Íslenska ríkið hefur í rúm 20 ár endurgreitt hluta af rekstrarkostnaði sjávarútvegsfyrirtækja. Tilgangurinn er annars vegar efling íslenskrar framleiðslu og hins vegar landkynning. Í fyrra varð sprenging í útgreiddum styrkjum. Þeir námu alls 2,4 milljörðum króna, sem var tvöföldun frá fyrra ári. Þetta er langhæsta fjárhæð sem greidd hefur verið út á einu ári. Fyrra met var sett árið 2014 með um 1,7 milljarða á föstu verðlagi. Metið var því bætt um 33% að raunvirði.

Hinn mikli vöxtur fór langt fram úr fjárheimildum ársins. Sjávarútvegsráðherra beitti sér fyrir því í fyrra að viðbótarheimildir upp á rúmlega 2 milljarða yrðu settar á fjáraukalög til að koma í veg fyrir að fresta þyrfti greiðslum á milli ára, með tilheyrandi tjóni fyrir orðspor ívilnanakerfisins. Það gekk eftir með stuðningi fjárlaganefndar Alþingis og þingsins.

Þetta er jákvæð þróun – og nú þegar er útlit fyrir að áframhald verði á henni. Í dag nema útgefin vilyrði fyrir endurgreiðslum til sjávarútvegsfyrirtækja, sem eftir á að greiða út, hvorki meira né minna en 3,5 milljörðum. Þar af eru níu vilyrði til stórútgerðar sem eru með öfluga framleiðslu; væntar endurgreiðslur til þeirra nema um 2,3 milljörðum. Sá kröftugi vöxtur sem birtist í þessum tölum er til marks um að íslenska ívilnanakerfið er samkeppnishæft í alþjóðlegum samanburði. Annars hefði vöxturinn aldrei orðið, því að ívilnanir ráða miklu um samkeppnishæfni sjávarútvegsins.

Í upphafi nam ívilnunin 12% af rekstrarkostnaði en hún hefur síðan verið hækkuð þrisvar og er nú 25%. Ein stærsta röksemdin fyrir ívilnanakerfinu er að við eigum í alþjóðlegri samkeppni við erlendan sjávarútveg, þar sem hagfelld ívilnanakerfi eru til staðar.

Setur einhvern hljóðan við þennan lestur um ríkisstyrktan sjávarútveg? Það er eðlilegt.

Ég get huggað lesendur með því, að þessi texti fær enga stoð í raunveruleika sjávarútvegs. Textinn er hins vegar samhljóða nýlegri færslu iðnaðarráðherra á Facebook, sem varðaði ríkisstyrki til kvikmyndaframleiðslu. Að mörgu er víst að huga í alþjóðlegri samkeppni, bæði í sjávarútvegi og kvikmyndaframleiðslu.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir er framkvæmdastjóri SFS.