Fyrrverandi háseti á Skagfirðingi og núverandi seðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson, hélt erindi á Sjávarútvegsdeginum árið 2018. Þá var hann deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands og erindið fjallaði um hlutverk sjávarútvegs á nýrri öld.

Hann sagði sjávarútveginn hafa verið aflvaka stöðugleika í íslensku hagkerfi í aldarfjórðung. Og greinin hefði veitt mikilvægan stuðning í tveimur síðustu niðursveiflum, árin 2001 og 2008, „… þegar landsmenn hafa verið að prófa sig áfram með nýjar atvinnugreinar“. Svo bætti hann við: „Svo mun einnig í næstu niðursveiflu!“

Næsta niðursveifla hefur þegar brostið á. Því er rétt að velta fyrir sér hvort seðlabankastjóri hafi reynst sannspár. Bráðabirgðatölur um verðmæti vöruútflutnings frá Íslandi í september voru birtar á vef Hagstofunnar í fyrri viku. Samkvæmt þeim bendir allt til þess að útflutningur á fiskafurðum, eldi þar með talið, hafi verið vel yfir 50% af öllum vöruútflutningi í mánuðinum.

Seðlabankinn spáði í maí að samdráttur í útflutningi á sjávarafurðum í ár yrði 12%. Í lok sumars spáði Seðlabankinn því að samdrátturinn yrði 8%. Gangurinn í sjávarútvegi hefur því verið heldur betri en á horfðist, eftir að COVID brast á.

Í samantekt erindis síns sagði Ásgeir að sjávarútvegur færi áfram með burðarhlutverk í efnahagslífi Íslendinga, hann yrði aflvaki stöðugleika, nýsköpunar, framleiðni og bættra lífskjara. Og að sjávarútvegur yrði einn helsti grundvöllur samkeppnishæfni Íslands í breiðum skilningi. Undir þetta má taka.

Þegar í bakseglið slær er gott til þess að vita að vel fjármagnaður og framsækinn sjávarútvegur er fyrir hendi og framlag fiskeldis fer jafnt og þétt vaxandi. Sjávarútvegurinn er því sannarlega enn í því hlutverki sem seðlabankastjóri spáði fyrir um; að veita hagkerfi í niðursveiflu mikilvægan stuðning og vera nú sem fyrr aflvaki stöðugleika.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.