Árleg mannauðsskýrsla Deloitte er komin út í tíunda sinn og byggir meðal annars á könnun meðal þúsunda stjórnenda út um allan heim. Í skýrslunni er fjallað um andstæðurnar sem fólk hefur horft á þegar kemur að starfsfólki og tækni, og hvernig við getum skapað mun meira virði með því að blanda þessum þáttum betur saman en þegar við horfum á þetta sem algjörar andstæður.

Í stað þess að skoða hvernig gera megi vinnuumhverfi sem snýst um tækni mannlegra má skoða hvernig nýta megi tæknina til að gera það vinnuumhverfi, sem tæknin sjálf skapar, mannlegra.

Tíu meginstraumar skýrslunnar

Í skýrslunni koma fram 10 hugmyndir eða stefnur (e. trend) sem ýmist eru byrjaðar að láta á sér kræla eða spáð er fyrir um. Níu þeirra falla undir þrjú meginatriði, Tilgang (e. Purpose), Getu (e. Potential) og Sjónarhorn (e. Perspective) en tíunda atriðið stendur sjálfstætt.

Tilgangur

1. Að tilheyra

  • Tæknin hefur skapað heim þar sem allt er einstaklingsmiðað en á sama tíma er þörf mannsins til að tilheyra stærri heild mögulega meiri en nokkru sinni. 79% svarenda í könnuninni sögðu að það væri mikilvægt eða mjög mikilvægt fyrir árangur fyrirtækja þeirra á næstu 12-18 mánuðum að hlúð væri að tilfinningu starfsfólks um að tilheyra á vinnustaðnum.

2. Velsæld

  • Velsæld (e. well-being) ýtir undir frammistöðu og árangur og ættu fyrirtæki að setja hana í forgang. Best er að hafa vellíðan í huga við allt skipulag, til að forðast að þurfa að fara eftir á í einstaklingsmiðuð inngrip ef út af ber.

3. Kynslóðin eftir kynslóðirnar

  • Að flokka starfsfólk í kynslóðir, gerir ekki mikið fyrir okkur því vinnuafl í dag er fjölbreyttara en nokkru sinni fyrr. Framsýn fyrirtæki nota nú tæknina til að greina og fá betri innsýn í þarfir og væntingar starfsfólks. Með þessu innsæi hafa stjórnendur tækifæri til að hanna og útfæra mönnunaráætlanir og prógrömm sem eru betur miðuð að eiginleikum einstakra starfsmanna. Geta

4. Ofurteymi

  • Hingað til hefur meira heyrst af umræðunni um hvernig gervigreind og róbótar eða vitvélar munu leysa hópa starfsfólks af hólmi. Nú nálgast hins vegar mörg fyrirtæki þessa umræðu á annan hátt og skoða hvernig megi blanda gervigreind og vitvélum inn í teymi starfsfólks til að ná enn meiri árangri og umbreytingu.

5. Þekkingarstjórnun

  • Þekking hefur verið, og verður áfram, lykilatriði við að skapa samkeppnisforskot. Hins vegar er hátækni, ný vinnubrögð og breytingar á samsetningu vinnuafls að gera fyrri hugmyndir um þekkingarstjórnun úreltar.
  • Tæknin ýtir undir það að starfsfólk læri stöðugt nýja hluti og endurnýi sig, sem er besta leið þess til öryggis á tímum breytinga. Fyrirtæki verða líka að hjálpa starfsfólki að skilja að það að deila þekkingu sinni gerir það mikilvægara, ekki minna mikilvægt.

6. Endurmenntun

  • Meirihluti þátttakenda í könnun skýrslunnar segir að a.m.k. helmingur starfsfólks muni þurfa að auka getu sína og bæta við sig nýrri færni á næstu þremur árum.
  • Hraði breytinga er það mikill að hefðbundin endurmenntun er ófullnægjandi. Þróun starfsmanna þarf að taka bæði tillit til eðlis starfa, en ekki síður getu til að vera stöðugt að endurnýja sig með seiglu og aðlögunarhæfni að leiðarljósi.

Sjónarhorn

7. Launaráðgátan

  • Breytingar á eðli vinnu kalla á breytingar í launastefnum og launauppbyggingu.
  • Laun geta verið öflugt verkfæri til að stýra einhverjum þeim stærstu breytingum sem eru að verða í vinnuumhverfi dagsins í dag.

8. Stjórnun

  • Þörf er á nýjum aðferðum í stjórnun og nýjum mælikvörðum til að ná góðri innsýn í það hvernig nýir straumar eru að hafa áhrif á starfsmannahópinn. Stjórnendur þurfa einnig að hafa þá sýn sem þeir þurfa til að sjá fyrir og bregðast við þeim áskorunum sem fylgja hröðum breytingum sem eru að verða í vinnuumhverfi nútímans.

9. Framtíð vinnu og siðfræðin

  • Um leið og framtíð vinnu þróast og breytist hratt, og fyrirtæki eru farin að blanda saman fólki, tækni og nýjum tegundum vinnuafls (gervigreind, vitvélum o.fl.) standa stjórnendur frammi fyrir sívaxandi fjölda siðferðislegra spurninga í tengslum við þessar breytingar.
  • Spurningin sem þarf að spyrja núna er ekki bara „getum við“ heldur líka „hvernig ættum við“?

Mannauðsstjórnun

10. Skilaboð til mannauðsstjórnenda

  • Síðasti áratugur var tími fjármálastjóranna, en nú er tími mannauðsstjóranna og þurfa þeir að nýta tækifærið vel.

Þeir þurfa að breikka sitt sjónarhorn og stækka áhrifasvið sitt. Þannig að sjónarhornið nái utan um öll störf og að áhrifasviðið nái út fyrir starfssviðið og vinnustaðinn, til alls umhverfis vinnustaðarins. Nauðsynlegt er að horfa á breytingarnar sem grundvallarbreytingu en ekki bara umbreytingu eða endurhönnun. Spáð er að fastmótuð og verkmiðuð störf eins og við þekkjum þau í dag séu á undanhaldi.

Breytt skipulag vinnustaða er líka að auka hraða þessara breytinga. Það er að færast frá mjög skýrum valdalínum yfir í net teyma. Það er að hverfa frá stífum starfslýsingum og fyrirmælum yfir í aukið svigrúm til að leysa störfin; frá þröngri færni til víðtækrar getu.

Samhliða tæknibreytingum í ytra og innra umhverfi vinnustaða er aukin krafa um að það mannlega fái að njóta sín. Horfa þarf á starfsfólk sem einstaklinga með einstaka og ólíka reynslu, hugsanir og viðhorf, allt það sem gerir stjórnun mannauðs mikilvægari og flóknari en nokkru sinni fyrr. Lausnamengið er kannski flóknara en oft áður en ef gátan er leyst er ávinningurinn líka meiri og augljósari en áður. Okkar er tækifærið.

Höfundur er framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri Deloitte.