*

laugardagur, 11. júlí 2020
Óðinn
27. nóvember 2019 07:03

Samherji og sameiginleg sök

Er forsetinn að segja að Íslendingar geti ekki borið höfuðið hátt vegna Samherjamálsins síðara. Hvað með hið fyrra?

Haraldur Jónasson

Forsvarsmenn Siemens voru fundnir sekir fyrir grískum dómstólum árið 2017 um að hafa mútað opinberum starfsmönnum vegna sumarólympíuleikanna sem haldnir voru í Aþenu árið 2004. Talið er að múturnar hafi numið 100 milljónum Bandaríkjadala, um 12 milljörðum króna.

                                                                  ***

Frá árinu 1990 er Siemens talið hafa mútað embættismönnum um allan heim um meira en 1,4 milljarða Bandaríkjadala, um 170 milljarða króna.

                                                                  ***

Árið 2010 viðurkenndi þýski bílaframleiðandinn Daimler að hafa greitt tugi milljóna Bandaríkjadala í mútur í 22 löndum. Í flestum tilfellum var um greiðslur eða vörur til embættismanna vegna mikilvægra sölusamninga og spönnuðu greiðslurnar yfir um áratug. Til dæmis þáði háttsettur embættismaður í Túrkmenistan 40 milljóna króna brynvarinn lúxusbíl af gerðinni MercedesBenz.

                                                                  ***

Bæði Siemens og Daimler urðu fyrir verulegum álitshnekki vegna þessa, fyrir utan beinar sektir og önnur opinber viðurlög. Hins vegar varð þess ekki vart að Þýskaland eða Þjóðverjar sættu almennri fordæmingu eða væru gerð ábyrg fyrir þessum myrkraverkum stórfyrirtækjanna, þrátt fyrir að föðurlandið væri snar þáttur í ímynd þeirra.

                                                                  ***

Hið sama má segja um hið alþjóðlega hneyksli þegar upp komst að þýskir bílaframleiðendur hefðu um langa hríð stundað skipulegt fals varðandi útblástursmælingar bíla þeirra. Ljóst er að þeir urðu margir fyrir nokkrum áföllum í sölu eftir að upp komst um strákinn Dieter og á eftir hafa fylgt stórkostlegar stjórnvaldssektir, sættir og mikið til óuppgerð skaðabótamál kaupenda. Fyrir þýska bílaiðnaðinn er tjónið gríðarlegt og það hefur sín áhrif á efnahagslífið. En það er þó hvorki svo að Þjóðverjar séu litnir hornauga í öðrum löndum vegna þess né að upp hafi komið umræða um stjórnarskrárbreytingar af þeim sökum.

                                                                  ***

Fréttamenn gera skyssur, rétt eins og bissnessmenn

Í liðinni viku var fréttaþátturinn Kveikur sýndur í Ríkissjónvarpinu. Þar komu fram ásakanir um að starfsmenn Samherja hefðu mútað embættismönnum í Namibíu. Margt sem kom fram í þættinum bendir sterklega að um hreinar og beinar mútugreiðslur hafi verið að ræða. Afar ósennilegt verður að teljast að æðstu yfirmenn Samherja, og þar með æðsti yfirmaður, hafi ekki vitað af þessum himinháu greiðslum.

                                                                  ***

Það er þó rétt að hrapa ekki að ályktunum um neitt. Þess er rétt að minnast að það hafa verið framin dómsmorð hérlendis sem erlendis. Í því samhengi er nærtækt að nefna Guðmundar- og Geirfinnsmálið, sem vafðist svo fyrir eyjarskeggjum að fenginn var útlenskur rannsóknarlögreglumaður til að skakka leikinn (þó nú þyki sennilega flestum að leikurinn hafi orðið enn skakkari fyrir vikið). En þá velktist enginn í vafa. Ef aðeins yrði lesinn hæstaréttardómurinn í málinu má telja fullvíst að allir sæmilega læsir menn væru samþykkir því að þessir menn voru allir sekir. Allir með tölu. Í fyrra voru allir þessir menn hins vegar fundnir saklausir, 41 ári eftir að þeir höfðu upphaflega verið fundnir sekir.

                                                                  ***

Í Hafskipsmálinu var upphaflega ákært í 450 atriðum, en þegar saksóknarinn reyndist vanhæfur var skipaður nýr saksóknari. Sá var prófessor í refsirétti við lagadeild Háskóla Íslands samfleytt í 37 ár og grisjaði hann ákæruliðina niður í 255 af mikilli vandvirkni. Dómstólar höfnuðu hins vegar öllum veigumestu ákæruatriðunum, en sakfellt var fyrir 20 ákæruatriði í Hæstarétti. Öll voru þessi ákæruatriði fremur veigalítil miðað við það sem ákæruvaldið lagði upp með.

                                                                  ***

Það er því ekki svo að hinn langi armur laganna eða bestu manna yfirsýn sé óbrigðul.

                                                                  ***

Í því samhengi er nauðsynlegt að muna að fréttamenn og blaðamenn eru ekki óskeikulir frekar en aðrir. Það sást best á rannsókn Ríkissjónvarpsins sem leiddi til rannsóknar Seðlabanka Íslands á meintum brotum Samherja á gjaldeyrislögum. Þar stóð ekki steinn yfir steini og var kærum Seðlabankans fleygt út af skrifstofu sérstaks saksóknara.

                                                                  ***

Þó ekki væri nema af þeirri ástæðu ætlar Óðinn að bíða með að dæma nokkurn og bíður átekta eftir athugun lögmannsstofu Samherja og eftir atvikum opinberum rannsóknum.

                                                                  ***

Kannski er þó rétt að nota tímann þangað til og hugleiða aðeins fortíðina. Til dæmis þetta sem nefnt var að ofan úr Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Það má vel hafa efasemdir um getu löggæslu og dómsvalds í þeim, en þá ekki síður Derrickinn sem sóttur var til Þýskalands og allt átti að leysa. Eða fullvissuna um sekt sakborninga sem þorri þjóðarinnar bjó að í áratugi á eftir. Það er auðvelt að fussa yfir því öllu og segja að varla hafi verið á öðru von þarna í fornöld, þegar sjónvarpið var svarthvítt og pitsan ókomin til landsins. En höfðu menn mikið lært af því upp úr hruni, þegar sérstökum var komið á, Seðlabankanum falið hálfgildingslögregluvald og sjálf Eva Joly fengin frá útlandinu til að skakka leikinn?

                                                                  ***

Ísland og Þýskaland

Þessa dagana keppast allir vinstrimenn um að tala Ísland niður. Það er ekkert nýtt. Þessir sömu menn gerðu það þegar einhver fékk þá fráleitu hugmynd að skattgreiðendur á Íslandi ættu að greiða skuldir einkabankans Landsbanka. Ef ekki til þess að ganga í augun á Evrópusambandinu, þá til þess að ótínd alþýðan léti innlánasöfnun banka í útlöndum sér að kenningu verða.

                                                                  ***

Einhver ótrúlegasta della sem Óðinn sá í Icesave-málinu gæti allt eins átt við um Samherjamálið hið síðara. Í álitsgerð Siðfræðistofnunar um frumvarp um ábyrgð ríkisins á skuld Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna Icesavereikninga Landsbanka Íslands árið 2009 sagði Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, að það yrði gott fyrir Íslendinga að axla þær byrðar að greiða Bretum og Hollendingum sanngjarnar bætur. Um þetta sagði hinn mikli vitringur Norðlendinga:

Það koma nokkrir möguleikar til álita en sennilegast er þó tvennt: að efla siðferðisþrek íslensks almennings og að koma í veg fyrir að íslenskur almenningur láti bjóða sér aftur svipaða atburðarás og leiddi til vandræðanna með Icesave reikningana. Hugmyndin er þá sú að þær samfélagslegu þrengingar sem fylgja þessum greiðslum koma við almenning en hann heldur sjálfsvirðingunni vegna þess að hann stendur í skilum vegna skulda sem stofnað var til þegar allar eftirlitsstofnanir ríkisins og hin pólitísku yfirvöld hefðu átt að sjá í hvað stefndi en aðhöfðust ekki nægilega. […] Um leið og almenningur tekst á við afleiðingar þessa sinnuleysis styrkist vitund hans um það að þetta má ekki koma fyrir aftur.[...] Það er rétt að taka fram að þetta gengur einungis að þeirri forsendu gefinni að skuldirnar sligi ekki ríkissjóð.

                                                                  ***

Þessar hugmyndir voru svo fráleitar að engu tali tekur, en að þær hafi verið settar fram í álitsgerð Siðfræðistofnunar vekur miklar efasemdir um erindi stofnunarinnar og siðferðið þar á bænum. Þar er verið að leggja til sameiginlegar refsingar á þjóðina alla vegna ætlaðra misgjörða einstaklinga og lögaðila, sem eiga það helst sameiginlegt að eiga varnarþing í sama landi. Óðinn hafði haldið að ógeðfelldar hugmyndir um sameiginlegar refsingar hefðu lognast út af með alræðisríkjum 20. aldar, en þær lifa greinilega góðu lífi í háskólasamfélaginu. Og víðar ef marka má heift margra síðustu daga, sem krefjast þess að sjávarútvegnum öllum verði refsað harðlega fyrir það sem Samherji kann að hafa gert af sér.

                                                                  ***

Eini ljósi punkturinn í hugmynd Guðmundar er sá, að ef íslenskir skattgreiðendur hefðu tekið á sig skuldir einkabankans Landsbankans þá hefði ráðstöfunarfé hins opinbera minnkað verulega og ýmsar stofnanir ríkisins, svo sem háskólarnir, að líkindum þurft að losa ótal óþurftamenn og slíkir menn hefðu þurft að fá sér heiðarlega vinnu. Til dæmis í fiski.

                                                                  ***

Nú er Guðmundur Heiðar norðan heiða og Óðinn veltir því fyrir sér hvort von sé á nýrri kenningarsmíð hans um siðbót almennings. Samherji hefur höfuðstöðvar á Akureyri, flestir starfsmenn vinna þar og þeir eiga flestir fjölskyldur þar. Ætlar Guðmundar Heiðar nú að leggja til að íbúar á Norðurlandi axli hugsanlegar sektir vegna Samherjamálsins hins síðara? Jafnvel fangelsisdóma?
                                                                  ***
 Nei, auðvitað er enginn svo skyni skroppinn nema hámenntaðir spekingar háskólasamfélagsins. Ekki frekar en einhverjum dettur í hug að Þjóðverjar hafi bognað og brotnað þegar tvö af helstu iðnfyrirtækjum þeirra hafi brotið lög á erlendri grundu. Auðvitað ekki. Því sökin var ekki hans.
                                                                  ***

Hið sama á við á Íslandi og ástæðulaust að gera illt verra.

                                                                  ***

Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hélt ræðu í álverinu í Straumsvík í lok síðustu viku. Þar sagði hann m.a.:

Við Íslendingar verðum að geta borið höfuðið hátt í útlöndum, ekki síst við sem höfum notið trausts til trúnaðarstarfa fyrir land og þjóð. Við viljum eiga okkar flaggskip og lofa þá sem þar eru á stjórnpalli, fólk í heimi menningar og mennta, íþrótta og lista, fólk í heimi hátækni og nýsköpunar, fólk í heimi iðnaðar og útvegs. Lengi höfum við stært okkur af forystuhlutverki til sjávar, þekkingu okkar og reynslu og vilja til að vinna með öðrum, öllum til hagsbóta. Þetta hef ég gert nýlega, svo dæmi séu tekin, í heimsóknum ytra og þegar ég tók á móti nýjum sendiherra Namibíu eins og lesa má í frétt á heimasíðu embættisins: „Loks var rætt um fiskveiðar undan ströndum Namibíu og framtíðarhorfur þar í þágu heimamanna“, og var þá vísað til þróunarsamvinnu þar ytra.

                                                                  ***

Hvað er forsetinn að segja? Að Íslendingar geti ekki borið höfuðið hátt vegna Samherjamálsins hins síðara? Af hverju minnist forsetinn ekki á Samherjamálið hið fyrra og grimmilega misnotkun embættismanna á valdi sínu? Þar má þó að einhverju leyti segja að Íslendingar beri ábyrgð á, því ekki bera embættismennirnir ábyrgð. Nei, það er sjálfsagt að leyfa vinstri mönnunum að tala þjóðina niður, það verið þeirra meginstef áratugum saman. En það er ekki þitt hlutverk, forseti góður.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.