Óvænt staða er kominn í tafli fjármálaráðuneytisins og lífeyrissjóðanna um örlög ÍL-sjóðs. Hrafnarnir sjá að Samtök leigjenda, sem hafa 3.500 fylgjendur á Facebook, lýstu sig reiðubúin til þess að skera á hnútinn.

Fyrr í dag sendu Samtök leigjenda frá sér fréttatilkynningu um að samtökin séu reiðubúin til þess að ganga til viðræðna við stjórn Heimstaden um kaup á 1.700 íbúðum félagsins. Til þess að slá tvær flugur í einu höggi þá vill þessi hópur leigjenda undir forystu Guðmundar Hrafns Arngrímssonar landslagsarkitekts ganga til viðræðna við fjármálaráðuneytið og ÍL-sjóð um fjármögnun viðskiptanna.

Samkvæmt ársreikningi Heimstaden nemur virði fjárfestingaeigna 67 milljörðum króna. Hrafnarnir telja djarft af fámennum félagasamtökum að ráðast í slíka skuldsetningu og enn fremur hafði þeim ekki hugkvæmst að lausn á vanda ríkisins og ÍL-sjóðs væri enn frekari fjárhagslegar skuldbindingar. En eins og segir í fréttatilkynningu samtakanna er yfirvofandi neyðarástand hér á landi og undir slíkum kringumstæðum er þörf á djarfri hugsun.

Auk þess telja Leigjendasamtökin víst að þau muni fá góðan magnafslátt í viðskiptunum auk þess sem að þau reikna með afbragðs lánskjörum frá ríkinu. Hrafnarnir munu fylgjast með framvindu þessa máls af áhuga og bíða eftir svari Heimstaden og stjórnvalda.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.