Það að ná þverpólitískri sátt um einstaka málefni er nokkuð nýtt hugtak í íslenskri pólitík. Þetta hugtak er gjarnan notað af stjórnmálamönnum sem telja sig knúna til að breyta stjórnmálum, sem hafa í grunninn verið eins frá tímum Forn-Grikkja.

Það að takast á um hugmyndir, færa rök fyrir máli sínu og standa fastur á sínu heyrir orðið til undantekninga – enda gæti viðkomandi þurft að svara reiðum fjölmiðlamönnum svo ekki sé minnst á samfélagsmiðlana. Hvar þar sem tveir eða þrír koma saman til að tjá sig á Facebook er hræddur stjórnmálamaður þar mitt á meðal.

***

Þetta kom upp í huga Týs þegar frumvarp til laga á breytingum á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum voru samþykkt með miklum minnihluta á Alþingi í vikunni. Af 38 manna þingmeirihluta stjórnarflokkanna kaus aðeins helmingur, 19 þingmenn með lögunum, og það nægði til þess að fá þau samþykkt. 25 þingmönnum stjórnarandstöðunnar tókst ekki að fella frumvarpið.

***

Búvörusamningarnir munu reynast skattgreiðendum og neytendum töluvert dýrir í þau 10 ár sem fram undan eru af gildi samninganna. Meira en helmingur þingmanna hafði ekki kjark, þor, dugnað eða nennu til að taka afstöðu til samninganna, sem kemur nokkuð á óvart miðað við þær yfirlýsingar sem voru búnar að falla á báða vegu í umræðum um hina dýru samninga.

***

Fjórðungur þingmanna, 16 þingmenn, var viðstaddur atkvæðagreiðslu en greiddi ekki atkvæði. Hvorki stuðningsmenn né andstæðingar samningsins hafa því vitneskju um raunverulega skoðun fjórðungs þingmanna á samningunum.

***

Fjórðungur þingmanna vildi augljóslega forðast það að stuða hagsmunasamtök tengd bændum eða þurfa að svara skattgreiðendum af hverju þeir þurfa að taka upp veskið til að viðhalda því fornaldarkerfi sem samningarnir fela í sér. Þá er auðveldast að greiða bara ekki atkvæði og einhver annar þarf að svara fyrir málið.

***

Það færist í aukana að stjórnmálamenn forðist það að taka afstöðu til umdeildra mála, nú eða bara pólitískra mála yfirhöfuð. Ef ekki ríkir „þverpólitísk sátt“ um málefnið líta kjörnir fulltrúar á það sem jarðsprengjusvæði og forðast það sem heitan eldinn að taka afstöðu. Þess í stað elta þeir vinsælasta málefnið á Facebook hverju sinni og skella í einn hressan, en útpældan, status.

***

Svo verður þetta fólk steinhissa þegar það nær ekki tilsettum árangri í prófkjörum.