*

laugardagur, 4. desember 2021
Týr
15. ágúst 2021 12:08

„Sérfræðingarnir“ ráða ferðinni

Hér á landi þurfum við, enn sem komið er, bara að sitja undir skömmum Víðis á meðan stjórnmálamenn taka við skipunum sérfræðinga.

epa

Eins og margir horfði Týr á bandarísku sjónvarpsþættina um Sögu þernunnar (e. The Handmaid's Tale). Þættirnir eru byggðir á samnefndri bók kanadíska rithöfundarins Margaret Atwood,  sem kom út árið 1985, og lýsir distópískri mynd af framtíðarsamfélagi þar sem ofstækismenn hafa steypt ríkisstjórn Bandaríkjanna af stóli og komið á fót nýju alræðisríki.

Þó að um ágætis afþreyingu sé að ræða eru þættirnir á köflum þungir og draga upp dökka mynd af því samfélagi sem getur orðið til þegar öll réttindi einstaklinga, þá sérstaklega kvenna, eru afnumin og lítill hópur stjórnar öllu sem gerist í samfélaginu.

                                                                  ***

Fyrsta sería þáttanna var sýnd vorið 2017, örfáum mánuðum eftir að Donald Trump tók við völdum í Hvíta húsinu. Þá hófst umræða meðal fólks, sem alla jafna væri talið málsmetandi í umræðu bæði hér á landi og vestanhafs, um að þættirnir vörpuðu ljósi á það hvernig lífið gæti orðið ef menn eins og Trump hefðu of mikil völd.

Vissulega er Trump ruddi sem ber litla virðingu fyrir almennum réttindum fólks, en allar vangaveltur í þá átt að kjör hans væri fyrsta skrefið í átt að útópískri veröld alræðissinna voru úr lausu lofti gripnar. Framtíðin var ekki dekkri en svo að Trump tapaði næstu kosningum.

                                                                  ***

Það sem vekur þó athygli Týs er að það fólk sem hæst talaði í þessari umræðu er sama fólk og segir nú að við þurfum að treysta ókjörnum og ábyrgðarlausum sérfræðingum til að ákveða það hvernig við eigum að haga okkur í samfélaginu.

Í Ástralíu gengur herinn um göturnar til að framfylgja útgöngubanni og í Frakklandi gengur lögreglan á milli veitingastaða og almannarýma til að athuga hvort fólk sé með bólusetningarvottorðin á sér. Þetta er allt gert að ráðum sérfræðinga.

                                                                  ***

Hér á landi þurfum við, enn sem komið er, bara að sitja undir skömmum Víðis á meðan stjórnmálamenn taka við skipunum sérfræðinga.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.