bankanna tveggja í krafti þeirrar villuhugmyndar um að fákeppni sé uppi á íslenskum fjármálamarkaði. Sú hugmynd byggir á grundvallarmisskilningi á eðli íslensks fjármálamarkaðar.

Þegar er litið er til markaðarins með fasteignalán sést að það eru ekki eingöngu viðskiptabankarnir sem veita fasteignalán til einstaklinga svo eitthvert dæmi sé tekið. Á markaðnum starfa nú tæplega tuttugu lánveitendur – bankar, sparisjóðir og lífeyrissjóðir. Á sama tíma hefur veigamiklum hindrunum fyrir endurfjármögnun fasteignalána verið rutt úr vegi á undanförnum árum og hefur þetta leitt til mikillar samkeppni á þessum markaði.

Samkeppnin hefur einnig aukist þegar kemur að annarri fjármálaþjónustu við einstaklinga. Sparifjáreigendum stendur ekki eingöngu til boða að leggja fé sitt á innlánsreikninga í viðskiptabönkunum. Á undanförnum árum hafa tveir erlendir netbankar hafið starfsemi á Íslandi og eins og þróun undanfarinna ára sýnir hafa einstaklingar í vaxandi mæli fært sparnað sinn af innlánsreikningum yfir í verðbréfasjóði og önnur sparnaðarform.

Að sama skapi hefur fjártæknibyltingin leitt til þess að fjölbreytt flóra fyrirtækja keppist nú við að veita einstaklingum fjármálaþjónustu með einum eða öðrum hætti. Sú mynd að íslenskir neytendur eigi þann eina kost að eiga í viðskiptum við stóru viðskiptabankana þegar kemur að hefðbundinni fjármálaþjónustu á sér enga stoð í raunveruleikanum lengur. Þegar litið er til fyrirtækjalána sést að íslensku bankarnir eru í harðri samkeppni við erlenda banka. Þannig hefur markaðshlutdeild norrænna banka í lánveitingum til stærstu fyrirtækja landsins vaxið mikið síðastliðinn áratug – ekki síst vegna þess að þeir búa ekki við jafn íþyngjandi skattaumhverfi.

Veigamikil rök hníga að frekari sameiningum á íslenskum fjármálamarkaði. Þær eru nauðsynlegar til þess að íslensk fjármálafyrirtæki geti keppt við erlenda banka og aðra þá sem bjóða heimilum og fyrirtækjum fjármálaþjónustu. En mun Samkeppniseftirlitið standa í vegi fyrir þessari þróun?

Eins og flestir vita eru vegir Samkeppniseftirlitsins órannsakanlegir og ýmsir úrskurðir þess undarlegir svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Miðað við skýrslu

Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2013 virðast sérfræðingar þess styðjast við frekar þrönga skilgreiningu á markaðnum með fjármálaþjónustu þar sem íslenskir keppa fyrst og fremst hver við annan og ekki er tekið tillit til hlutdeildar annarra sem veita fjármálaþjónustu. Miðað við þá skýrslu verður að telja einhverjar líkur á því að Samkeppniseftirlitið heimili ekki sameiningu Kviku og Íslandsbanka.

Eigi að síður hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því að sú skýrsla leit dagsins ljós. Og ekki verður séð að sameiningin muni grafa undan samkeppni. Þvert á móti kemur hún til með að styrkja íslenskan fjármálamarkað til muna og þar af leiðandi er til mikils að vinna að hann gagni í gegn.