*

laugardagur, 6. júní 2020
Haukur Þór Hauksson
30. október 2019 13:33

Samkeppni

„Eftir nokkra mánuði og milljónakostnað mun Samkeppniseftirlitið trúlega komast að því að Pítan og Hamborgarafabrikkan eru ekki að fara að ná neinni yfirburðastöðu á markaði.“

Haraldur Guðjónsson

Stjórnvöld hafa kynnt drög að breytingum á samkeppnislögum sem að mínu mati eru í rétta átt. Að vísu eru enn mjög lág viðmiðunarmörk hvað varðar veltu samrunaaðila sem gerir það að verkum að fjöldi samruna koma á borð Samkeppniseftirlitsins, þar sem sameiginleg velta eftir samruna nær ekki einu sinni 1% markaðshlutdeild. 

Á liðnum árum hef ég unnið að mörgum samrunamálum í yfirtökum og sameiningum  lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem hafa krafist umfjöllunar Samkeppniseftirlitsins. Ég tek sem dæmi veitingaaðila með veltu um  600 milljónir króna á ári sem hyggst kaupa samkeppnisaðila sem veltir um 200 milljónum króna á ári. Samkvæmt núgildandi samkeppnislögum er slíkur samruni  tilkynningaskyldur og má hann ekki fara fram fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur veitt sitt leyfi fyrir samrunanum. Ferlið getur tekið nokkrar vikur, jafnvel mánuði, og töluverðan útlagðan kostnað auk kostnaðar vegna tafa og áhættu á tímabilinu. Í þessu dæmi mun markaðshlutdeild þessa aðila eftir samruna vera vel innan við 1% af veitingamarkaðinum. Er líklegt að þessi aðili sé ná undirtökum á sínum markaði? Nei.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Samkeppniseftirlitið hefur nú til skoðunar samruna tveggja nokkuð stórra aðila á veitingamarkaði, sem vilja hagræða í yfirstjórn, ná meiri slagkrafti í innkaupum o.þ.h. Eftir nokkra mánuði og milljónakostnað mun Samkeppniseftirlitið trúlega komast að því að Pítan og Hamborgarafabrikkan eru ekki að fara að ná neinni yfirburðastöðu á markaði enda myndi sameinaður aðili í besta falli ná um 5% markaðshlutdeild. 

Fyrir nokkru annaðist ég sölu á innflutningsfyrirtæki sem velti um 1 milljarði króna, á sviði vélbúnaðar, gíra og lega fyrir iðnað og útgerð. Þetta fyrirtæki hafði enga möguleika á að koma sér upp yfirburðastöðu, viðskiptavinir voru öflug fyrirtæki sem gátu kosið að kaupa búnaðinn erlendis, en völdu að kaupa af þessum aðila, væntanlega vegna góðrar vöru, góðrar þjónustu og hagstæðra verða. Samkeppniseftirlitið tók sér 9 mánuði til að fjalla um málið, með ærnum kostnaði fyrir viðkomandi fyrirtæki og áhættu á tafatímabili .

Í öllum þeim fjölda yfirtaka og samruna sem ég hef komið að hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum get ég ekki séð að eitt einasta mál hafi verið þannig vaxið að hætta væri á fákeppni og að hlutur neytandans yrði fyrir borð borinn. Né heldur að aðilar hafi haft í hyggju að ná yfirburðum á viðkomandi markaði í hagnaðarskyni. Tilgangurinn hefur fyrst og fremst verið að sameina fyrirtæki til að ná hagræði, til að lifa af og þjóna viðskiptavinum sínum betur í harðri samkeppni. 

Í þættinum Kveik 22. október s.l. fjallaði Kveikur um frábæran veitingamann Svein Kjartansson sem var að loka veitingahúsinu sínu af því að rekstrargrundvöllurinn var horfinn. Í lok þáttar hjólaði Sveinn upp í Seðlabanka, hafði fengið vinnu þar við að kokka ofan í Seðlabankafólk. Það verður ekki svikið af matnum hans Sveins. En mun starfsfólk Seðlabankans greiða markaðsverð fyrir veitingarnar þar? Trúlega ekki. Þúsundir opinberra starfsmanna í miðbæ Reykjavíkur og víðar borða niðurgreiddar veitingar í hádeginu hjá hinum ýmsu stofnunum. Er það sanngjarnt gagnvart veitingamönnum á frjálsum markaði? 

Samkeppniseftirlitið ætti kannski að kanna þetta? 

Ríkisútvarpið hefur tekist í krafti skatttekna og auglýsingatekna að nánast rústa fjölmiðlamarkaðinum á undanförnum árum. Nú hef ég ekki hugmynd um hvort RÚV heyri undir Samkeppniseftirlit, en er þetta sanngjarnt?

Hér áður fyrr náðu stórir aðilar hérlendis undirtökum á ákveðnum mörkuðum t.d. olíufélög, stórir matvöruheildsalar og stórar matvörukeðjur. Það hefur allt breyst, Costco gjörbreytti eldsneytismarkaðnum. Stórum matvöruheildsölum stendur ógn af Costco og samhliða innflutningi stóru verslunarnarkeðjanna. Stóru verslunarkeðjurnar eru á tánum vegna Costco, vegna netverslunar og breyttrar hegðunar viðskiptavina. Allar þær gríðarlegu breytingar á neytendamarkaði sem eru að gerast núna og eru að mestu til mikilla hagsbóta fyrir neytendur koma til af ytri og innri kröftum sem takast á í atvinnulífinu og harðri samkeppni, en ekki fyrir tilstilli úrskurða Samkeppniseftirlitsins.

Höfundur er framkvæmdastjóri Investis ehf.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.