*

mánudagur, 23. nóvember 2020
Týr
12. september 2016 10:56

Selfie myndir tryggja ekki árangur í pólitík

Ósigur Ragnheiðar Elínar Árnadóttur má ekki rekja til kynferðis hennar heldur skorts á tengingu við kjósendur.

Haraldur Guðjónsson

Aðalfrétt helgarinnar á vettvangi stjórnmálanna er stórsigur Páls Magnússonar, fv. útvarpsstjóra og fréttastjóra, í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Á sama tíma er kosningaósigur Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra ekki síður áhugaverður. Ragnheiður Elín sóttist eftir því að leiða lista flokksins í kjördæminu líkt og hún hefur gert frá árinu 2009. Niðurstaðan var hins vegar sú að Ragnheiður Elín lenti í fjórða sæti, sem verður að teljast algjör ósigur ef ekki niðurlæging. Um fjögur þúsund manns tóku þátt í prófkjörinu og hún fékk aðeins 26% fylgi í oddvitasætið.

Um þetta var mikið fjallað um helgina og verður sjálfsagt áfram næstu daga. Ráðherrann hefur nú þegar tilkynnt að hún ætli sér að hætta í stjórnmálum að loknum kosningum.

***

Hópur áhrifamikilla kvenna innan Sjálfstæðisflokksins hefur lýst yfir miklum vonbrigðum með niðurstöðu prófkjörsins sem og niðurstöðu prófkjörsins í Suðvesturkjördæmi, þar sem karlar skipa fjögur efstu sæti listans. 

***

En ósigur Ragnheiðar Elínar verður ekki rakinn til þess að hún sé kona. Að mati Týs eru það helst tveir þættir sem skýra ósigur hennar; annars vegar skortur á tengingu við kjördæmið og hins vegar vandræðagangur hennar sem ráðherra.

***

Fyrst að vandræðagangi hennar sem ráðherra. Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem hvað best gengur í landinu. Ragnheiður Elín, ráðherra ferðamála, hefur ekki náð að nýta sér velgengni greinarinnar í pólitískum tilgangi og það segir töluvert um pólitíska hæfni hennar. Þvert á móti virðast aðeins vandamálin sem tengjast greininni enda á borði ráðherrans án þess að á þeim finnist lausn, eins og Týr hefur áður bent á.

***

Náttúrupassinn var misheppnuð aðgerð frá upphafi. Kjósendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi vita að vinna við undirbúning náttúrupassans hófst í tíð Steingíms J. Sigfússonar, þá atvinnuvegaráðherra, og það gerir lítið fyrir stuðning ráðherrans í kjördæminu að halda áfram með slíkt verkefni. Náttúrupassinn hefði falið í sér aukna skattheimtu og útvíkkun á starfsemi ríkisins með tilheyrandi úthlutunarnefndum, umsýslu o.s.frv.

***

Það vakti líka furðu margra sjálfstæðismanna þegar ráðherrann undirritaði ívilnunarsamning við Matorku, sem fyrir algjöra tilviljun var að hefja starfsemi í kjördæmi ráðherrans. Þegar ráðherrann sagði á þingi að málið hefði fengið sömu afgreiðslu síðustu þriggja iðnaðarráðherra (sem allir voru vinstri menn) var það ekki til þess fallið að auka fylgi hennar meðal sjálfstæðismanna.

***

Íbúar í Reykjanesbæ, heimabæ ráðherrans, hafa heldur ekki gleymt því þegar hún á fyrstu dögum ráðherraferilsins síns tilkynnti að von væri á álveri í Helguvík. Þó svo að öllum mætti vera ljóst og mikið hafði verið um það fjallað hafði hið opinbera ekkert að gera með tafir á uppbyggingu álversins í Helguvík að gera. Deila HS Orku og Norðuráls um orkuverð hafði staðið yfir lengi og hefur ekki enn verði leyst, enda ekkert álver enn risið í Helguvík. Kjósendur á Suðurnesjum vita að það var ekki í höndum ráðherrans að reisa álverið, en það vakti óhug þeirra að ráðherrann skyldi gefa út yfirlýsingu sem allir máttu vita að var innantóm og áhrifalaus. Ekki gott upphaf á ráðherraferli.

***

En þá stuttlega að tengingunni við kjördæmið. Suðurlandskjördæmi er ekki auðvelt kjördæmi, enda víðfemt og stórt. Það er ekki nóg að mæta bara í stærstu partýin og taka sjálfsmynd til að sinna kjósendum kjördæmisins. Það féll heldur ekki vel í kjósendur þegar ráðherrann ákvað, daginn áður en Alþingi fór í sumarfrí, að ráða sér nýjan aðstoðarmann eftir að hafa komist af með einn aðstoðarmann í þrjú ár. Öllum mátti vera ljóst að hér var verið að ráða kosningastjóra fyrir komandi prófkjör, á kostnað skattgreiðenda. Týr vill að gefnu tilefni rifja upp að laun aðstoðarmanna ráðherra eru um milljón krónur á mánuði auk þess sem þeir fá síma- og ferðakostnað greiddann.

***

Það á enginn neitt í pólík og margir kjörnir fulltrúar voru minntir á það um helgina. Ragnheiður Elín á að baki tæplega 20 ára feril í stjórnmálum. Áður en hún settist á þing árið 2007 hafði hún verið aðstoðarmaður Geirs H. Haarde í fjármála-, utanríkis- og forsætisráðuneytinu frá árinu 1998.

***

Þó svo að Týr hafi oft verið ósammála Ragnheiði Elínu sér hann enga ástæðu til að gleðjast yfir óförum hennar nú né vill hann nudda henni upp úr ósigrinum. Týr vonar þó að þessi upprifjun megi vera öðrum til víti til varnaðar. Um leið og kjörnir fulltrúar hætta að hlusta á kjósendur sína, missa tengingu við kjördæmin sín og leggja meiri áherslu á að taka við framleiddu efni úr ráðuneytunum geta þeir ekki vænst árangurs í næsta prófkjöri. Þá skiptir kynferði engu máli.

***

Eftir stendur þó að karlar munu, að öllu óbreyttu, skipa 3-4 efstu sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjöræmi og í Suðvesturkjördæmi (Kraganum). Týr mun fjalla um það síðar, en burtséð frá því sem kemur fram hér í þessum pistli þá mun það reynast Sjálfstæðisflokknum erfitt að selja þá lista í komandi kosningum.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.