Af fréttum síðustu daga er ljóst að mikil samstaða er meðal flugmanna og flugfreyja Icelandair að félagið fari í gjaldþrotaskiptameðferð.

***

Um helgina birtist viðtal við formann FÍA, stéttarfélags flugmanna, þar sem hann sagði að flugmenn Icelandair vilji leggja sitt af mörkum til að tryggja samkeppnishæfni og stöðugleika Icelandair. Í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins sagði formaðurinn:

„Við eigum mikið undir, sem og landið allt og hagkerfið. Við höfum nú þegar lagt fram boð, sem er rúmlega 25 prósent, sem er til hagræðingar og kostnaðarlækkunar fyrir félagið."

***

Óðinn skilur ekki þessa umræðu um að Icelandair sé eina flugfélagið í heiminum sem geti flogið til Íslands og þess vegna verði að bjarga félaginu hvað sem það kostar. Er það virkilega svo að flugvélarnar þurfi að vera af Boeing gerð, vera að meðaltali 22 ára og vera með arískum, íslenskum áhöfnum?

***

Staðreyndin er sú að yfir 20 flugfélög hafa undanfarin ár flogið vandræðalaust til og frá landinu og það er ekki nokkur vafi á því að þeim muni fjölga eða núverandi félög muni fjölga ferðum ef áhugi verður til staðar á Íslandi sem áfangastað og Íslendingar hafi áfram áhuga á umheiminum. Jafnvel þó svo flugstjórinn segi flugfreyjunum ekki að spenna beltin á ensku með íslenskum hreim.

***

Líkur á gjaldþroti Icelandair hafa stóraukist eftir að flugmenn og flugfreyjur neituðu að kynna tilboð Icelandair fyrir félagsmönnum sínum. Ef það gerist er samningsstaða flugstéttanna endanlega farin út í veður og vind. Óðinn spáir þá eftirfarandi atburðarás:

***

Þrotabúið mun halda rekstri áfram meðan fundinn er kaupandi að eignum félagsins. Margir hópar fjárfesta og lukkuriddara munu stíga fram en lífeyrissjóðirnir munu að lokum velja hvaða kjölfestufjárfesta þeir hafa mesta trú á. Nýtt félag kemst hugsanlega að þeirri niðurstöðu að taka á leigu Airbus vélar.

Þar með eru allir elstu flugstjórar Icelandair, þessir með himinháu launin, úr leik, því kostnaðurinn við þjálfun flugmanna vegur þungt. En yngri menn og gamlir flugstjórar hjá Wow Air munu sitja eftir með stýrið í höndunum.

***

Undarleg umræða

Óðinn skilur ekki umræðuna, sem hefur verið síðustu vikuna um hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar. Hver ráðherrann og þingmaðurinn á fætur öðrum hefur gagnrýnt fyrirtæki fyrir að fara í hlutabótaleiðina vegna þess að fyrirtækin hafa greitt út arð og keypt eigin bréf.

***

Mörg þessara fyrirtækja hafa sýnt fram á málefnalegar ástæður þess að fara í hlutabótaleiðina. Til dæmis Elko á Keflavíkurflugvelli, sem er í eigu Festar, þar sem engin starfsemi hefur verið vegna lokunar flugsamgangna.

***

Er ekki nær að þessir ráðherrar og þingmenn líti í eigin barm? Hvað kom í veg fyrir að setja þessar kröfur í lögin um hlutabætur? Auðvitað ekkert. Ráðuneytin eru yfirfull af fólki sem gefur sig út fyrir að vera að springa af mannviti. Að minnsta kosti tvö ráðuneyti komu að hlutabótaleiðinni. Annars vegar félagsmálaráðuneytið og hins vegar fjármálaráðuneytið. Hvaða þarf marga embættismenn til að semja eitt skammlaust lagafrumvarp?

***

Yfirsjónin er eftir sem áður þingmanna - og þar skyldu menn ekki gleyma stjórnarandstöðunni, sem brást fullkomlega í andmæla- og aðhaldshlutverki sínu - þó Óðinn sjái bara alls ekki rökin fyrir því að aðeins veik fyrirtæki fari hlutabótaleiðina. Hvað hafa þessi fyrirtæki borgað í tryggingagjald á undanförnum árum? Skiptir það engu máli?

***

Besta grein ársins?

Baldur Björnsson, fyrrum eigandi Múrbúðarinnar og iðnaðarmaður, skrifaði stórskemmtilega grein á Vísi í byrjun mánaðarins, fulla af háði. Þar gerir Baldur að umtalsefni ferðagleði opinberra starfsmanna.

Staðreyndin er sú að tíð ferðalög opinberra embættismanna og millistjórnenda til útlanda eru lífæð stjórnsýslunnar. Hvers virði er t.d. skrifstofustjóri í ráðuneyti sem ekki nær að endurtaka kvöldverð fyrri ára á góðum veitingastað í London með öðrum skrifstofustjórum í sambærilegum erlendum ráðuneytum? Tengslanetið hrynur. Hvers virði eru reglugerðir Evrópusambandsins ef lögfræðingar ríkis og sveitarfélaga geta ekki sótt kvöldverðarfundi um þær í Brussel? Hvernig eiga utanríkisráðherra og þingmenn að geta tjáð sig um mannréttindi og siðgæði ef þeir hafa ekki sótt Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í tvær vikur? Hvað gerist ef ekkert verður af ferðum á samráðsfundi um norræna samvinnu í Tampere og Trondheim. Eða ef hittingur sem var með þingmönnum í Nýja Sjálandi korter í Covid verður ekki endurtekinn kortér yfir Covid? Hvað verður um dýrlegar veislur í sendiráðum eða fyrirlestra í Róm um hvatakerfi við útgáfu reglugerða ef enginn kemst þangað?

***

Fjármálaráðherra hefur án nokkurs vafa áttað sig á því að það þarf að skera niður í ríkisrekstrinum til að mæta áhrif Covid-19, bæði tekjuminnkun ríkissjóðs og auknum útgjöldum. Ein leiðin er að fækka í ráðuneytunum og draga verulega úr ferðakostnaði ríkisins.

***

Óðni skilst enda að þar liggi einar helstu áhyggjur gervalls embættismannakerfisins vegna heimsfaraldursins og þrenginga Icelandair: „Hvað verður þá um punktana mína?"

***

Sérsveit inn í ríkisstofnanir

Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, verður líklega kosinn ríkisforstjóri ársins, ef ekki aldarinnar. Á rétt tæpu ári er útlit fyrir að honum muni takast að snúa við miklum taprekstri 2018 og 2019 hjá ríkisfyrirtækinu í smávægilegt tap. Að auki hafa vaxtaberandi skuldir félagsins lækkað úr 3,4 milljörðum króna um mitt ár 2019 í 1,9 milljarða í dag.

***

Fjármálaráðherra á að ráða nokkurs konar sérsveit rekstrarmanna líkt og Birgis, sem gætu fengið aðstoð sérfræðinga, sem til dæmis er að finna hjá stóru ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækjunum, til að fara yfir rekstur stofnana og ríkisfyrirtækja.

***

Hefjast ætti handa hjá þeim stofnunum og fyrirtækjum ríkisins þar sem ítrekað er keyrt fram úr fjárlögum. Þar hlýtur Landspítalinn að vera efstur á blaði, einfaldlega vegna stærðarinnar og langvinnra, nánast ólæknandi rekstrarörðugleika. En hann er ekki einn. Hjá ríkisendurskoðanda má ár hvert fá langan og ljótan lista yfir helstu syndaselina.

Þar þarf ekki aðeins sérsveit Birgis að skakka leikinn, framkvæmdarvaldið verður að vera duglegra við að láta þá stjórnendur sæta ábyrgð, sem þverskallast við að fara að fjárlögum ár eftir ár, hvort sem er skin eða skúrir. Eru með öðrum orðum lögbrjótar. Og hver veit, kannski menn skoði jafnvel hlutverk þessara stofnana og fyrirtækja, bæði hvort stjórnendurnir haldi sig við þau og þau ein, en eins hvort það sé örugglega þörf á þeim öllum?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .