*

sunnudagur, 13. júní 2021
Týr
9. maí 2021 14:14

(Sam)Fylkingin drap kratana

Týr er ekki krati, en hann hefði gaman af því að sjá öflugan krataflokk í íslenskum stjórnmálum.

Samfylkingin er í viðvarandi tilvistarkreppu. Eiginlega svo mikilli að Týr næstum því saknar þess tíma þegar talað var um tveggja turna tal Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, þó bara næstum því.

Tilvistarkreppan er staðreynd. Reykjavíkurklíkunni, sem í daglegu tali er kölluð the loony left af eigin flokksmönnum, tókst að koma Árna Páli Árnasyni fyrir pólitískt kattarnef. Árangurinn af því var sá að flokkurinn þurrkaðist næstum því út í kosningunum 2016, fékk aðeins 5,7% fylgi og þrjá þingmenn. Flokkurinn náði þó betra fylgi í kosningunum 2017, fékk þá 12% fylgi og sjö þingmenn kjörna. Samfylkingin mældist með um 17% fylgi um áramót en eftir að hafa kynnt framboðslista sína í Reykjavík hefur fylgi flokksins lækkað á ný niður í 12%.

                                                                  ***

Og skyldi engan undra. Formaður flokksins hefur lýst því yfir að hann verði aldrei forsætisráðherra, oddvitinn í Suðurkjördæmi heldur að pólitísk skilaboð flokksins felist í því að deila ritstjórnargreinum af Kjarnanum daglega og það gengur illa að finna frambjóðendur í NV-kjördæmi. Undarleg aðferð við uppröðun á lista í Reykjavík hefur skilið eftir sig sár, búið er að bola framkvæmdastjóranum úr starfi, skynsamlegt fólk hefur yfirgefið flokkinn og eftir sitja einstaklingar sem eru samt reiðari en þeir sem tekist hefur að fæla úr flokknum. Oft á tíðum er erfitt að greina skilaboð flokksins frá bulli Pírata og yfirlæti Viðreisnar, rétt eins og fylgistölur flokksins segja til um.

Tilvistarkreppan kallar líka fram örvæntingarfullar og illa ígrundaðar aðgerðir, líkt og nýlega tillögu flokksins að skylda alla þá sem koma til landsins í stofufangelsi af því að kallað var eftir því á samfélagmiðlum. Flokkurinn reisir sína eigin vindhana eftir þörfum.

                                                                  ***

Jafnaðarmannaflokkar á Norðurlöndunum eru almennt stórir og víðsýnir flokkar. Þeir tala fyrir öflugu velferðarkerfi en átta sig þó á því að það er atvinnulífið sem skapar þau verðmæti sem halda uppi slíku kerfi. Össur Skarphéðinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fyrrnefndur Árni Páll áttuðu sig á þessu. Ekkert þeirra ætti þó séns í sínum gamla flokki í dag.

Týr er ekki krati, en hann hefði gaman af því að sjá öflugan krataflokk í íslenskum stjórnmálum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.