*

fimmtudagur, 28. október 2021
Týr
17. ágúst 2020 08:02

Samvinna er samasem vinna

Flokkurinn virðist enn harma að samfélagið sé ekki enn fast í læðingi framreiðsluráðs landbúnaðarins og Sambandsins.

Haraldur Guðjónsson

Fyrir fáum vikum flutti fréttastofa Ríkisútvarpsins stutta samantekt um flutninga á stofnunum út á land. Af samantektinni mátti sjá - engum að óvörum - að Framsóknarflokkurinn var flokka gjarnastur þegar kom að því að flytja stjórnvöld heim í hérað.

Umræðan sem hófst í kjölfarið kom heldur engum á óvart, í það minnsta ekki Tý. Frá Vestfjarðakjálkanum, Austfjörðum, Norður- og Suðurlandi heyrðust harmakvein. Þótti mönnum illa vegið að þéttbýlisstöðum utan höfuðborgarsvæðisins og RÚV sakað um höfuðborgarhroka.

                                                       ***

Formaður Framsóknarflokksins mætti hreykinn í viðtal vegna málsins og sagðist vel geta hugsað sér að bjóða upp á frekari hreppaflutninga ríkisstarfsmanna. Undarleg orð þegar flokkurinn hefur verið í langvarandi tilvistarkreppu. Ummælin virðast kjarna vanda Framsóknarflokksins sem virðist enn harma að samfélagið sé ekki enn fast í læðingi framreiðsluráðs landbúnaðarins og Sambandsins og vill helst hverfa aftur til þess tíma.

                                                       ***

Könnun, sem gerð var meðal stjórnenda ríkisstofnana fyrir kófið, leiddi í ljós að þeir töldu um fjórðung starfa geta flokkast sem „starf án staðsetningar". Þegar könnunin var endurtekin í miðjum faraldri hafði hlutfallið þrefaldast.

                                                       ***

Aðrir flokkar - sem ekki þrá þann tíma þegar allt var hér miklu verra - ættu að sjá tækifæri í að byggja upp byggðastefnu sem felur ekki í sér nauðungarflutninga. Flestir þéttbýliskjarnar hér á landi bjóða upp á ágæta nettengingu og því hægt að sinna stórum hluta starfa frá eldhúsborðinu.

Gildir þá einu hvort það er á Patreksfirði, Egilsstöðum, Hellu eða Árbæ. Mögulega tækist ríkinu að stöðva spekilekann með því að bjóða fólki að búa þar sem það vill, jafnvel með örlitlum skattalegum hvata í stað þvingana. Það vill nefnilega svo til að fólk er oftar en ekki viljugra þegar því er boðið samstarf en ekki nauðung.

                                                       ***

Á hinn bóginn fagnaði Týr hugmyndum flokksins enda vel þekkt að ekki eru allir ríkisstarfsmenn tilbúnir til að láta koma fram við sig eins og niðursetning. Gildir þar einu hvort um er að ræða flutning frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðis eða öfugt. Afleiðing kjördæmapots sem þessa hefur oftar en ekki verið sú að einhverjir starfsmenn sætta sig ekki við flutninginn, segja starfi sínu lausu og nýta þekkingu sína til að stofna eigin rekstur á sviðinu.

Áður en langt um líður þurfa síðan téðar stofnanir að kaupa þjónustu af fyrrverandi starfsmönnum sínum sökum sérþekkingar þeirra. Slíkt eykur hróður einkaframtaksins og dregur úr óhóflegri, áralangri útþenslu hins opinbera. Er það vel.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.