*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Huginn og muninn
14. janúar 2022 07:03

Sam­hljómur Við­reisnar og Kjarnans

Áhugaverður samhljómur var milli ritstjóra Kjarnans og formanns Viðreisnar sem birtu bæði grein undir fyrirsögninni Verbúðin Ísland á miðvikudagsmorgun.

Haraldur Guðjónsson

Hrafnarnir vita sem er: Eftir höfðinu dansa limirnir. 

Þeim þótti því áhugaverður samhljómur birtast í skoðanaskrifum Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, annars vegar og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttir, formanns Viðreisnar, á miðvikudag. Þórður skrifaði leiðara Kjarnans undir fyrirsögninni Verbúðin Ísland og birtist hann klukkan 10 um morguninn. Aðeins einni og hálfri klukkustund síðar birtist svo grein eftir Þorgerði með sömu fyrirsögn á Vísi.

Ekki nóg með að sama fyrirsögn sé á greinunum þá leggja þær báðar út frá sjónvarpsþáttunum Verbúðin. En allir andstæðingar kvótakerfisins keppast við að túlka umfjöllunarefni þáttanna sér í hag um þessar mundir. 

Greinar Þórðar Snæs og Þorgerðar Katrínar fjalla svo með miklum harmkvælum um hvernig kvótakerfið – hagræðingin sem því hefur fylgt auk sjálfbærni og arðsemi veiða og vinnslu – sé í raun uppspretta alls þess ranglætis sem finna má á Íslandi.

Er samhljómurinn slíkur að hröfnunum væri ómögulegt að greina á milli hvort þeirra skrifaði hvaða grein hefðu nöfnin ekki fylgt með.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.