Í hartnær áratug hefur Samfylkingin verið í tilvistarkreppu og eru nokkrar skýringar á því. Nú bindur flokksfólkið miklar vonir við að með nýjum formanni nái flokkurinn að rísa upp úr öskustónni. Ýmislegt bendir til þess að Samfylkingin sé að deyja. Stóra spurningin er hvað komi í staðinn.

Samfylkingin varð til með sameiningu Alþýðuflokks, Kvennalistans og Alþýðubandalagsins um aldamótin. Auk þessara flokka kom Jóhanna Sigurðardóttir úr Þjóðvaka inni í nýju fylkinguna. Samfylkingin átti að sameina jafnaðarmenn og auka þannig slagkraft þeirra gegn Sjálfstæðisflokknum. Þetta gekk þó ekki þrautalaust fyrir sig því Alþýðubandalagið klofnaði strax í afstöðu sinni til Samfylkingarinnar og til varð Vinstrihreyfingin – grænt framboð.

Samfylkingin var framan af krataflokkur, sem staðsetti sig rétt vinstra megin við miðju. Virtist það falla í góðan jarðveg hjá kjósendum því í fernum kosningum, frá 1999 til 2009, var flokkurinn með 27 til 31% fylgi.

Hrunið hjá Samfylkingunni í kosningunum 2013 þegar flokkurinn fékk  12,9% atkvæða og árið 2016 þurrkaðist hann næstum út og fékk 5,7%. Í aðdraganda þeirra kosninga framdi flokkurinn pólitískt harakiri. Á landsfundi vorið 2015 stökk Sigríður Ingibjörg Ingadóttir óvænt úr sæti sínu og tilkynnti að hún hygðist bjóða sig fram gegn Árna Páli Árnasyni sitjandi formanni. Þrátt fyrir þetta óvænta mótframboð hafði Árni Páll sigur — með einu atkvæði. Flokkurinn kom því mjög laskaður út úr landsfundinum og ári síðar steig Árni Páll til hliðar og Oddný G. Harðardóttir var kjörinn formaður og Logi Már Einarsson varaformaður.

Eftir útreiðina í kosningunum haustið 2016 sagði Oddný af sér sem formaður og Logi tók við. Logi dró flokkinn enn lengra til vinstri en áður hafði verið gert og sótti markvisst að VG. Hann leiddi flokkinn í kosningunum í haust, þar sem Samfylkingin hlaut 12,1% fylgi, sem var sögulega léleg niðurstaða.

Logi tilkynnti nú í sumarbyrjun að hann hygðist ekki gefa kost á sér til formennsku. Þar með varð ljóst að enn á ný ætti að skipta um manneskju í brúnni.

Að loknum sumarfríum tilkynnti Kristrún Frostadóttir loks um framboð sitt undir dynjandi lófaklappi í Iðnó. Ákvörðun hennar kom engum á óvart en hefur valdið því að þeim þremur vikum, sem liðnar eru síðan hún tilkynnti framboð sitt, hefur enginn annar fetað í fótspor hennar og boðið sig fram. Meira að segja borgarstjóri hefur kvatt drauma sína um formennsku. Helstu fréttir af Samfylkingunni síðustu daga hafa snúist um það hver hyggist gefa kost á sér til varaformennsku. Þetta segir sitt um þær væntingar sem samfylkingarfólk ber til Kristrúnar.

Það verður á brattann að sækja fyrir Kristrúnu að rífa flokkinn upp. Hún hefur þegar farið í gegnum einar alþingiskosningar, þar sem flokkurinn fékk útreið. Lokaniðurstaða kosninganna fyrir tæpu ári var 9,9% fylgi, sem er næst lélegasta útkoma Samfylkingarinnar í kosningum frá upphafi.

Einhverjir munu benda á að Kristrún hafi ekki leitt flokkinn í þeim kosningum heldur Logi. Það er hins vegar umdeilanlegt því öllum sem fylgjast með stjórnmálum var ljóst að flokksforysta Samfylkingarinnar stillti Kristrúnu upp sem vonarstjörnu flokksins í kosningabaráttunni, á kostnað Loga.

Innan grasrótar Samfylkingarinnar eru háværar raddir um að bæta þurfi ímynd flokksins með því að segja skilið við Samfylkingar-nafnið og nefna flokkinn Jafnaðarflokkinn. Þetta er alþekkt í viðskiptum. Nói Síríus kvaddi sem dæmi fyrir nokkrum árum Pipp-nafnið og setti Síríus Pralín súkkulaði á markað.

Ekki kæmi á óvart ef Samfylkingin myndi líka segja skilið við merki sitt því á framboðsfundi Kristrúnar var það hvergi að sjá heldur blasti rósin við fundargestum. Eins og margir vita var hnefi og rós merki Alþýðuflokksins, þar sem hnefinn táknaði afl og rósin fegurð. Hnefinn var hvergi sjáanlegur í Iðnó, þó aflið sé einmitt það sem flokkurinn þarfnast mest. Ekki er nóg að skipta um formann, nafn og merki heldur hlýtur flokkurinn að þurfa að endurskrifa stefnuskrá sína, nema forystan sé sátt við stefnu sem nýtur stuðnings 9,9% landsmanna. Verði það ekki gert er þetta bara eins og Pralín súkkulaðið — nýjar umbúðir en innihaldið hið sama.

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út 8. september.