Hrafnarnir hafa lesið umsögn Samkeppniseftirlitsins um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar með miklum áhuga. Í umsögninni kvarta Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins og Sveinn Agnarsson stjórnarformaður undan þröngum fjárhag stofnunarinnar.

Samkeppniseftirlitið hefur verið að fá um hálfan milljarð úr ríkissjóði á ári hverju undanfarið. Fram kemur í umsögninni að vöxtur atvinnulífsins kalli á frekari fjárframlög enda helst hann ekkert endilega í hendur við tíðni samruna og annarra þátta sem reyna á starf Samkeppniseftirlitsins.

Majónesið sett í forgang meðan annað situr á hakanum

Þá kvarta þeir Páll og Sveinn yfir því að stofnuninni sé svo þröngt sniðinn stakkur að hún þurfi að forgangsraða úrlausnarmálum. Hröfnunum þykir þessi fullyrðing áhugaverð komandi frá stofnun sem varði augljóslega miklum tíma og kostnaði til þess að taka út majónesmarkaðinn á Íslandi í tengslum við kaup á Gunnars majónes sem rambaði á barmi gjaldþrots og birti um hann skýrslu sem hleypur á hundruðum blaðsíðna. Varla hafa verkefnin sem sátu á hakanum með að majónesrannsóknin fór fram verið áríðandi.

Í umsögninni er einnig komið inn á helstu áherslur Samkeppniseftirlitsins á næstu árum. Þar kemur fram að eftirlitið ætlar að beita sér fyrir aukinni sjálfbærni og að draga úr hlýnun jarðar. Það kemur hröfnunum á óvart að loftlagsstjórnun og sjálfbærni sé meðal helstu úrlausnarefna Samkeppniseftirlitsins á Íslandi og hvort að það réttlæti aukinn kostnað skattborgaranna vegna starfsemi stofnunarinnar.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.