*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Óðinn
3. nóvember 2021 07:14

Samkeppnismisskilnings- stofnun ríkisins og Fjölmiðlaeftirlitsstofnun

„Vert er að benda þeim sem stýra samkeppnisstofnuninni á að það er grundvallarregla, lögfest í stjórnarskrá landsins, um tjáningarfrelsi borgaranna.“

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Haraldur Guðjónsson

Íslenska samkeppnisstofnunin, sem kallast Samkeppniseftirlitið, sendi frá sér fréttatilkynningu í síðustu viku. Þar sagði:

Ákvæði samkeppnislaga setja hagsmunasamtökum skorður í hagsmunagæslu sinni og verða samtök fyrirtækja því að fara afar gætilega þegar kemur að umræðu og fræðslu sem getur haft áhrif á markaðshegðun félagsmanna. Öll þátttaka í umræðu um verð og verðlagningu er sérstaklega varhugaverð og ætti ekki að eiga sér stað á vettvangi hagsmunasamtaka.

Nú hafa eflaust einhverjir farið í lagasafnið og flett samkeppnislögunum en ekki fundið þessari fullyrðingu stoð.

Því var gagnlegt þegar forstjóri samkeppnisstofnunarinnar óð fram á ritvöllinn og útskýrði hvar þessa reglu væri að finna, um að umræða um verð og verðlagningu eigi ekki að eiga sér stað á vettvangi hagsmunasamtaka.

* * *

Byggt á sandi

Í grein sinni sagði forstjórinn að þessa reglu væri að finna í 12. gr. samkeppnislaganna. Sú grein hljóðar svo:

Samtökum fyrirtækja er óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögum þessum eða brjóta í bága við ákvarðanir skv. 16.-18. gr.

Stoðin fyrir fullyrðingum samkeppnisstofnunarinnar er ekki til staðar. Það er ekki með nokkrum einasta hætti hægt að túlka 12. gr. samkeppnislaga með þeim hætti sem samkeppnisstofnunin heldur fram að eigi að gera.

Það er nefnilega þannig í íslenskum rétti að við lögskýringu skal fyrst beita svokallaðri textaskýringu. Sú aðferð krefst þess að athuga merkingu einstakra orða, hugtaka og orðatiltækja á málfræðilega og setningafræðilega vísu. Með öðrum orðum þá er grundvallaratriði lögskýringar í íslenskum rétti að kunna íslensku.

* * *

En forstjórinn er ekki af baki dottinn úti á ritvellinum og í greininni á Vísi segir hann:

Fjallað hefur verið um beitingu þessa ákvæðis í ýmsum úrlausnum eftirlitsins. Þannig hafa samkeppnisyfirvöld hér á landi tekið ákvarðanir í á öðrum tug mála þar sem samtök fyrirtækja hafa verið talin ganga gegn 12. gr. samkeppnislaga með umfjöllun um verð eða öðrum samkeppnishindrunum.

Þessu til viðbótar hefur eftirlitið, að sögn forstjórans, skrifað skýrslu. Í þessari skýrslu segir forstjórinn að eftirlitið hafi sett fram ítarlegar leiðbeiningar til samtaka fyrirtækja um túlkun á áðurnefndri 12. gr. samkeppnislaga.

* * *

Umræða um efnahagsmál

Umrædd ummæli forsvarsmanna hagsmunasamtakanna voru almenns eðlis og sneru að hækkandi verði á hrávörum, sem allir þeir sem fylgjast með fjölmiðlum, jafnvel bara annað veifið, hafa orðið varir við. Sú umræða snertir ekki aðeins fyrirtæki á Íslandi, heldur alla landsmenn og er grundvallaratriði í allri umræðu um efnahagsmál.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í samtali við Ríkisútvarpið að „mjög líklegt að [vöru]skorturinn til skamms tíma muni valda verðhækkunum alla vega á einhverjum vöruflokkum".

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu lýsti yfir áhyggjum af því að „það verði áfram þrýstingur á verðlag vegna innfluttrar verðbólgu" í grein í Viðskiptablaðinu undir fyrirsögninni „Frekari hækkanir í vændum". Einnig sagði hann í samtali við Morgunblaðið að „greinilegt" sé að „þær hækkanir sem orsakast af þessum miklu hrávöruhækkunum, [...] eru ekki að fullu komnar fram [á Íslandi]".

Haft var eftir formanni Bændasamtaka Íslands að verðhækkanir á tilbúnum áburði myndu á endanum leiða til hækkunar á afurðaverði og nefndi sem dæmi framleiðslu á grænmeti og mjólkurafurðum.

* * *

Starfsdagar og aðrir dagar

Þessi sjónarmið sem stofnunin og forstjórinn setja fram, og farið er yfir hér að framan, eru fráleit.

Það er ekki hægt með nokkru móti hægt að skilja orð forsvarsmanna hagsmunasamtakanna á þann veg að þeir séu með þeim að reyna hafa áhrif á verð og verðmyndun vara á Íslandi. Heldur miklu frekar að útskýra hvers vegna þurfi hugsanlega að koma til verðhækkana vegna hækkana á aðkeyptum vörum erlendis frá. Það vill svo til að innfluttar hrávöruverðshækkanir raska ekki á nokkurn hátt samkeppni á Íslandi.

Það er því hvorki hægt að skilja 12. gr. samkeppnislaga á þann veg sem forstjórinn vill gera né heldur er með nokkru móti hægt að fella háttsemi forsvarsmanna hagsmunasamtakanna undir þá háttsemi. Það er að auki óskaplega aumt af forstjóranum að vísa til einhverrar lagatúlkunar í skýrslu sem samkeppnisstofnunin gerði sjálf - endur fyrir löngu -  eins og það sé réttarheimild sem hægt sé að byggja á.

* * *

Vert er að benda þeim sem stýra samkeppnisstofnuninni á að það er grundvallarregla, lögfest í stjórnarskrá landsins, um tjáningarfrelsi borgaranna. Einhver misskilningur opinberra starfsmanna víkur blessunarlega ekki slíkum grundvallarreglum til hliðar.

Óðinn vill benda forstjóra samkeppnisstofnunarinnar á að hugsanlega væri vel til fundið að næst þegar það er starfsdagur hjá stofnuninni, en slíkir dagar eru víst haldnir víðar en á leikskólum nú til dags, að í stað þess að kaupa veitingar og áfengi og skemmtun á kostnað skattgreiðenda, að nota aurinn heldur til að fá kennslu í lögfræði.

* * *

Fjölmiðlaeftirlitsstofnunin

Fyrir tíu árum var sett á fót stjórnsýslunefnd sem á, að eigin sögn, að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga.

Þegar apparatið, því þetta er ekki stofnun heldur nefnd, var stofnað þá voru tveir starfsmenn, framkvæmdastjóri og lögfræðingur. Óðinn var sannfærður þá þegar að starfsmannafjöldinn myndi fljótt aukast því verkefnin eru jú mikilvæg og málaflokkurinn víðfemur. Rétt eins og hjá öllum ríkisstofnunum um allan heim.

Rekstrarkostnaðurinn nam 26 milljónum króna árið 2011 og 37 milljónir króna árið 2012. Árið 2020 kostaði rekstur stofnunarinnar hins vegar 75 milljónir króna. Því skal haldið til haga, framkvæmdastjóranum til hróss, að það var 12 milljónum króna undir fjárheimildum ársins.

Skýringin á auknum útgjöldum er fleiri starfsmenn. Þeir eru í dag fimm talsins. Þeirra á meðal er Skúli Geirdal, nýr verkefnastjóri miðlalæsis hjá fjölmiðlanefnd.

* * *

Hljóðvarp fólksins

En víkjum að verkefnunum. Í síðustu viku sektaði nefndin hlaðvarp eitt hér í borg - reyndar Kópavogi - vegna þess að hlaðvarpið skyldi, að mati nefndarinnar, vera skráð sem fjölmiðill. Óðinn treystir því að hinn snjalli fjölmiðlarýnir blaðsins fari þar yfir málsatvik og misskilning nefndarinnar eilítið aftar í blaðinu og ósennilegt að við því sé nokkru að bæta.

En Óðinn spyr. Hverjum í ósköpunum datt í hug að ráða opinbera starfsmenn í það verkefni að fylgjast með fullorðnum mönnum tala saman um fótbolta í gegnum internetið? Það verður reyndar að segjast að Dr. Football er skemmtun fyrir alla, jafnvel þá sem engan áhuga hafa á knattspyrnu. Að því leytinu má segja að Dr. Football sé almannaútvarp, ólíkt Ríkisútvarpi vinstrimanna, sem fær tæpa fimm milljarða frá skattgreiðendum á ári.

* * *

En þetta mál sýnir á hversu miklum villigötum við erum með rekstur fjölmiðlanefndar. Í öllum siðuðum löndum, líkt og Bretlandi, þá er verkefni slíkra apparata að hafa eftirlit með fjölmiðlinum sem er kostaður af skattgreiðendum. Ekki hlaðvörpum um knattspyrnu.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.