*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Andrés Magnússon
19. janúar 2020 13:42

Samkeppni & áróður

Kjarnamenn eru mjög áfram um að fá fjölmiðlafrumvarpið samþykkt, enda lítilli útgáfu mikið hagsmunamál.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir er mennta- og menningarmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur er komið í farveg hjá Alþingi, en fram eru komnar nokkrar umsagnir um það, bæði frá hagsmunaaðilum og opinberum stofnunum. Fjölmiðlarýnir las m.a. grein í Kjarnanum, sem byggð var á umsögn útgáfunnar, en bæði ritstjórinn og útgáfan eru mjög áfram um samþykkt frumvarpsins, þó með þeirri breytingu að endurgreiðsluhlutfall á ritstjórnarkostnaði verði hækkað úr 18% í 25%. Þetta er lítilli útgáfu eins og Kjarnanum auðvitað verulegt hagsmunamál (þar er ritstjórinn og fleiri á ritstjórn meðal eigenda), það munar um minna og getur hæglega skilið milli feigs og ófeigs.

Vandinn er sá að áfram er þá gert fyrir 50 milljóna króna þaki á endurgreiðslur, sem takmarkar stuðninginn við stóru fjölmiðlana -  Morgunblaðið, Fréttablaðið og Sýn - einmitt þá fjölmiðla, sem auk Ríkisútvarpsins ástunda mesta frumfréttaöflun í landinu og bera mestan kostnað af, en eiga allir undir högg að sækja. Nú standa minni fjölmiðlar örugglega engu betur að jafnaði, en frómt frá sagt skiptir ekki jafnmiklu hvort þeir lifa eða deyja, styrkjast ögn eða þurfa að rifa seglin. Frumfréttavinnsla þeirra er sáralítil, en meira um endursagnir, skýringar og skoðanir.

Ekki skal lítið gert úr mikilvægi slíkrar miðlunar, en án áreiðanlegs og fjölþætts frumfréttaflutnings stóru miðlanna hafa þessir smærri úr litlu að moða. Menn sjá í hendi sér hversu einsleitur fréttaflutningur á öldum ljósvakans yrði ef fréttastofa Sýnar legði upp laupana og Ríkisútvarpið sæti eitt eftir, nú eða ef Morgunblaðið neyddist til þess að draga verulega úr fréttaöflun líkt og Fréttablaðið hefur þegar gert.

Þetta sést vel ef litið er til hlutfallslegs fréttafjölda helstu daglegra miðla það sem af er árs:

  • Fréttablaðið 15%
  • Morgunblaðið 29%
  • RÚV 12%
  • Sýn 6%
  • mbl.is 22%
  • visir.is 16%

                                          ***

Í greininni í Kjarnanum er hinn póllinn tekinn í hæðina og sagt að með auknu endurgreiðsluhlutfalli (sem kæmi Kjarnanum mjög til góða) myndi það skila „öflugri og fjölbreyttari fjölmiðlaflóru, sterkari lýðræðisstoðum, fleiri krónum aftur í ríkissjóð í formi aukinna skattgreiðslna samhliða vexti og fleiri störfum fyrir metnaðarfulla blaðamenn".

Nú er tæplega á vísan að róa með það allt og fullyrðingin um fjölgun starfa einkar hæpin og álíka grundvölluð og gamla ákallið um smábátaútgerð, sem þrefalda átti störf í sjósókn (les: minnka framleiðni um ⅔). En svo sagði að endurgreiðslur til stóru miðlanna yrðu hinar sömu óháð hlutfallinu og breytingin hefði því engin áhrif á þá.

Nú er ekki gott að segja hvort Kjarnamenn átti sig ekki á því eða séu beinlínis að hagræða sannleikanum, en auðvitað hefur breytingin áhrif á stóru miðlana, þótt þeir fengju áfram sömu krónutölu vegna 50 milljóna króna þaksins. Samkeppnisstaða þeirra gagnvart smærri miðlunum skekkist, þeir njóta síður hagræðis stærðarinnar og þar fram eftir götum.

Og miðað við umfang þeirra og stöðu er vandséð að kúlurnar 50 breyti miklu um rekstur þeirra og lífvænleika. Fyrir nú utan hitt, sem áður hefur verið nefnt á þessum stað, hversu fjarskalega illa það fer saman við markmið um traustari lýðræðisstoðir að gera fjölmiðla háða stjórnmálamönnum, sem fara með fjárveitingavaldið.

Þetta með samkeppnisstöðu og fjölbreytni skiptir máli, líkt og m.a. kom fram í umsögnum Samkeppniseftirlitsins og Fjölmiðlanefndar um frumvarpið og rétt er að víkja nánar að síðar.

                                          ***

Þá að allt öðru og þó, enn skal fjallað um íhlutun hins opinbera á fjölmiðlamarkaði. Í Íran hefur um árabil kraumað óánægja almennings með harðstjórnina og kúgun klerkaveldisins þar, en sérhverjir tilburðir til andófs hafa verið barðir niður með harðri hendi, þannig að reglulega hafa hundruð manna legið í valnum.

Á dögunum brast þolinmæði íranskrar alþýðu þegar í ljós kom að stjórnvöld þar höfðu skotið niður farþegaflugvél með þeirri afleiðingu að allir um borð fórust, en í þokkabót sagt ósatt um ódæðið dögum saman. Við tóku hatrömm mótmæli gegn stjórnvöldum á götum Teheran og helstu borga, en þau hafa svarað með harðýðgi og kúlnahríð.

Þá gerðist hins vegar hið óvænta, að einn vinsælasti fréttaþulur landsins, Gelare Jabbari, tilkynnti það á Instagram að hún hefði látið af störfum, hún ætti bágt með að trúa því að stjórnvöld hefðu drepið fjölda landa sinna, en umfram allt þó hitt: „Ég bið ykkur afsökunar á árunum 13, sem ég hef logið að ykkur á sjónvarpsskjánum."

Þetta er sennilega einsdæmi í fjölmiðlaumhverfi einræðisríkis, en var vitaskuld ekki mögulegt fyrir daga félagsmiðla. Þetta var þó ekki einsdæmi lengi, því ekki leið á löngu uns stalla hennar í ríkissjónvarpinu IRIB, Zahra Khatami, lét líka af störfum og kvaðst aldrei myndu starfa í sjónvarpi aftur: „Fyrirgefið mér."

Skömmu síðar tilkynnti ankerismaðurinn Saba Rad að hann væri búinn að fá nóg eftir 21 ár í útvarpi og sjónvarpi, sér væri ómögulegt að starfa frekar við fjölmiðlun. Fleiri hafa siglt í kjölfarið og það gerir fólk hvorki af hugsunarleysi né hugleysi í blóði drifnu einræðisríki eins og Íran.

                                          ***

Hins vegar er það umhugsunarvert að íranska ríkissjónvarpið rekur ýmsar stöðvar, þar á meðal alþjóðlegu „fréttastöðina" Press TV, sem auðvitað er ekkert annað en áróðursmaskína klerkaveldisins, en hún hefur greitt ýmsu málsmetandi fólki á Vesturlöndum fyrir að koma fram í þáttum stöðvarinnar, þar á meðal Jeremy Corbyn, leiðtoga breska Verkamannaflokksins og stjórnarandstöðunnar þar í landi. Hver er trúverðugleiki þess fólks?

Press TV er ekki eina alþjóðlega áróðursstöðin af þessu tagi, nefna má hina rússnesku RT og hina kínversku CGTN (áður CCTV). Fleiri mætti til nefna, þótt áróðurinn sé mismikill; ritstjórnarstefna al-Jazeera er þannig algerlega í takt við hagsmuni stjórnvalda í Katar, þó að stöðin flytji einnig áreiðanlegri fréttir en almenningur í flestum arabaríkjum á að venjast.

En allar greiða þær vestrænum stjórnmálamönnum og stefnuvitum fyrir að koma fram í dagskránni og ljá sér trúverðugleika með þeim hætti. En eru þeir þá ekki beinlínis meðreiðarsveinar harðstjórnanna? Og skyldu þeir einhvern tíman skammast sín og biðjast afsökunar? Því auðvitað má þeim vera ljóst að ríkisvaldið veitir ekki offjár í fjölmiðla af einskærri sannleiksást með upplýsingu almennings að leiðarljósi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.