*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Andrés Magnússon
11. maí 2020 08:32

Sannleiksráðuneytið

Fjölmiðlarýnir fjallar um upplýsingaóreiðu og ritskoðun.

„Upplýsingaóreiðuhópur“ Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra hafi þegar tekið til starfa og gengið til samstarfs við Vísindavef Háskóla Íslands.
Árni Sæberg

Ótti Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við upplýsingaóreiðu hefur verið lítillega rakinn í þessum dálkum að undanförnu. Sem kunnugt er lét hún Þjóðaröryggisráð mynda sérstakan vinnuhóp um upplýsingaóreiðu, að sögn vegna heimsfaraldursins, en fullkomlega í takt við fyrri fyrirætlanir. Það eru fleiri en Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra, sem skáka ýmsu í skjóli veirunnar í fullvissu þess að enginn þori að andæfa nokkru tengdu baráttunni við hana, hversu langsótt sem það kann að vera.

Í þeim efnum er tönnlast á að netið búi yfir hundrað hættum, að þar vaði uppi alls kyns hviksögur, jafnvel vísvitandi falsfréttir, þó raunar séu engin dæmi slíks rakin. Þrátt fyrir nokkra leit hefur fjölmiðlarýni enda ekki tekist að finna nein íslensk dæmi um það. Nema auðvitað verið sé að vísa til þeirra örfáu og veikburða efasemdaradda, sem heyrst hafa um ráðstafanir stjórnvalda vegna heimsfaraldursins. Nú eða þann þúsundradda kór áhugamanna um faraldursfræði, sem vissulega hefur látið í sér heyra með ýmsum og misskynsamlegum hætti á félagsmiðlum.

Í því samhengi má samt ekki líta hjá því að á „fordæmalausum tímum sem þessum“ er bæði sjálfsagt og eðlilegt — í frjálsum samfélögum altjent — að almenningur reyni að glöggva sig á því sem við er að etja og hvernig skynsamlegast sé að bregðast við. Ekki síst auðvitað þegar haft er í huga að vágesturinn er að miklu leyti ennþá óþekktur og lítil þekking um hvernig best sé að halda honum í skefjum. Þar hafa stjórnvöld — á Íslandi sem annars staðar — ekki öll svör á reiðum höndum frekar en aðrir. Þeim hefur skjátlast um margt í þeim efnum. Vísindasamfélagið hefur enda ekki alla vitneskju, þar er enn leitað svara og innan þess eru ekki allir á einu máli, um annað hefur verið sameiginlegur skilningur á sumu, sem síðan hefur breyst í ljósi reynslunnar og þar fram eftir götum.

* * *

Við þessar aðstæður getur ríkisvaldið ekki látið eins og handhafi stórasannleiks um veiruna, sem verði að berja niður önnur viðhorf. Þvert á móti má segja að það sé sérstök nauðsyn til þess að eiga opinskáa umræðu um það allt. Vitanlega mun þar margt koma fram, sem ekki reynist eiga sér stoð. En það á líka við um rökræðurnar í fílabeinsturnum stjórnvalda. Jafnvel hjá alþjóðastofnunum.

* * *

Sums staðar hafa stjórnvöld jafnvel orðið uppvís að blekkingum, jafnvel í lýðræðisríkjum. Þar fullyrtu heilbrigðisyfirvöld gegn betri vitund að nytsemi andlitsgríma væri mjög takmörkuð. Tilgangurinn var göfugur, að koma í veg fyrir að fólk hamstraði þær með þeim afleiðingum að heilbrigðiskerfið gæti ekki birgt sig af þeim. En þá hefðu þau betur verið ærleg um það og lagt traust á almenning um að hemja sig, því þessi „hvíta lygi“ kostaði viðkomandi heilbrigðisyfirvöld trúverðugleikann þegar hið sanna kom í ljós. Af hverju skyldi almenningur þá trúa þeim um annað?

Enn frekar á það svo auðvitað við um viðbrögð við faraldrinum að öðru leyti en því sem snýr að hreinum heilbrigðissjónarmiðum. Þar ræðir um pólitískar ákvarðanir fremur en vísindalegar (þó sumir láti öðru vísi) og það er beinlínis annarlegt ef stjórnvöld amast við því.

* * *

Í öllu þessu hjali um upplýsingaóreiðuna hefur töluverð áhersla verið lögð á hlutverk áreiðanlegra fjölmiðla. Sem er alveg sjálfsagt, enda ber ekki á öðru en að þorri almennings átti sig vel á því. En þess eru líka dæmi um að virtir fjölmiðlar hafi hlaupið illilega á sig.

Í Bretlandi birti Sunday Times t.d. viðamikla og gagnrýna umfjöllun um viðbrögð stjórnvalda, sem reyndist síðan röng um fjölmargar staðreyndir málsins, sem gengið hefur misvel að leiðrétta. The Financial Times lenti í öðru eins í grein um öndunarvélaskortinn, sem reyndist enginn vera. BBC flutti afar gagnrýninn þátt um aðbúnað heilbrigðisstarfsfólks, þar sem hver einasti viðmælandi reyndist vera aðgerðasinni í villtasta vinstri Verkamannaflokksins.

Handan hafsins hafa bæði New York Times og Washington Post, gróin og virt blöð, flutt ákaflega villandi fréttir, nánast æsifregnir, um hvernig veiran geti leitt börn til dauða, en leiðréttingarnar í skötulíki. Eru þeir miðlar allir ónýtir? Nei, vitaskuld ekki. En þeir geta líka orðið hugaræsingu að bráð, fundið fréttir sem „eru of góðar til að staðreyna“ eða falla svo vel að markmiðum um að hræða fólk til ýtrustu sóttvarna að ekki er hirt um hvort þær séu sannar. Það er líka „upplýsingaóreiða“, en við verðum að taka á því með öðrum hætti en að stjórnvöld komi á ritskoðun með beinum eða óbeinum hætti.

* * *

Fyrrnefndur „upplýsingaóreiðuhópur“ Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra hafi þegar tekið til starfa og gengið til samstarfs við Vísindavef Háskóla Íslands. Í tilkynningu frá landlækni um það er vísað til þess að misvísandi og rangar upplýsingar um heimsfaraldurinn, einkum á félagsmiðlum, sé alþjóðlegt vandamál.

Nú er erfitt að sjá hvernig þetta samstarf samræmist erindisbréfi hópsins (sé það til), en honum var komið á fót í liðnum mánuði til að „kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við Covid-19“ og gera tillögur til að sporna gegn henni. Ekkert hefur sést af þeirri kortlagningu, hvað þá tillögur, en samt er hópurinn farinn að efna til samstarfs eins og það sé í hans verkahring að koma reglu á upplýsingaflæði og fréttaflutning í landinu. Fróðlegt væri að vita á hvaða lagabókstaf það hvílir.

Það er að vísu frekar óljóst hverju samstarfið breytir, því í tilkynningu landlæknis er aðallega talað um verkefni, sem Vísindavefurinn hefur til þessa sinnt án atbeina Sannleiksráðuneytis Katrínar. Hins vegar er reifuð hugmynd um að fjölmiðlar og blaðamenn geti leitað til ritnefndar Vísindavefsins um staðreyndavöktun á fréttum sem tengjast faraldrinum og að embætti landlæknis og Vísindavefurinn vinni saman að því að svara og halda utan um fyrirspurnir. Enginn heiðvirður blaðamaður getur leitað til Vísindavefjarins um slíkt.

Ekki vegna þess að Vísindavefurinn sé ekki góðra gjalda verður, heldur einmitt vegna hins, að hin holdsveika hönd upplýsingaóreiðuhóps Katrínar hefur snortið hann og sýkt.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.