*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Leiðari
25. ágúst 2016 14:58

Seðlabanki viðurkennir mistök

Það er merkilegt að ákvörðun Seðlabankans hafi komið á óvart þegar allar hagtölur mæltu með stýrivaxtalækkun.

Haraldur Guðjónsson

Sú ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands að lækka loksins meginvexti er merkileg fyrir margra hluta sakir. Eins og viðbrögð á markaði báru með sér í gær þá kom hún á óvart, en miklar hækkanir voru á gengi allra hlutabréfa í kauphöll og eins lækkaði ávöxtunarkrafa allra helstu skuldabréfaflokka verulega. Svo miklar sveiflur gerast ekki nema ákvörðunin komi markaðsaðilum á óvart.

En það er einmitt það merkilega við gærdaginn – að ákvörðunin hafi komið á óvart. Allar hagtölur mæltu nefnilega með stýrivaxtalækkun og hafa gert það um nokkra hríð. Verðbólga er við gólf og verðbólguhorfur eru afar litlar. Seðlabankinn hefur hins vegar staðið fast við sinn keip og beðið eftir verðbólguskoti sem aldrei kom. Vissulega má færa fyrir því rök að ófyrirséðir ytri þættir hafi unnið með íslenska hagkerfinu hvað þetta varðar – miklar lækkanir á olíumörkuðum þar á meðal – en það hefur tekið bankann óeðlilega langan tíma að sjá að sér.

Það bendir einmitt ýmislegt til þess að í líkön bankans vanti nokkrar breytur. Það er sem bankinn hafi ofmetið aðgengi almennings að lánsfé, þ.e. að bankinn hafi ekki tekið nægilegt tillit til breyttra reglna um lánshæfismat og greiðslumat sem hafa temprað mjög útlán til íbúðakaupa einstaklinga. Þetta hefur haldið aftur af þenslu umfram það sem bankinn hefur gert ráð fyrir í sínum útreikningum.

Með ákvörðuninni nú var Seðlabankinn loksins að viðurkenna þessi mistök. Vilji menn nota varlegra orðalag má einnig segja að bankinn hafi verið að viðurkenna ákveðið ofmat á hættunni á verðbólguskoti í kjölfar kjarasamninga. Bankinn og stjórnendur hans geta þó huggað sig við það að fleiri óttuðust verðbólguskot í kjölfar launahækkananna og voru þeir því ekki einir í þeim báti.

Seðlabankinn gat hins vegar ekki annað en lækkað vexti nú. Eins og bent var á í skuldabréfayfirliti Capacent í vikunni var trúverðugleiki bankans í húfi. Þegar vaxtamunur milli Íslands og helstu viðskiptalanda var kominn yfir 4% gat bankinn ekki sent þau skilaboð að hann telji raunvaxtamuninn þurfa að vera svo mikinn til að halda fjármagni í landinu. Hefði bankinn því haldið vöxtum óbreyttum hefði hann grafið undan trúverðugleika sínum og undirstrikað óöryggi bankans gagnvart losun hafta. Eins gerir það lítið fyrir trúverðugleika seðlabanka ef hann er ófær um að viðurkenna mistök sem öllum eru ljós.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.