*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Óðinn
11. apríl 2018 15:51

Seðlabankastjórinn ómissandi

Hvaða forstjóra öðrum en Má Guðmundssyni dytti í hug að banna stjórninni að tala við aðra starfsmenn fyrirtækisins?

Haraldur Guðjónsson

Óðinn hefur ítrekað fjallað um embættisafglöp Seðlabankans, en þar er Samherjamálið aðeins þekktasta dæmið af mörgum. Seðlabankinn hefur margoft farið út fyrir valdheimildir sínar og þegar upp hefur komist hefur hann gengið hart fram í því að fá formlegar valdheimildir víkkaðar út.

                              ***

Það er stórmerkilegt til þess að hugsa að Umboðsmaður Alþingis hefur ritað fleiri en eitt bréf, þar sem hann finnur að starfsaðferðum bankans. Þrátt fyrir það hefur Már Guðmundsson seðlabankastjóri og aðrir stjórnendur bankans fengið að starfa í merkilega miklum friði fyrir fjölmiðlum og álitsgjöfum af ýmsu tagi, sérstaklega í ljósi þess hvernig sumir forverar Más í embætti voru aflífaðir í fjölmiðlum fyrir um áratug síðast – og það fyrir miklu minni sakir.

                              ***

Vill alla taumana í eigin höndum

Umboðsmaður hefur nú ritað enn eitt bréfið þar sem fundið er að túlkun Seðlabankans á lögum og reglum. Af lestri bréfsins má vera ljóst að þessi afstaða bankans til eigin valdheimilda og þeirra skorða sem bankanum eiga að vera settar í lögum rennur undan rifjum seðlabankastjórans. Ljóst er að seðlabankastjóri vill hafa alla tauma í eigin höndum.

                              ***

Áður en vikið verður að þessu nýjasta bréfi er ágætt að rifja upp það sem Umboðsmaður hefur áður sagt um starfsemi bankans. Í bréfi, sem hann sendi fjármálaráðherra, formanni bankaráðs Seðlabankans, seðlabankastjóra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis haustið 2015 segir meðal annars:

                              ***

„Ég tek það líka fram að ég tel það miður þegar forstöðumenn ríkisstofnana sem fara með rannsóknarvald af því tagi sem hér er fjallað um vísa til þess að ástæðu þess að fella hefur þurft niður rannsóknir mála, t.d. með ákvörðun ákæruvaldsins, megi rekja til vanbúnaðar í lögum eða mistaka við lagasetningu. Það er einmitt verkefni stjórnvalda að gæta að því að þau hafi nægar heimildir í lögum til þeirra athafna og ákvarðana gagnvart borgurunum sem þau grípa til.

[…] Eins og sjá má af tilurð og breytingum á lagaákvæðum og reglum um gjaldeyrismál er ljóst að Seðlabanki Íslands hefur haft verulega aðkomu að undirbúningi þeirra. Þar þurfti að gæta þess að þeir sem höfðu vald til að taka ákvörðun um hvaða háttsemi ætti að varða refsingum hefðu tekið afstöðu til þess og það væri í réttu formi.“

                              ***

Athyglisvert er einnig að sjá að í bréfi umboðsmanns kemur fram að þegar Seðlabankinn vísaði málum til ákæruvaldsins var á stundum miðað við útgefnar leiðbeiningar bankans við mat á því hvort brot hefði verið framið eða ekki. Ekki var miðað við orðalag laga og reglna. Eins og umboðsmaður bendir réttilega á eru leiðbeiningar af þessu tagi ekki refsiheimild.

                              ***

Valdheimildirnar auknar enn

Mælti Umboðsmaður einnig með því að stjórnvöld og Alþingi tækju afstöðu til þess hvort rétt væri að Seðlabankinn sæi sjálfur um stjórnsýslu og rannsókn á meintum brotum gegn reglum um gjaldeyrismál.

                              ***

Í ljósi þessa er í raun óskiljanlegt að í maí 2016 samþykkti Alþingi frumvarp fjármálaráðherra um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

                              ***

Í lögunum er Seðlabankanum falið eftirlit með framkvæmd laganna, honum veittar víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar og veitt þvingunarúrræði í formi dagsekta og stjórnvaldssekta.

                              ***

Í 14. grein laganna er kveðið á um skyldu til að veita Seðlabankanum „allar þær upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg“ í því skyni að hafa eftirlit með framkvæmd laganna. Sérstaklega er tekið fram að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.

                              ***

Athyglisvert er að heimild Seðlabankans í þessu ákvæði laganna gengur lengra en sambærileg heimild skattayfirvalda samkvæmt tekjuskattslögum. Þar er upplýsingaskyldan takmörkuð við „allar nauðsynlegar upplýsingar“. Skattayfirvöld þurfa með öðrum orðum að sýna fram á að upplýsingarnar séu nauðsynlegar, en Seðlabankanum er gefið sjálfdæmi hvað þetta varðar.

                              ***

Stærsti munurinn á heimildum Seðlabankans samkvæmt nýju lögunum og hefðbundnum heimildum skattayfirvalda varðar ágreining um upplýsingaskyldu. Skattayfirvöld þurfa að leita úrskurðar héraðsdóms ef slíkur ágreiningur er uppi.

Samkvæmt nýju lögunum er Seðlabankanum hins vegar veitt heimild til að leggja á dagsektir verði aðili ekki við kröfu um afhendingu upplýsinga og þarf viðkomandi aðili að bregðast við innan fjórtán daga með málshöfðun gegn Seðlabankanum um ógildingu á þeirri ákvörðun. Með öðrum orðum þarf sektarþoli sjálfur að höfða mál til að hnekkja sektarákvörðun, sem lögð er á hann vegna þess að hann er ósammála Seðlabankanum um upplýsingaskylduna.

                              ***

Bitlaust eftirlit

Allt þetta hefur Óðinn fjallað um áður, en það er rétt að halda þessu til haga, því þarna er dregin upp mynd af því hvaða augum Seðlabankinn lítur hlutverk sitt og hvaða vald hann telur sig þurfa að hafa yfir almenningi. Stjórnmálamenn í mörgum flokkum hafa svo ítrekað bugtað sig fyrir bankanum og veitt honum það vald sem hann sælist eftir.

                              ***

Nýjasta sendingin frá Umboðsmanni Alþingis varpar svo skýrara ljósi á það hver uppspretta þessarar valdafýsnar bankans raunverulega er. Tveir fyrrverandi bankaráðsmenn Seðlabankans kvörtuðu til Umboðsmanns vegna viðleitni sem þeir töldu til þess fallna að takmarka möguleika bankaráðsins til að gegna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu.

Umboðsmaður skrifaði forsætisráðherra og bankaráði bréf í desember í fyrra. Fréttablaðið fjallaði um efni bréfsins í vikunni og kemur þar fram að Seðlabankastjóri hafi túlkað lög á þann veg að bankaráðið gæti ekki kallað eftir upplýsingum frá starfsmönnum bankans, nema með samþykki og aðkomu seðlabankastjórans sjálfs. Eins gæti bankaráðið ekki fundað ef seðlabankastjóri væri fjarverandi.

                              ***

Starfsreglum bankaráðs var breytt til að skjóta styrkari stoðum undir þessa lagatúlkun Más Guðmundssonar, sem aftur sýnir það hve stjórnkerfið í heild sinni er fúst til að gefa eftir í valdasókn bankastjórans.

                              ***

Það ætti ekki að koma neinni hugsandi manneskju á óvart að Umboðsmaður er ósammála lagatúlkun Más. Hluti af eðlilegri upplýsingaöflun bankaráðs kunni að felast í því að óska eftir að tiltekinn starfsmaður bankans mæti á fund ráðsins til þess að veita þar milliliðalaust upplýsingar og svara spurningum.

„Ekki verður séð að ráðningarvald og stjórnunarréttur yfirmanna bankans gagnvart einstökum starfsmönnum geti fellt brott þennan upplýsingarétt bankaráðs nema mælt sé fyrir um slíkt í lögum,“ segir í bréfi umboðsmanns.

                              ***

Nema hvað!

Hvað varðar fundahald bankaráðs segir í bréfinu: „Ég tel því að það sé að minnsta kosti ekki einhlít túlkun á ákvæðinu [27. gr. laga um Seðlabanka Íslands] að bankaráðsfundir verði ekki haldnir nema að bankastjóri sjái sér fært að mæta þótt almennt sé gert ráð fyrir að hann sitji fundi þess.”

                              ***

Getulaust bankaráð

Hvaða forstjóra öðrum en Má Guðmundssyni myndi detta í hug að halda því fram að stjórn fyrirtækis eða stofnunar mætti ekki hittast á fundi nema í viðurvist hans? Hvaða forstjóra öðrum dytti í hug að banna stjórninni að tala við aðra starfsmenn fyrirtækisins eða stofnunarinnar? Hver annar en Már Guðmundsson telur sjálfan sig svona ómissandi?

                              ***

Ímyndum okkur að bankaráð hafi tilefni til að rannsaka embættisfærslur seðlabankastjóra vegna gruns um að eitthvað hafi ekki verið eins og það átti að vera. Hvernig á bankaráð að geta það ef bankaráðið getur ekki aflað neinna upplýsinga frá öðrum starfsmönnum bankans án aðkomu bankastjórans, né heldur fundað um málið nema með hann viðstaddan? Slík rannsókn er andvana fædd.

                              ***

Svo fáránlegt fyrirkomulag gæti aðeins viðgengist í Seðlabanka Íslands.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.