Lífvænleiki borga er einn þeirra alþjóðlegu mælikvarða sem notaður er um samkeppnishæfni höfuðborga heims. Þær borgir sem tryggja meðal annars, gott húsnæðisframboð og fjölbreytt atvinnutækifæri, mælast almennt vel í alþjóðlegum samanburði.

Viðvarandi húsnæðisskortur

Það er viðvarandi húsnæðisskortur í Reykjavík sem endurspeglast meðal annars í mikilli verðhækkun íbúða. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur áætlað 30.000 íbúða þörf á landsvísu næsta áratuginn. Fjölgunin verði meiri á fyrri hluta áratugarins, og því þurfi uppbyggingu 3.500 íbúða árlega næstu árin. Þörfin verði mest á höfuðborgarsvæðinu en þar sé jafnframt mörg þúsund íbúða uppsöfnuð þörf.

Skortur á lóðum hefur haldið aftur af vexti í framboði nýrra íbúða. Þéttingarstefna núverandi meirihluta hefur einskorðast við þrönga borgarhluta þar sem innviðir hafa náð þolmörkum. Æskilegt er að þétta byggð, en hana má þétta í fleiri hverfum - af virðingu við íbúa og umhverfi þar sem innviðir þola aukinn mannfjölda. Í þessu samhengi hafa Sjálfstæðismenn lagt til lifandi byggð í Örfirisey, blandaða byggð að Keldum og aukna þéttingu í Úlfarsárdal, við dræmar undirtektir borgarstjóra. Takmarkaður vilji er til að leita lausna - afleiðingin er sú að fólk flytur til annarra sveitarfélaga þar sem framboð er meira og þjónusta betri.

Bera bankarnir ábyrgð?

Í umfjöllun um húsnæðisskort hefur borgarstjóri ítrekað varpað ábyrgðinni á bankana. Sagt framboðsskort á fasteignamarkaði að miklu leyti tilkominn vegna takmarkaðs útlánavilja bankanna. Hagfræðingur Seðlabanka Íslands svarar því hins vegar til að flæði nýs lánsfjár frá bankakerfinu til byggingageirans hafi aukist á síðustu árum. Útistandandi lán til byggingageirans nú séu umtalsverð í sögulegu samhengi. Gagnrýni borgarstjóra sé því marklaus.

Samanburður fjárhagsáætlana

Á dögunum kynnti Reykjavíkurborg fjárhagsáætlun til ársins 2025. Áætlunin er engin yndislestur enda áform um skuldahækkanir, auknar mannaráðningar og vaxandi rekstrarkostnað. Í áætluninni kemur fram hvernig heildarskuldir borgarinnar hafa hækkað á kjörtímabilinu úr 299 milljörðum í rúma 400 milljarða króna. Þá er ráðgert að skuldir hækki enn frekar um 53 milljarða til ársins 2025. Skuldaaukningin raungerist þrátt fyrir 7,5% tekjuaukningu árið 2021. Útgjöld vaxa samhliða en launakostnaður hækkar um 15% á tveimur árum og rekstrarkostnaður er hlutfallslega hærri en hjá öllum nágrannasveitarfélögum. Einstök tækifæri stærðarhagkvæmninnar eru vannýtt.

Nýverið kynnti Kópavogsbær fjárhagsáætlun næstu ára. Hún byggir á sérstakri áherslu á grunnþjónustu sveitarfélagsins. Stefnt er að úthlutun fjölbýlishúsalóða og verður verðmæti lóðasölunnar varið til lækkunar vaxtaberandi skulda. Skattar verða lækkaðir líkt og undanfarin ár, bæði fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði og fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði. Jafnframt lækka vatnsskattar og holræsagjöld. Útsvar er áfram samkeppnishæft á höfuðborgarsvæðinu, enda ekki í lögleyfðu hámarki líkt og í höfuðborginni. Samanburður fjárhagsáætlana sýnir glöggt áherslumun milli þeirra flokka sem stýra sveitarfélögunum. Þar sem Sjálfstæðisflokkur fer með áhrif er áhersla lögð á trygga grunnþjónustu, niðurgreiðslu skulda og skynsamlegar skattalækkanir. Þar mælist þjónusta jafnframt öflugri og lífsgæði betri.

Að aðhafast ekkert

Samhliða hækkandi fasteignaverði hækkar fasteignamat íbúðar- og atvinnuhúsnæðis í landinu. Í kjölfarið hækka álögur á fasteignaeigendur í formi skatta og gjalda. Skattprósenta fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði er ríflega þrefalt hærri að meðaltali en á íbúðarhúsnæði. Því má segja að töluvert svigrúm sé til viðbragða svo létta megi undir með fólki og fyrirtækjum og styðja við atvinnusköpun í landinu.

Tekjur Reykjavíkurborgar af álögðum fasteignaskatti hafa aukist talsvert undanfarin ár að raunvirði. Árið 2020 námu tekjur borgarinnar af fasteignasköttum rúmum 22 milljörðum króna. Það er fimm milljarða aukning á fjórum árum, en 72% aukningarinnar má rekja til skatta á atvinnuhúsnæði. Í greiningu Samtaka atvinnulífsins segir að „tekjur borgarinnar af atvinnuhúsnæði hafi aukist um 39% frá 2016 á föstu verðlagi, og miðað við fyrirliggjandi fasteignamat megi áætla að aukningin muni nema alls 42% árið 2022. Að sama skapi hafi rauntekjur af íbúðahúsnæði aukist um 27% frá 2016 og muni nema alls 35% árið 2022."

Af framanrituðu má ljóst vera að töluvert svigrúm hefur skapast til lækkunar fasteignaskatta í landinu, ekki síst í höfuðborginni. Kópavogsbær hefur í fjárhagsáætlun ákveðið að bregðast við nýbirtu fasteignamati með lækkun fasteignaskatta. Reykjavíkurborg hefur í fjárhagsáætlun ákveðið að aðhafast ekkert.

Skipulag atvinnusvæða í borginni

Brottflutningur fyrirtækja og stofnana úr Reykjavík hefur verið verulegt áhyggjuefni. Fljótlega verða aðeins fjögur af tíu stærstu fyrirtækjum landsins með höfuðstöðvar í borginni. Tækniskólinn, Icelandair og Malbikunarstöðin Höfði fyrirhuga öll flutninga úr borginni til Hafnarfjarðar. Reykjavíkurborg tapar í samkeppni um atvinnutækifæri á höfuðborgarsvæðinu.

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda hefur sagt háan fasteignaskatt borgarinnar spila stóra rullu í ákvörðun fyrirtækja um brottflutning. Þá hefur skortur á hagkvæmum atvinnulóðum ekki síður áhrif. Ef skipulögð yrðu svæði til uppbyggingar stærri vinnustaða austarlega í borginni mætti jafna umferðarstrauma og tryggja austurborginni fleiri atvinnutækifæri í heimabyggð. Þannig mætti skapa fleiri sjálfbær hverfi innan borgarmarkanna, þar sem íbúum gefst kostur á að sækja atvinnu, verslun og þjónustu í stuttu göngufæri frá heimili.

Ætli Reykjavíkurborg að vera meðal lífvænlegustu borga heims þarf að tryggja lifandi samkeppni um fólk og fyrirtæki - fjölbreytt atvinnutækifæri og gott húsnæðisframboð. Höfuðborgin sefur á verðinum og hefur orðið eftir í samkeppni við erlendar borgir og innlend sveitarfélög. Við þurfum markvissa stefnu um uppbyggingu atvinnutækifæra og víðsýna nálgun á húsnæðisuppbyggingu. Borgin þarf að gera betur í samkeppni um tækifærin.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.