*

mánudagur, 15. júlí 2019
Leiðari
9. júní 2016 11:00

Samfylkingin í kviksandinum

Flokksmenn Samfylkingarinnar kusu yfir sig óbreytt ástand þegar Oddný Harðardóttir var kjörinn formaður flokksins.

Haraldur Guðjónsson

Flokksfélagar Samfylkingarinnar kusu um síðustu helgi óbreytt ástand. Flokkskjarninn virðist sáttur við 7 til 8 prósenta fylgi. Nýi formaðurinn, sá sem á að rífa flokkinn upp úr þeim öldudal sem hann hefur verið í, er núverandi þingmaður og fyrrverandi ráðherra.

Sigur Oddnýjar G. Harðardóttur sýnir vel í hversu mikilli krísu flokkurinn er. Endurnýjunin er engin. Eina breytingin er að flokkurinn hefur hallað sér til vinstri en þar er annar skýr valkostur þegar í boði. Munurinn á Samfylkingunni og Vinstri grænum er sá að þeir vinstrimenn sem kjósa Vinstri græna vita nákvæmlega hvað þeir fá. Það sama er ekki hægt að segja um kjósendur Samfylkingarinnar. Skilaboð landsfundarins voru í Forrest Gump-stíl. „Lífið er eins og konfektkassi, þú veist aldrei hvað þú færð.“

Ein afleiðing af þessu stefnuleysi flokksins er sú að nú vita hægri kratarnir ekki sitt rjúkandi ráð. Þeir hanga í lausu lofti. Einhverjir gjóa augunum í átt að Viðreisn og Pírötum og sumir meira að segja enn lengra til hægri.

Sú var tíðin að aðild að ESB var Samfylkingunni mikið hjartans mál. Í stefnuræðu sinni minnist Oddný ekki einu orði á Evrópusambandið heldur sagði hún Samfylkinguna vera velferðarafl og lagði megináherslu á endurreisn heilbrigðiskerfisins. Flokkurinn mun ekki vinna neinn kosningasigur með þetta stefnumál efst á blaði einfaldlega vegna þess að allir flokkar landsins vilja bæta heilbrigðiskerfið.

Oddný sagði að Samfylkingin væri flokkur kvenfrelsis og jafnréttis kynjanna. „Kynbundinn launamun verður að uppræta. Hann mælist nú rúmlega 20% hér á landi,“ sagði hún. Þessu getur enginn mótmælt en það er samt áhugavert að í hennar huga snúist jafnrétti kynjanna fyrst og síðast um peninga og þar með völd. Hún minntist ekki einu orði á fjölskyldumálin, þar sem karlar, sérstaklega einstæðir feður, eiga undir högg að sækja. Gæti verið að lykillinn að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði felist einmitt í því að jafna mun kynjanna á öllum sviðum samfélagsins?

Það mikilvægasta í vopnabúri formanns stjórnmálaflokks er skýr sýn og stefna. Nafn Oddnýjar er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar hugsað er um þetta tvennt. Magnús Orri Schram, sem háði baráttu við Oddnýju, má þó eiga það að hann vildi breytingar og viðraði meira að segja þá hugmynd að breyta nafni flokksins, sem segir okkur að hópur flokksmanna telur „Samfylkinguna“ vera ónýtt vörumerki. Kjarnafélagarnir voru ekki sammála heldur kusu óbreytt ástand.

Samfylkingin er orðin samnefnari fyrir allt það sem er að í hugmyndafræðilegri vinnu og stefnumótun íslenskra stjórnmála í dag. Formaðurinn virðist ekki hafa skýra sýn og stefna flokksins er handahófskennd. Flokkurinn hafði tækifæri til að rétta skútuna af um síðustu helgi en flokkskjarninn vanmat gjörsamlega stöðuna á hinu pólitíska sviði og skildi flokkinn eftir úti í miðjum kviksandinum. Drógu Árna upp en hentu Oddnýju út í og fóru heim með haldreipið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is