Íslensk samkeppnislög byggja á regluverki frá ESB. Hið samræmda regluverk bannar samkeppnishamlandi háttsemi fyrirtækja og veitir samkeppnisyfirvöldum heimildir til íhlutunar í samruna ef líkur eru á að þeir raski samkeppni með umtalsverðum hætti. Í íslenskum samkeppnislögum má finna nokkrar viðbætur, sem ekki er að finna í hinni samræmdu evrópsku löggjöf. Sumar þessara viðbóta eru séríslenskar, en aðrar eiga sér skírskotun í heimasmíðuðum ákvæðum annarra ríkja í Evrópu.

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur nú lagt fram frumvarp til breytinga á samkeppnislögum, þar sem lagt er til að nokkrar þessara íslensku viðbóta verði aflagðar. Þá meginreglu er gott að hafa til hliðsjónar, að ef víkja á frá samræmdu regluverki ESB þá þurfa því til stuðnings að liggja veigamikil rök. Því miður var það svo stuttu eftir efnahagshrunið árið 2008 að aukið vald var fært hinum ýmsu stjórnvöldum á þeirri forsendu að einkaaðilum væri illa treystandi. Það má kannski hafa skilning á þeim tíðaranda og undir þeim formerkjum meðal annars fékk Samkeppniseftirlitið hér á landi auknar valdheimildir árið 2011. Reynslan frá þeim tíma hefur hins vegar sýnt að þær breytingar hafa síst stutt við markmið samkeppnislaga, því miður.

Í dæmaskyni má nefna markaðsrannsókn á íslenska eldsneytismarkaðnum, sem Samkeppniseftirlitið hóf árið 2013. Boðuð var viðamikil íhlutun og inngrip í eignarréttinn án þess að hlutaðeigandi fyrirtæki hefðu brotið gegn lögum. Nú eru liðin ríflega 6 ár og engin er niðurstaðan. Ekki er nokkur vafi á því að yfirvofandi íhlutun í eignarrétt til margra ára hefur beinlínis skaðað virka samkeppni, neytendum til tjóns. Betur var þá heima setið en af stað farið með hinni íslensku heimild frá árinu 2011 til markaðsrannsókna.

Verði frumvarpið að lögum getur Samkeppniseftirlitið betur einbeitt sér að sambærilegum verkefnum og samkeppniseftirlit annarra þjóða, hinum samræmda kjarna samkeppnisréttarins. Þar liggja hin brýnu úrlausnarefni og almannahagsmunir.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.