*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Leiðari
22. desember 2017 15:15

Samfylkingin og VG

Hvers vegna eru Vinstri græn nú orðin höfuðandstæðingur Samfylkingarinnar?

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnnar.
Haraldur Guðjónsson

Samfylkingin hefur breytt um kúrs undir forystu Loga Más Einarssonar. Þó Samfylkingin sé tiltölulega ungur flokkur, rétt tæplega tvítugur, þá hvílir hann á gömlum merg. Hann varð til með sameiningu Alþýðuflokks, Kvennalistans og Alþýðubandalagsins um aldamótin. Auk þessara flokka kom Jóhanna Sigurðardóttir úr Þjóðvaka inni í nýju fylkinguna.

Samfylkingin átti að sameina jafnaðarmenn og auka þannig slagkraft þeirra gegn Sjálfstæðisflokknum. Þetta gekk þó ekki þrautalaust fyrir sig því Alþýðubandalagið klofnaði strax í afstöðu sinni til Samfylkingarinnar og til varð Vinstrihreyfingin – grænt framboð undir forystu Steingríms J. Sigfússonar. Steingrímur J. og félagar töldu Samfylkinguna of hægri sinnaða. Þeir vildu standa lengra til vinstri og höfðu til dæmis engan áhuga á Evrópusambandinu.

Samfylkingin hafði framan yfir sér hægri-krata-áru. Flokkurinn staðsetti sig rétt vinstra megin við miðju og það virtist falla í góðan jarðveg hjá kjósendum því í fernum kosningum, frá 1999 til 2009, var flokkurinn með 27 til 31% fylgi. Hrunið hjá Samfylkingunni kom fimm árum eftir bankahrunið. Í kosningunum 2013 fékk flokkurinn 12,9% og árið 2016 þurrkaðist hann næstum út og fékk 5,7%.

Í aðdraganda þeirra kosninga framdi flokkurinn „harakiri“. Á landsfundi flokksins vorið 2015 stökk Sigríður Ingibjörg Ingadóttir óvænt úr sæti sínu og tilkynnti að hún hygðist bjóða sig fram gegn Árna Páli Árnasyni sitjandi formanni. Árni Páll varð skiljanlega mjög hissa, eiginlega skelkaður. Þrátt fyrir þetta óvænta mótframboð hafði Árni Páll sigur — með einu atkvæði. Flokkurinn kom því mjög laskaður út úr landsfundinum og ári síðar steig Árni Páll til hliðar og Oddný G. Harðardóttir var kjörinn formaður og Logi Már Einarsson varaformaður.

Eftir útreiðina í kosningunum haustið 2016 sagði Oddný af sér sem formaður og allt í einu var arkitektinn og Skriðjökullinn Logi Már orðinn formaður. Logi Már hefur sett sitt mark á flokkinn. Hann hefur dregið hann enn lengra til vinstri en áður og mjög markvisst sótt að Vinstri grænum. Hann leiddi flokkinn í kosningunum í haust, þar sem Samfylkingin hlaut 12,1% fylgi. Þó flokkurinn hafi ríflega tvöfaldað fylgið frá 2016 þá er þetta nú samt sem áður næst lélegasta útkoma Samfylkingarinnar í kosningum frá upphafi.

Undir forystu Loga Más er Samfylkingin á mjög hraðri leið til vinstri. Spjótin beinast að VG, sem nú er allt í einu orðinn höfuðandstæðingurinn. Öll orðræða Loga Más og jafnvel tilkynningar flokksins beinast að VG. Þegar ný stjórn lagði fram fjárlagafrumvarp sendi Samfylkingin frá sér tilkynningu með fyrirsögninni „VG hefur 2% áhrif á ríkisfjármálin“.

Í umræðum um stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur á Alþingi fyrir viku sagði Logi Már: Í stjórnarsáttmálanum felst sú málamiðlun að Vinstri græn halla sér þétt upp að Sjálfstæðisflokknum í skattamálum. Hún fellst því aðallega í því að gefa afslátt í baráttunni gegn ójöfnuði.“

En hvers vegna er VG nú orðinn höfuðandstæðingur Samfylkingarinnar? Opinbera skýringin er auðvitað sú að VG hafi svikið vinstri vænginn með því að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn. Raunverulega skýringin er sú að Samfylkingin er að sækja á vinstri-miðin, sverma fyrir ósáttum kjósendum Vinstri grænna.

Allt er þetta frekar einkennilegt. Að sækja frá miðju til vinstri í íslenskri pólitík er eins og að fara frá Austurlandi á Vestfirði til að ná í hreindýr — eða svona hér um bil. Samfylkingin hefur gert hægri-kratana munaðarlausa og þannig komið miðjuflokkunum, sérstaklega Viðreisn, í dauðafæri á að rísa upp. Hvort Viðreisn síðan nýtir tækifærið á eftir að koma í ljós. Þar innanborðs eru ekki margir sem vanir eru því að vera í stjórnarandstöðu.

Árið 1999 stofnaði Steingrímur J. Vinstrihreyfinguna – grænt framboð vegna þess að hann taldi Samfylkinguna ekki vera nógu róttækan vinstriflokk. Árið 2017 er Samfylkingin á góðri leið með verða róttækari vinstriflokkur en VG. Forystan er líka alveg hætt að tala um Evrópusambandið, sem var henni einu sinni svo mikið hjartansmál. Kannski að Steingrimur J. sé að hugsa sinn gang.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.