*

laugardagur, 25. september 2021
Óðinn
26. maí 2021 07:05

Seðlabankinn og skál

Ætlar fjármálaráðherra að leyfa ÁTVR að berjast gegn því að íslenskir eigendur netverslana selji áfengi og að leyfa ÁTVR að komast upp með að kalla sig annað en lögin segja?

Haraldur Guðjónsson

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í síðustu viku um 0,25%. Þessi ákvörðun peningastefnunefndarinnar kom Óðni nokkuð á óvart. Verðbólga hefur verið há og mun hærri en markmið bankans. Því er ákvörðunin skiljanleg. En eru líkur á verðbólgu næstu mánuði?

                                          ***

Gengi krónunnar veiktist í kjölfar COVID-19, aðallega vegna þess að ferðaþjónustan hrundi og lækkandi verðs á fiskafurðum. Þó að Seðlabankinn spái nú hægari bata í ferðaþjónustu þá eru stjórnendur þar orðnir bjartsýnir. Til að mynda er spáð 70-80% nýtingu á hótelum í ágúst, nýtt íslenskt flugfélag hefur tekið til starfa og erlend flugfélög eru að fjölga áfangastöðum frá Íslandi.

                                          ***

Verð á fiskafurðum mun einnig hækka þegar veitingastaðir og aðrir þeir sem greiða hátt verð fyrir fiskinn taka aftur til starfa þegar líður á sumarið. Einnig ganga veiðar mun betur í ár en í fyrra og afli og aflaverðmæti eru hærri, ekki síst vegna loðnunnar.

                                          ***

Óðinn metur það svo að þessi vaxtahækkun sé aðeins táknræn. Með henni er Seðlabankinn að benda lántakendum á að vextir geti hækkað. En vilji Seðlabankinn ekki drepa ferðaþjónustuna endanlega þá mun hann fara sér afar hægt í hækkun vaxta ef verðbólga lækkar skarpt með sterkari krónu.

                                          ***

Yfirlýsing seðlabankastjóra á Sprengisandi í lok nóvember í fyrra kom Óðni nokkuð á óvart. Þar sagði bankastjórinn að húsnæðismarkaðurinn hefði þurft á örvun að halda í COVID-19. 

„Fasteignamarkaðurinn var í miklum slaka og byggingageirinn var að lenda í miklum vandræðum. Það var mikilvægt fyrir fjárhag heimilanna að fasteignaverð myndi ekki líka lækka.“

Staðreyndin er sú að fasteignamarkaðurinn og byggingageirinn voru komnir í vandræði fyrir COVID-19.

Ástæðurnar voru nokkrar. Fall Wow air hafði mikil áhrif á hagkerfið. Bankarnir voru mjög tregir að lána og áttu lítið laust fé m.a. vegna eiginfjárkrafna frá Fjármálaeftirliti. Fjármálaeftirlitið hafði breytt reglum þannig að byggingaraðilar þurftu að eiga eigið fé fyrir framkvæmdum í lausu fé þegar lán var veitt. Margir fyrstu kaupendur biðu eftir því að ríkisstjórnin setti fram reglur um hlutdeildarlán.

                                          ***

Háir vextir voru ekki vandamálið og sögulega voru húsnæðisvextir á Íslandi bara alls ekki háir þegar COVID-19 tók hús á heiminum.

                                          ***

Nú hefur hins vegar staðan snúist við. Fyrir ári var offramboð á húsnæði en núna er skortur og skorturinn er vaxandi. Nú er engu öðru um að kenna en lóðarskorti. Það sem merkilegra er að sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu virðast ekki hafa nokkrar áhyggjur af stöðunni. Það er bent hingað og þangað á möguleg byggingarsvæði en svo tefst skipulagið á óskiljanlegan hátt í mánuði og ár.

                                          ***

Því er mikilvægt að allir átti sig á því að þótt sú verulega lækkun vaxta síðasta árið hafi haft mikil áhrif á fasteignamarkaðinn þá mun hækkun vaxta ekki slá á hækkanir fasteignaverðs nema að takmörkuðu leyti. Auðvitað getur Seðlabankinn drepið fasteignamarkaðinn með mun hærri vöxtum og lausa- og eiginfjárkröfum en þá deyr reyndar hagkerfið allt.

                                          ***

Vínið

Nýlega opnaði víninnflytjandinn Arnar Sigurðsson hjá Santewines (Skál vín) netverslun með vín og bjór. Til þess að allt væri samkvæmt lögum og reglum skráði hann netverslunina í Frakklandi. Það er nefnilega gerður greinarmunur á íslenskri netverslun og erlendri. Sú íslenska er bönnuð með lögum.

                                          ***

Umræðan sem spannst út frá þessu er kostuleg. Enn eru einhverjir sem telja að hægt sé að sporna við ofdrykkju með því að hefta aðgengi að áfengi. Þeir hinir sömu segja að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sé best til þess fallin þrátt fyrir að ríkisverslunin hafi fjölgað áfengisverslunum mikið á síðustu árum. Árið 1986 rak ríkiseinokunarverslunin 13 verslanir en þær eru í dag yfir 50.

                                          ***

Ekki nóg með það þá geta um 22% þeirra sem eru undir aldri keypt áfengi í vínbúðum ÁTVR. Í árskýrslu ÁTVR vegna ársins 2020 segir:

Hornsteinn samfélagslegrar ábyrgðar er að tryggja að viðskiptavinir hafi náð 20 ára aldri. Starfsfólk er þjálfað í að spyrja þá viðskiptavini sem virðast 24 ára eða yngri, um skilríki. Til að efla starfsfólk í skilríkjaeftirliti eru framkvæmdar hulduheimsóknir. Viðskiptavinir á aldrinum 20-24 ára versla í Vínbúðunum og skila niðurstöðum til rannsóknaraðila um hvort viðkomandi hafi þurft að framvísa skilríkjum.

Hulduheimsóknir eru framkvæmdar í öllum stærri Vínbúðum á höfuðborgarsvæðinu, á Selfossi, í Reykjanesbæ og á Akureyri. Að meðaltali eru þrjár heimsóknir í mánuði í hverja Vínbúð. Árangur hulduheimsókna var 78% sem er undir 90% markmiðinu. Í kjölfar COVID-19 lækkaði hlutfall þeirra sem voru spurðir um skilríki en síðustu mánuði ársins varð árangurinn betri. Þetta er auðvitað ömurlegur árangur hjá ríkiseinokunarversluninni.

                                          ***

ÁTVR gengur svo illa að hefta aðgengi á áfengi að sala ríkisverslunarinnar jókst um 18,29% árið 2020. Rökin fyrir rekstri þessarar verslunar eru engin. Ekki nokkur.

                                          ***

Nú er stjórn Fríhafnarinnar búin að átta sig á því að Fríhöfnin er ekki Fríhöfn, eins og Óðinn hefur bent ítrekað á. Nú er hugmyndin að breyta nafninu og er ein hugmyndin að kalla verslunina Komuverslun og Tax free á ensku. Það stenst jú allt skoðun þar sem virðisaukaskattur er ekki innheimtur af vörunum.

                                          ***

Ríkisstofnanir þurfa að starfa samkvæmt lögum og ákvarðanir þeirra þurfa að byggja á heimild í lögum. Í 4. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak segir að starfrækja skuli sérstaka stofnun, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, sem sinnir smásölu áfengis og heildsölu tóbaks undir stjórn ráðherra.

                                          ***

Hvergi í lögum er að finna hugtakið vínbúð og því er ÁTVR óheimilt að kalla verslanir sínar slíku nafni.

                                          ***

Nú væri ástæða fyrir stjórn ÁTVR að taka á málinu. En það er engin stjórn. Stjórnin er í höndum fjármálaráðherra. Ætlar fjármálaráðherra að leyfa ÁTVR að berjast gegn því að íslenskir eigendur netverslana selji hér áfengi og ætlar ráðherrann að leyfa stofnuninni að komast upp með að kalla sig annað en lögin segja? 

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.