Síðastliðin helgi var verslunarmannahelgi og fjölmiðlar gerðu henni skil hver með sínum hætti, bæði fyrir og eftir og meðan á henni stóð. Þar á meðal mátti finna ágætt efni í Fréttablaðinu, þar sem birt var Íslandskort sem sýndi helstu hátíðir og áfangastaði á þessarri mestu ferðahelgi ársins, samantekt um ómissandi þarfaþing í útileguna og þar fram eftir götunum. Allt mjög hefðbundið, nytsamlegt efni og í léttum dúr.

Gallinn er sá að þetta efni birtist í laugardagsblaði Fréttablaðsins, þegar allir þeir, sem efnið átti erindi við, voru á bak og burt. Til þess að efni af þessu komi að einhverju gagni þarf það að berast lesendum fyrri hluta vikunnar, í allra síðasta lagi á fimmtudag. En að birta það á laugardegi er bara eins og setja jólabókatíðindin inn um lúguna á 2. degi jóla.

* * *

Jón Yngvi Jóhannsson lektor við Háskóla Íslands skrifaði stutta ábendingu á Facebook eftir að hafa gluggað í nýjasta tölublað Stundarinnar:

Þar blasir við það sem virðist vera mótsögn. Fólk er sífellt að tala um að aldamótakynslóðin, fólkið sem er fætt inn í stafrænan heim, hafi ekki einbeitingu til að lesa lengri texta og tjái sig helst í brotum eða tístum. Samt eru greinarnar í Stundinni miklu lengri og ítarlegri en í öðrum fjölmiðlum. Þær eru langflestar skrifaðar af aldamótafólki. Hefur einhver skýringar á þessu?

Þetta er rétt athugað hjá Jóni Yngva og vafalaust margar skýringar á. Ein er sú að þó að Stundin sé prentuð á dagblaðapapír þá er hún hálfsmánaðarlegt tímarit og því háðari því að vera með eigið efni, helst skúbb, sem ekki er að finna í öðrum miðlum, og töluverð hvöt til þess að tæma málið.

Önnur kann að felast í einhverjum misskilningi um lengd og gæði frétta. Fyrir nokkrum árum fögnuðu margir endurkomu lengri greina á netinu, þá oft um flókin mál, þar sem velta þurfti við mörgum steinum, tala við marga og hafa nóg af litríkum lýsingum með. Þessar greinar voru jafnan vandaðar og greinilega gríðarleg vinna að baki, en hvorki á færi allra blaðamanna né fjölmiðla. Greinar verða hins vegar ekki vandaðar við það vera langar, heldur má kannski segja að langar greinar verði að vera vandaðar til þess að lesandinn komist í gegnum þær, yppti ekki öxlum og segi tl;dr (lesist: of langt; las ekki).

Sumum finnst kannski að með því að hafa greinarnar nógu langar öðlist þær meiri vigt, á vefnum er nóg pláss, og hjá sumum miðlum er fólki borgað fyrir hverja fyllta síðu. En það léttir lesandanum sjaldnast lífið og mikill vandi að gera það vel og þannig að á því sé eitthvað að græða. Hlutverk fjölmiðla er fyrst og fremst að greina frá málum þannig að hver skilji, segja frá aðalatriðum en láta hitt liggja milli hluta. Skýrt og skipulega, án málalenginga og vaðals. Það er varla til sá texti, sem ekki má stytta, og raunar vandfundinn sá texti, sem ekki batnar við það. Þetta er auðvitað þjálfunaratriði hjá flestum blaðamönnum, en það er á ábyrgð ritstjórans að halda þeim við efnið að því leyti og auðvelda lesendum að skilja það sem máli skiptir.

* * *

Klausturmálin voru enn til umfjöllunar í fjölmiðlum í kjölfar þess að siðanefnd og forsætisnefnd Alþingis luku málsmeðferð um framkomu sex þingmanna í einkasamtali, sem gert var svo eftirminnilega opinbert á jólaaðventunni í fyrra. Það er mikið utan sviðs þessara dálka, en þó er ástæða til þess að drepa á tvennt í því samhengi.

* * *

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og einn Klausturriddaranna, sagði það um helgina í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni, að fréttaflutningur af málinu hafi verið úr öllu jafnvægi og nefndi til dæmis að Ríkisútvarpið hafi flutt 70 fréttir af honum í tengslum við Klausturmálið, en aðeins 18 fréttir af áreitnimáli Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar.

Að óathuguðu máli efast fjölmiðlarýnir ekki um að tölfræðin sé rétt hjá Gunnari Braga og hún vekur vissulega ýmsar spurningar. En hjá hinu verður ekki litið að málin eru gerólík, bæði að eðli og hvernig fréttirnar komu fram og þróuðust. Þar inn í spila einnig misjöfn viðbrögð almennings, sem virðist að miklu leyti hafa álitið annað málið einstaklingsbundna misgjörð en hitt mun almennara um hegðan stjórnmálamanna.

Það má deila um sanngirnina eða málsástæður þess, en sú var nú samt raunin. Eins mætti halda því fram að fjölmiðlar hafi snúið þann söguþráð, þó fjölmiðlarýnir sé nú trúaðri á að eins og oftast hafi miðlarnir þar elt áhuga almennings en ekki öfugt. Svo er önnur saga hvort þeir hafi látið kappið við það bera sig ofurliði, umfjöllunin liðinn vetur var ekki öll til fyrirmyndar.

* * *

Síðan er hitt sem snertir hina stóru spurningu um hvort hlerunin á samtali þingmannanna og birting hafi átt rétt á sér. Persónuvernd komst á sínum tíma að því að upptakan hafi verið ólögleg og hlerandanum gert að eyða henni. Þar var horft til friðhelgi þeirra sem þar skröfuðu en einnig þeirra sem um var fjallað af nokkru hispursleysi, ef ekki svívirðu. Þar komu jafnframt fram ýmsar ásakanir og dylgjur, sem viðkomandi kæra sig sjálfsagt ekki um að séu endurteknar eða reifaðar frekar.

Fjölmiðlarýnir áttar sig ekki á því hvort siðanefnd eða forsætisnefnd Alþingis hafði samráð við þá sem um ræddi — alveg burtséð frá þrætum um þolendur og gerendur. En honum þótti þó með ólíkindum að sjá á DV frétt undir fyrirsögninni „Hlustaðu á Bergþór og Gunnar tala um Albertínu“ og svo fylgdi meira á eftir af ruddalegra orðfæri en hér verður haft eftir. Sem sagt endurbirting á hinni ólöglegu hlerun, sem er öllum viðkomandi til minnkunnar og áfellis, jafnt þeim sem töluðu og þeim sem um var rætt. Það er eitthvað einstaklega lágkúrulegt við það.

* * *

Fjölmiðlarýnir sá að einhverjum á netinu fannst skrýtið að Morgunblaðið hefði flutt forsíðufrétt um bílalán, sem viðskiptavinum BL standa til boða, en fyrir ofan hefði verið sjálfstæð mynd af nýinnfluttum bílum niðri við höfn, og gerðu því skóna að þetta væri auglýsingakennd frétt.

Þetta er raus. Fréttin um bílalánin stendur vel undir sér og hún er líka í samhengi við óseldar bílabreiðurnar á hafnarplaninu. Þar var þó enginn bíll á vegum BL að því séð verður. En hvað hefði maðurinn sagt ef myndin hefði verið úr sýningarsal BL? Bæði fréttin og myndin sögðu frétt og þar að baki búa vafalaust fleiri fréttir um vexti, spennu í hagkerfinu, væntingar og það allt.