Eins og hrafnarnir hafa áður bent á er Samkeppniseftirlitinu – svari íslenskrar stjórnsýslu við Páfagarði – ekkert mannlegt óviðkomandi og vegir eftirlitsins með öllu órannsakanlegir. Á dögunum tilkynnti Páll Gunnar Pálsson og hans fólk í eftirlitinu norsku laxeldisfyrirtækjunum SalMar og NTS, sem og Arnarlaxi og Arctic Fish sem eru með laxeldi á Vestfjörðum, að samruni þeirra væri nú til skoðunar í Borgartúninu. Skoðunin fer fram þrátt fyrir að norska samkeppniseftirlitið hafi nú þegar lýst því yfir að það geri ekki athugasemdir við samrunann.

Í vikunni var svo upplýst í frétt á vefsíðu eftirlitsins að það hefði beitt sér „ásamt systureftirlitum sínum í Evrópu“ fyrir því að kaup Illumina á bandaríska sprotafyrirtækinu Grail sem hefur þróað nýja tækni við skimun krabbameins yrðu ógild. Það gekk eftir og að vonum fagnar Páll þeirri ákvörðun og segir í frétt á heimasíðu SKE að ákvörðunin hafi „skapað aðstæður fyrir hraða framþróun á sviði krabbameinsskimana“.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 22. september 2022.