Í desember 2018 lauk stærsta milliverðlagningarmáli í sögu Skatteverket, ríkisskattstjórans í Svíþjóð, með endurákvörðun skatta sem námu 300 milljörðum íslenskra króna og sekt að fjárhæð 10 milljarðar króna. Málið varðaði framkvæmd milliverðlagningar innan samstæðu í kjölfar kaupa fyrirtækis frá Japan (hér eftir JapanCo) á hugverkaréttindum sænsks farsímaframleiðanda (hér eftir SwedenCo) í kjölfar yfirtöku á SwedenCo.

Forsagan

Kaup JapanCo á SwedenCo fóru fram á árinu 2012. Tveimur árum síðar fór fram endurskipulagning á rekstri JapanCo sem fól meðal annars í sér yfirfærslu á hugverkaréttindum frá Svíþjóð til Japan. SwedenCo, var áður félag sem átti hugverkaréttindi og bar rekstraráhættu en varð við breytinguna einfaldur þjónustuveitandi innan samstæðunnar með takmarkaða rekstraráhættu. Við yfirfærslu hugverkaréttindanna var fengið verðmat frá þriðja aðila í þeim tilgangi að hlíta reglum milliverðlagningar.

Skatteverket tók til rannsóknar skattskil SwedenCo vegna tekjuársins 2012. Í kjölfar rannsóknar var það mat Skatteverket að JapanCo hefði orðið raunverulegur eigandi að sænsku hugverkaréttindunum strax við kaup JapanCo á SwedenCo. Yfirgripsmikil rannsókn leiddi í ljós að strax í kjölfar kaupanna færðist ákvörðunarvald yfir hugverkaréttindunum til JapanCo. Taldi Skatteverket yfirfærslu hugverksins raunverulega hafa farið fram á árinu 2012 þrátt fyrir að formlega yfirfærslan hefði ekki átt sér stað fyrr en tveimur árum síðar. Skatteverket taldi því að verðmatið ætti fremur að byggjast á kaupverði sænsku samstæðunnar en hinu síðara verðmati á hugverkaréttindunum.

Milliverðlagning við samruna og yfirtökur

Mál sænska félagsins varpar ljósi á mikilvægi milliverðlagningar í tengslum við samruna og yfirtökur. Við framkvæmd áreiðanleikakönnunar á yfirteknu félagi eru fjárhagslegir áhættuþættir yfirleitt í brennidepli. Skattalegur hluti áreiðanleikakannana varðar iðulega tekjuskatt, virðisaukaskatt o.fl., en milliverðlagningu er oft gefinn lítill gaumur. Þegar milliverðlagning er skoðuð er oftast látið duga að staðfesta tilvist samninga og að skjölunarskyldan sé uppfyllt. Almennt er álitið að viðskipti innan samstæðu jafnist út á samstæðugrundvelli og hafi því ekki raunveruleg áhrif á fjárhag samstæðna.

Í núverandi laga- og rekstrarumhverfi getur kæruleysisleg nálgun varðandi milliverðlagningu leitt til þess að hár dulinn kostnaður falli á fyrirtæki í kjölfar samruna og yfirtaka. Endurákvarðanir skattyfirvalda á grunni milliverðlagningar, þá sérstaklega varðandi hugverkaréttindi, eru uppspretta mikilla skatttekna. Í stafrænu hagkerfi standa óáþreifanlegar eignir undir meirihluta markaðsverðmætis félaga, jafnvel í minni félögum. Endurákvarðanir vegna viðskipta með hugverkaréttindi geta leitt til umtalsverðra skattgreiðslna og fjársekta. Þessi áhætta eykst þegar tvö félög með mismunandi skipulag á sínum milliverðlagningarmálum, sameinast undir einn hatt.

Könnun á milliverðlagningu við samruna og yfirtökur

Með hliðsjón af ofangreindu er ráðlagt að horfa til eftirtalinna atriða við áreiðanleikakönnun á yfirteknu félagi til að forðast óvæntar uppákomur í kjölfar samruna og yfirtaka:

  • Aflið lista yfir öll viðskipti yfirtekna félagsins við tengd félög. Kannið hvort viðskiptin byggi á greiningu á milliverðlagningaraðferð og því verði sem beitt er og hvort til staðar séu skriflegir samningar. Greiningin ætti að vera yfirfarin til að tryggja að milliverðlagsstefnan sé viðeigandi fyrir viðskiptin.
  • Félög gætu hafa útbúið tilskildar greiningar og skjölun en framkvæmdin svo verið önnur. Yfirfarið útgefna reikninga og fjárhagsgögn og staðfestið að viðskiptin séu raunverulega í samræmi við gerða samninga og setta milliverðlagsstefnu.
  • Þegar stoðgögn eru ekki til staðar bendir það til þess að milliverðlagsreglum hafi ekki verið gefinn gaumur. Í þeim tilvikum er þörf á ítarlegri greiningu til að meta möguleg skattaleg áhrif.
  • Spyrjið hvort milliverðlagning félagsins sé til skoðunar eða sé vefengd af skattyfirvöldum í einhverju þeirra ríkja sem það starfar. Sé það raunin, skoðið þau atriði sem sæta gagnrýni og metið styrkleika verðlagningarinnar og skjölunar hennar og hvort félagið eigi varasjóði til að greiða viðbótar skatta, vexti og álag.
  • Ítarleg yfirferð á milliverðlagningu fyrirtækisins í tengslum við hugverkaréttindi er sérlega mikilvæg. Staðfestið lagalega og fjárhagslega eigendur hugverksins. Móðurfélag samstæðu getur verið lagalega skráður eigandi að hugverki en fjárhagslegur eigandi getur verið samstæðufélag með samning um nýtingu á hugverkinu á tilteknum markaðssvæðum. Samkvæmt nýjustu leiðbeiningum OECD er það ekki fullnægjandi að félag einungis fjármagni eða sé lagalega skráður eigandi hugverks til að eiga tilkall til meirihluta tekna af því hugverki. Við ákvörðun á því hvernig deila skuli tekjum af hugverkinu skal nú horft til þess hvernig eftirfarandi fimm hlutverk í tengslum við hugverkið skiptast: Þróun (e. Development), endurbætur (e. Enhancement), viðhald (e. Maintenance), verndun (e. Protection) og nýting (e. Exploitation). Saman á ensku þekkt undir skammstöfuninni DEMPE hlutverkin. Tryggið að öll viðskipti í tengslum við hugverk fari fram á armslengdarkjörum og séu – skjöluð.
  • Kannið hvort hugverkaréttindi yfirtekna félagsins verði strax samræmd við fyrirliggjandi skipulag hugverkaréttinda yfirtökufélagsins. Ef það er ætlunin þarf greiðsla að fara fram á armslengdarkjörum við yfirfærslu hugverkaréttindanna.

Áhrif á þitt félag

Milliverðlagning er orðin einn af helstu áhættuþáttum í tengslum við samruna og yfirtökur. Skattyfirvöld um allan heim hafa með endurákvörðunum skatta á grunni milliverðlagsreglna sótt af hörku skatttekjur sem þau telja sína sanngjörnu hlutdeild. Að hunsa eða fresta áreiðanleikakönnun á milliverðlagningu yfirtekins félags getur leitt til óvæntra útgjalda eftir viðskiptin vegna viðbótar skattgreiðslna með tilheyrandi fjárhagslegum afleiðingum.

Höfundar eru verkefnastjórar hjá KPMG.