Ríkisstjórnin hefur sett menntamál í forgang, þar sem hagsæld framtíðarinnar grundvallast á öflugri menntun. Um þessar mundir er mikil og góð umræða um menntamál á Íslandi. Samfélög sem drifin eru áfram af hugviti og nýsköpun verða leiðandi á komandi árum. Íslenskt samfélag á að vera í þeim hópi og því er brýnt að efla samkeppnishæfni okkar með framsækinni stefnumótun í menntamálum. Í harðnandi samkeppni um sérhæft starfsfólk, skipta búsetuskilyrði miklu um val fólks en þar er menntakerfið lykilbreyta.

Örar tækniframfarir krefjast þess að menntakerfið okkar geti tekist á við breytingar. Það felast mörg tækifæri  í tæknibyltingunni fyrir fámenna en vel menntaða þjóð ef rétt er haldið á málum. Við getum ekki spáð með mikilli nákvæmni um framtíðina en við getum hins vegar leitast við að undirbúa okkur sem best fyrir hana. Mat á færni- og menntunarþörf hér á landi hjálpar okkur til að mynda að kortleggja betur samspil atvinnulífs og menntakerfis og stuðla að því að þau vinni betur saman. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem stjórnvöld eru að vinna að. Ég fagna þeim mikla áhuga sem er á menntamálum á vettvangi atvinnulífsins. Á vegum fyrirtækja og félagasamtaka hafa að undanförnu verið stigin stór skref í að auka fræðslu, símenntun og fjölga tengingum milli ólíkra sviða samfélagsins. Til að mynda hafa Samtök iðnaðarins sett fram menntastefnu þar sem tiltekin eru metnaðarfull markmið og aðgerðir til að efla menntakerfið og snúa að fjölgun iðnmenntaðra á vinnumarkaði, stuðningi við nýsköpun og bættu starfsumhverfi kennara ásamt fleiri þáttum. Atvinnulífið á einnig hrós skilið fyrir aðkomu að ýmsum nýsköpunarverkefnum sem tengjast skólakerfinu eins og Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda, Fyrirtækjasmiðju framhaldsskólanema á vegum Ungra frumkvöðla og Verksmiðjunni sem var gagnsett nýverið en það er nýsköpunarkeppni ungs fólks á aldrinum 13-16 ára.

Allt ofan talið er í takt við stefnumótun stjórnvalda í því að efla íslenskt menntakerfi og gera það betur í stakk búið til þess að mæta áskorunum framtíðarinnar. Við höfum verið að auka fjárfestingar okkar í menntakerfinu verulega og hér á landi er mjög hátt hlutfall háskólamenntaðra í alþjóðlegum samanburði sem og mikil atvinnuþátttaka. Hlutfall háskólamenntaðra er einna hæst hér af Norðurlöndunum.

Okkur hefur miðað vel áfram það sem af er kjörtímabilinu við að takast á við krefjandi áskoranir í menntakerfinu. Þannig hefur hlutfall þeirra sem sækja um í verk-, iðn- og starfsnám hækkað, umsækjendum um kennaranám fjölgað, framfærslugrunnur námsmanna hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna verið hækkaður og fjármunum verið varið í að bæta aðstöðu í framhalds- og háskólum. Í mennta- og menningarmálaráðuneytinu er unnið af krafti að mótun menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030, þar sem markmiðið er að menntakerfi landsins verði framúrskarandi.

Í þeirri vinnu horfum við til þeirra ríkja sem standa fremst er varðar menntun. Það er brýnt að stefnumótun byggi ávallt á bestu þekkingu hverju sinni, þannig tryggjum við að menntakerfið sé og verði samkeppnishæft og þjóni sem best þörfum nemenda sinna og samfélagsins í heild. Gott samstarf, upplýstar ákvarðanir og þrek til að framkvæma og vinna sameiginlega að breytingum er leiðarljós okkar í þeirri mikilvægu vinnu.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.