*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Týr
16. október 2017 11:00

Segðu satt, Kata!

Það er ekki leiðtoga sæmandi þegar Katrín er rekin á gat um hvar hún ætli að finna milljarðana 70.

Haraldur Guðjónsson

Það var merkilegt að horfa á „leiðtogaumræðurnar“ á RÚV síðastliðið sunnudagskvöld. Ekki síst fyrir það, að þar stóðu 12 manns og svöruðu því hvað þeim fyndist um landsins gagn og nauðsynjar, en ekki nema 3-4 leiðtogar. Það er nú heldur rýrt en segir hálfa söguna um hvernig komið er fyrir íslenskum stjórnmálum.

                                                  ***

Spyrlarnir hefðu reyndar vel mátt vera forvitnari um leiðtogahæfileikana hjá þeim sem þarna stóðu og horfðu út í tómið. Þannig var t.d. alveg látið vera að spyrja Hönnu Katrínu Friðriksson, þingmann Viðreisnar, hvers vegna hún stæði þar en ekki Benedikt Jóhannesson, formaður flokksins. Áhorfendur spurðu sig hvort leiðtogamál Viðreisnar væru í uppnámi, en spyrlarnir spurðu einskis um það.

                                                  ***

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna er hins vegar óumdeildur leiðtogi innan síns flokks og á mælikvarða íslenskra stjórnmála. Það er enn greinilegra nú en nokkru sinni, því Vinstri græn hafa ákveðið að sýna engan frambjóðanda annan en formanninn.

Það er örugglega hyggilegt, því þeir hafa flestir kjörþokka á við blautan lopavettling. En ef stjórnmálaflokkur sendir aðeins einn frambjóðanda fram á sviðið, er eins gott að hann geti svarað öllum spurningum. Bæði satt og rétt.

                                                  ***

Hún kom vel og sköruglega fyrir í leiðtogaumræðunum, og hafði sitthvað til málanna að leggja, sem margt hljómaði bara ágætlega huggulega. En svo var hún spurð um skattamál og þá kárnaði gamanið.

                                                  ***

Kjarnastefna Vinstri grænna felst í stórauknum ríkisumsvifum og skattheimtu. Katrín talar um að sækja skuli ríflega 70 milljarða króna á ári í auknar skatttekjur og segir að almenningur muni ekki finna fyrir því. En skýrir svo ekkert nánar um það. Svaraði einhverjum allt öðrum spurningum þegar hún var innt eftir því. Það gengur ekki.

                                                  ***

Nú efar enginn að Vinstri græn standa öllum flokkum framar þegar kemur að hugvitssemi við skattlagningu. Skárra væri það nú með náunga eins og Steingrím J. Sigfússon og Indriða H. Þorláksson í bakherbergjunum. En þegar Katrín er rekin á gat um hvar hún ætli að finna milljarðana 70, þá er það annaðhvort vegna þess að hún er bara að tala út í loftið eða það er eitthvað sem hún vill ekki segja okkur. Hvorugt er leiðtoga sæmandi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.