*

laugardagur, 19. september 2020
Óðinn
17. júlí 2018 18:01

Samkeppniseftirlitið, RÚV og íslenskan

Óðinn veltir fyrir sér hvort starfsmenn Samkeppniseftirlitsins geti ekki viðurkennt að þeir hafi einfaldlega haft rangt fyrir sér.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri samkeppniseftirlitsins.
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið hefur undanfarið komið Óðni á óvart í tveimur málum. Í fyrra málinu sendi stofnunin bréf til samkeppnisaðila Haga og greindi frá niðurstöðum í „ítarlegri rannsókn á þróun markaðshlutdeildar og viðhorfum neytenda“ á matvörumarkaði.

                                                                ***

Í bréfinu segir að rannsóknin hafi leitt til þess frummats Samkeppniseftirlitsins að ekki væri unnt að fallast á það með Högum að innkoma Costco hefði í grundvallaratriðum breytt stöðu Haga á dagvörumarkaðnum.

                                                                ***

Í könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið kemur fram að 67% Íslendinga eiga eða hafa átt meðlimakort í Costco og 85% ætli sér að endurnýja kortin. Ísland lagðist á hliðina þegar Costco var opnað og fjölmiðlar voru með fréttir dag eftir dag um ótrúlega lágt verðlag og langar biðraðir í verslunina.

                                                                ***

Ótrúleg niðurstaða

Því er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins merkileg. Í raun alveg ótrúleg. Enn ótrúlegra er að stofnunin skuli ekki birta niðurstöðu þessarar „ítarlegu rannsóknar“.

                                                                ***

Óðinn telur ekki nokkurn vafa á því að Costco sé markaðsráðandi þegar litið er til efnahagslegs styrks. Costco er næststærsti smásali í heimi. Veltan nam 13.800 milljörðum króna árið 2017/2018 og hagnaðurinn nam 287 milljörðum króna. Hagar, sem eru markaðsráðandi, veltu hins vegar 73,8 milljörðum króna og hagnaðurinn var 2,3 milljarðar króna. Costco getur valtað yfir alla íslenska verslun á stuttum tíma.

                                                                ***

Afkoma Haga versnaði verulega í kjölfar innkomu Costco á markaðinn. Veltan minnkaði um tæpa 7 milljarða króna og hagnaðurinn lækkaði um 1,7 milljarða. Þetta er sterk vísbending um að Costco hafi haft veruleg áhrif á Haga og þá yfirburðastöðu sem Samkeppnis-eftirlitið taldi og telur félagið vera í, þrátt fyrir Costco.

                                                                ***

Efnahagslegur styrkleiki

Í 4. gr. samkeppnislaganna kemur fram að „þegar fyrirtæki hefur þann efnahagslega styrkleika að geta hindrað virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að taka tillit til keppinauta, viðskiptavina og neytenda“. Þá er horft til markaðshlutdeildar á viðkomandi markaði og efnahagslegs styrks á þeim markaði.

                                                                ***

Í ljósi þessa væri enn áhugaverðara að skoða niðurstöðu þeirrar „ítarlegu rannsóknar“ sem Samkeppniseftirlitið hefur framkvæmt.

                                                                ***

Samkeppniseftirlitið ógilti samruna Haga og Lyfju síðasta sumar, stuttu eftir að Costco var opnað. Það var niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að með kaupum sínum á Lyfju hefðu Hagar styrkt markaðsráðandi stöðu sína á dagvörumarkaði og skaðleg samþjöppun hefði orðið á þeim mörkuðum sem Hagar og Lyfja starfa bæði á, ekki síst á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði. Samruninn hefði leitt til þess að á þeim markaði hefði horfið samkeppni sem nú er á milli Haga og Lyfju.

                                                                ***

Hafði eftirlitið rangt fyrir sér?

Samkeppniseftirlitið vék að Costco í niðurstöðu sinni með eftirfarandi hætti: „Skammt er síðan Costco hóf starfsemi hér á landi. Í málinu var, eins og unnt var, rannsakað hvaða áhrif starfsemi Costco hefði á þá markaði sem málið varðaði. Aflað var tölulegra upplýsinga og sjónarmiða frá Costco og öðrum smásölum og birgjum á viðkomandi mörkuðum, niðurstöður ýmissa greiningaraðila skoðaðar, aflað upplýsinga um reynslu af opnun Costco annars staðar og aflað gagna um reynslu annarra erlendra smásölufyrirtækja sem hafa hafið starfsemi hér á landi. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna var síðan stillt upp mismunandi sviðsmyndum um möguleg áhrif Costco til lengri tíma litið. Það er niðurstaða þessarar rannsóknar að opnun og tilvist Costco á íslenskum markaði hafi takmörkuð áhrif á þá markaði sem Hagar og Lyfja starfa bæði á, þ.e. einkum á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði.”

                                                                ***

Óðinn veltir fyrir sér hvort starfsmenn Samkeppniseftirlitsins geti einfaldlega ekki viðurkennt að þarna, stuttu eftir opnun Costco, hafi þeir einfaldlega haft rangt fyrir sér. Þess þá heldur er mikilvægt að stofnunin birti niðurstöðu þessarar „ítarlegu rannsóknar“.

                                                                ***

Ríkisútvarpið og samkeppnin

Samkeppniseftirlitið sendi tilkynningu til fjölmiðla á dögunum þess efnis að stofnunin teldi ekki að nægjanlegar vísbendingar um að Ríkisútvarpið hefði brotið samkeppnilög til þess að stofnunin hefji formlega rannsókn. Stofnunin gefur hins vegar aðilum á auglýsingamarkaði tækifæri til þess að koma á framfæri fleiri athugasemdum áður en endanleg ákvörðun er tekin um hvort skuli hefja formlega rannsókn.

                                                                ***

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er sú að „enginn áskilnaður“ hafi verið gerður um lágmarkskaup í tengslum við kaup á auglýsingum í kringum HM. Í kostunar- og auglýsingasamningspakka sem RÚV sendi á fyrirtæki fyrir HM kemur hins vegar fram að svonefndir Premium auglýsendur kaupi „að lágmarki“ birtingar fyrir 10 milljónir króna í júní og júlí. Blaðamaður Morgunblaðsins spurði Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, um þetta og sagði hann að allir hefðu haft jöfn tækifæri til að kaupa auglýsingar í kringum HM, engir sérstakir afslættir hefðu verið í boði og engin skuldbinding um lágmarkskaup hefði verið skilyrði fyrir kaupum á auglýsingum í kringum mótið. Hins vegar hafi verið boðið upp á Premium-pakka til fyrirtækja sem hygðust framleiða sérstakar HM-auglýsingar og vildu tryggja að auglýsingar þeirra kæmust að í hálfleikjum Íslands á mótinu.

                                                                ***

Fyrsta flokk auglýsingapakki

Í einni af þeim glærum sem kynnt var auglýsendum er þessi Premium auglýsingapakki kynntur (það er ánægjulegt að sjá hina ríkisreknu menningarstofnun hvika hvergi frá málfarsstefnu sinni). Þar segir að þeir sem greiða að lágmarki 10 m.kr. í júní og júlí fái tryggðar bestu staðsetningar í auglýsingatímum HM. Einnig fái þeir forkaupsrétt að birtingu ef Ísland kemst áfram í riðlakeppni. Þessu til viðbótar segir Magnús Geir að þessum aðilum væri tryggt auglýsingapláss í hálfleik í leikjum Íslands.

                                                                ***

Lágmarkskaup eru lágmarkskaup

Þetta heitir á íslensku áskilnaður um lágmarkskaup. Stórfyrirtæki hafa val um tvennt, að framleiða dýrar auglýsingar og birta þær á bestu tímunum eða sleppa því. Að auki virðast auglýsendur hafa með þessu verið þvingaðir til að kaupa auglýsingar í kringum viðburði sem enginn hefur áhuga á til að ná yfir 10 m.kr. lágmarkið.

                                                                ***

Óðinn hefur um langt skeið haft verulegar áhyggjur af hrakandi málþroska, læsi og lesskilningi. En þegar forsvarsmenn bæði hinnar svokölluðu menningarstofnunar Ríkisútvarpsins og samkeppnisstofnunar ríkisins eru ekki með lágmarksskilning á íslenskri tungu er ástæða til að staldra við. Er íslenskan ekki bara dauð? Það eina jákvæða við það væri að þá væru engin rök fyrir ríkisútvarpi.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.