„Ég er á þeirri skoðun að RÚV eigi ekki að vera á auglýsingamarkað og ég mun beita mér fyrir því á þessu kjörtímabili að RÚV verði ekki á auglýsingamarkaði,” sagði Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, á málþingi Blaðamannafélags Íslands á mánudaginn. Í fréttum Stöðvar 2 á þriðjudagskvöldið tók Bjarni Benediktsson undir orð Lilju og sagðist trúa því að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði á kjörtímabilinu.

Þótt enn sé langt í land þá verða þessar yfirlýsingar að teljast þónokkur tíðindi fyrir íslenskan fjölmiðlamarkað því undanfarin áratug hafa íslensk fjölmiðlafyrirtæki barist í bökkum. Hugmyndin er samt ekki ný. Þegar verið var að semja ný útvarpslög árið 1996 komst starfshópur ráðherra að þeirri niðurstöðu að RÚV færi alfarið af auglýsingamarkaði. Þá eru ekki nema tæp fjögur ár síðan skýrsla nefndar mennta- og menningarmálaráðherra um rekstrarumhverfi fjölmiðla var birt. Í stuttu máli þá lagði meirihluti nefndarinnar til að Ríkisútvarpið færi af auglýsingamarkaði, og ekki bara það, heldur var lagt til að hann færi hið fyrsta af þessum markaði.

Í fréttum RÚV í fyrradag sagði Lilja að talað hefði verið um að bæta Ríkisútvarpinu tekjutapið. Sú yfirlýsing veldur jafnmiklum vonbrigðum og yfirlýsingin um að RÚV eigi að fara af auglýsingamarkaði. Hvernig verður þetta tap bætt? Með því að hækka nefskattinn?

Stöldrum aðeins við hér. Tekjur Ríkisútvarpsins samanstanda af skatttekjum annars vegar og tekjum af samkeppnisrekstri hins vegar, sem að langstærstum hluta eru auglýsingatekjur. Skatttekjurnar eru fjármunirnir sem ríkið greiðir RÚV árlega með því að innheimta útvarpsgjald, nefskatt, af skattborgurum samhliða álagningu opinberra gjalda. Í fyrra greiddi hver einasti Íslendingur 69 ára og yngri 18.300 krónur í útvarpsgjald svo lengi sem hann hafði 1,9 milljónir króna í árstekjur. Gjaldið leggst ekki einungis á einstaklinga heldur líka lögaðila. Árið 2020 fékk RÚV um 5 milljarða frá ríkinu og því til viðbótar um 2 milljarða í tekjur af samkeppnisrekstri. Þrátt fyrir þetta var 200 milljóna króna tap af rekstrinum.

Á þessu ári hækkar nefskatturinn um 2,5% eða í 18.800 krónur, sem þýðir að frá árinu 2016 hefur þessi skattur hækkað um 15%.

Seinni spurningunni, sem varpað var fram hér að framan, er því auðsvarað. Auðvitað verður tekjutap RÚV ekki bætt upp með hækkun á nefskatti enda væri fullkomin rökleysa að láta skattborgarana bæta RÚV tapið við að fara af auglýsingamarkaði, sem og standa undir styrkjum til einkarekinna fjölmiðla.

Það gefur augaleið að um leið og Ríkisútvarpið fer af auglýsingamarkaði þarf að endurhugsa hlutverk þess. Hlutverk og skyldur RÚV eru tíundaðar í löngu máli í lögum um Ríkisútvarpið. Í stuttu máli þá er Ríkisútvarpinu gert að uppfylla ákveðnar kröfur eins og að sinna fréttaþjónustu, öryggisþjónustu og menningarhlutverki. „Ef það sinnir ekki þessum kröfum er fyrst hægt að tala um að stofnunin eigi ekki sinn grundvöll,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í viðtali í Morgunblaðinu í lok árs 2005 en þá var hún varaformaður Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra. Af hverju er verið að rifja upp orð fyrrverandi menntamálaráðherra hér. Jú, það er vegna þess að þessar kröfur um hlutverk Ríkisútvarpsins eru í dag barn síns tíma og þar með er enginn grundvöllur fyrir því að reka það í núverandi mynd.

Fréttaþjónustuhlutverkinu er sinnt af fjölmörgum einkareknum og frjálsum fjölmiðlum. Þeir sem vilja að Ríkisútvarpið sinni áfram fréttaþjónustuhlutverkinu segja gjarnan að einkareknir miðlar séu undir hælnum á eigendum sínum og því sé ekki hægt að treysta því að þeir gæti hlutleysis. Í þessu sambandi þá gleymist oft að yfir Ríkisútvarpinu er pólitískt skipuð stjórn. Þessi stjórn ræður útvarpsstjóra til starfa, sem síðan sér um ráðningar innanhúss. Pólitíkin er því alltumlykjandi hjá RÚV.

Tæknin hefur gert það að verkum að öryggisþjónustuhlutverk RÚV er ekkert í dag. Sé von á snjóflóði, eldgosi eða jarðskjálftum er skilvirkara að senda fólki skilaboð í símann í stað þess að vara það við með tilkynningu á vefmiðli svo ekki sé nú talað um í línulegri dagskrá í sjónvarpi eða útvarpi. Svo má líka minna á að fréttastofa Ríkisútvarpsins var einna síðust allra fjölmiðla til að greina frá því að eldgos væri hafið í Geldingadölum við Fagradalsfjall þann 19. mars í fyrra. Eins og mörgum er í fersku minni þá fjallaði efsta fréttin á vefsíðu RÚV þetta föstudagskvöld um hið gagnstæða – að ekki væri von á eldgosi á svæðinu.

Eftir stendur menningarhlutverkið. Eðlilegt er Ríkisútvarpið sinni því áfram þó að einkareknir fjölmiðlar geri það raunar líka. Af þessu má sjá að tækifærin til hagræðingar eru mikil í Efstaleitinu. Grundvallaratriðið í þessu öllu saman er samt að á Íslandi þrífist öflugir frjálsir fjölmiðlar, sem ekki þurfa að keppa við ríkismiðil, sem fær 5 milljarða í forgjöf frá skattborgurum, um auglýsingar og efni.

Næsta mál er síðan að skattleggja auglýsingar til erlendra aðila nú eða afnema skatt af auglýsingasölu á Íslandi. Það er sanngirnismál að íslenskir fjölmiðlar sitji við sama borð og fyrirtæki eins og Facebook og Google , sem árið 2020 fengu um 3,4 milljarða króna frá íslenskum auglýsendum. Nú þegar renna um 40% auglýsingatekna hérlendis til erlendra aðila – skattfrjálst.